17.5.2021

Samtal um samkeppni: Opinn umræðufundur um meðferð samrunamála

Veffundur, öllum opinn.

Þriðjudagurinn 1. júní 2021, kl. 9:00. Skráning á samkeppni@samkeppni.is.

Á fundinum mun Jani Ringborg, sérfræðingur hjá samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar ESB, fjalla um rannsókn samrunamála, en deildin hefur víðtæka reynslu af meðferð samrunarannsókna.

Með nýjum reglum um meðferð samrunamála, sem gildi tóku um síðustu áramót, voru formfestar breytingar á verklagi við meðferð samrunamála sem miða að aukinni skilvirkni, auk þess sem að fyrri reglur voru færðar til samræmis við nýlegar breytingar á samkeppnislögum. Nánar má fræðast um þessar breytingar hér.

Á fyrstu mánuðum þessa árs hefur fengist nokkur reynsla af beitingu hinna nýju reglna. Til dæmis hafa fyrirtæki í auknum mæli óskað eftir forviðræðum (e. pre-notification talks) sem ætlað er að bæta undirbúning samrunamála og auka skilvirkni í meðferð þeirra.

Þá hefur aukin reynsla fengist af skipulögðum stöðufundum við meðferð mála (e. state-of-play meetings) sem ætlað er að leiða til gagnsærri og skilvirkari málsmeðferðar.

Í ljósi fenginnar reynslu af hinum nýju reglum boðar Samkeppniseftirlitið nú til opins veffundar, þar sem öllum áhugasömum er boðið að taka þátt í opnu samtali og koma á framfæri sjónarmiðum um meðferð samrunamála og hinar nýju reglur.

Á fundinum mun Jani Ringborg frá framkvæmdastjórn ESB segja frá því hvernig forviðræður eru nýttar í meðferð samrunamála, hvernig samrunaaðilar geta liðkað til fyrir rannsókn og hvaða leiðbeiningar framkvæmdastjórnin getur gefið samrunaaðilum á meðan forviðræðum stendur. Framkvæmdastjórn ESB hefur mikla reynslu af meðferð samrunamála og þeim úrræðum sem um er að ræða, þ.á.m. forviðræðum, en samrunareglur samkeppnislaga sækja fyrirmynd sína til samrunareglugerðar ESB.

Með þátttöku á fundinum gefst stjórnendum fyrirtækja jafnframt tækifæri til að kynna sér verklag við meðferð samrunamála og hvaða tækifæri þeir hafa til þess að stuðla að skilvirkri málsmeðferð.

Fundurinn verður sá þriðji í röð umræðufunda um þetta málefni:

  • Fyrsti fundurinn var haldinn þann 16. október 2019, en til grundvallar umræðum á þeim fundi lá minnisblað eftirlitsins um meðferð samruna, reynslu og úrbótatækifæri.
  • Annar fundurinn var haldinn þann 11. desember 2020, en á þeim fundi var kallað eftir umræðum um drög að nýjum samrunareglum. Höfðu drögin áður verið birt til umsagnar og aflað sjónarmiða.

Þá er rétt að benda á að nýlega birti Samkeppniseftirlitið pistil á heimasíðu sinni ( nr. 4/2021), þar sem meðferð samrunamála hér á landi borin saman við samrunamál í nágrannalöndum. Þar kemur m.a. fram að málshraði hér á landi er sambærilegur við málshraða hjá framkvæmdastjórn ESB, þegar búið er að taka tillit til þess að stór hluti meðferðar hjá framkvæmdastjórninni á sér stað á vettvangi forviðræðna við samrunaaðila, þ.e. áður en tímafrestir í málinu byrja að líða.

Fundurinn nú verður haldinn í gegnum fjarfundabúnað og fer fram þriðjudaginn 1. júní nk., kl. 9:00. Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á fundinn með því að senda tölvupóst á samkeppni@samkeppni.is fyrir kl.16:00 þann 31. maí nk. Hlekkur á fjarfundinn verður sendur öllum skráðum þátttakendum.