Markaðs­skilgreiningar


Hvernig er samþjöppun á markaði mæld

Hugtakið „samþjöppun“ eða „samþjöppunarstig“ (e. concentration) á sér uppruna í atvinnuvegahagfræði (e. theory of industrial economics) og vísar það til þess hvernig velta á tilteknum markaði deilist niður á fyrirtækin sem starfa á markaðnum, þ.e. hver markaðshlutdeild þeirra er, hvers fyrir sig. . Markaðshlutdeild er almennt reiknuð út frá tekjum fyrirtækja en eðli sumra markaða er þannig að hægt er að meta hlutdeild út frá öðrum hagrænum þáttum, s.s. seldum einingum.

Til að meta samþjöppun á markaði er reiknaður út svokallaður samþjöppunarstuðull sem veitir góða vísbendingu um hve virk samkeppni er á viðkomandi markaði. Ef þar eru fá fyrirtæki eða jafnvel eitt með háa hlutdeild er samþjöppun mikil og líkur á að samkeppni sé takmörkuð.

Samþjöppun er oftast metin með því að reikna út svonefndan Herfindahl-Hirschman stuðul (sk. HHI stuðul). Er það gert með því að hlutdeild sérhvers fyrirtækis á þeim markaði sem er til skoðunar er hafin upp í annað veldi og síðan eru allar ferningstölur sem þannig verða til lagðar saman til að fá út gildi stuðulsins fyrir viðkomandi markað: HHI = MH12 + MH22 + MH32 + MH42 …+ MHn2

Í jöfnunni hér að ofan stendur MH12 fyrir markaðshlutdeild þess fyrirtækis sem er með hæstu hlutdeild (númer 1) í öðru veldi, MH22 fyrir hlutdeild fyrirtækis númer 2 í öðru veldi o.s.frv. Ef öll þrjú fyrirtækin sem starfa á tilteknum markaði hafa 50%, 30% og 20% hlutdeild er gildi HHI stuðulsins 3.800 (= [50 × 50] + [30 × 30] + [20 × 20]).

HHI stuðullinn getur verið allt frá því að vera nálægt núlli þegar mjög mörg smá fyrirtæki starfa á markaði og upp í 10.000 sem er gildið þegar eitt fyrirtæki hefur 100% hlutdeild á markaðnum (einokun). Markaðir þar sem HHI gildi eru undir 1.000 eru almennt taldir vera virkir samkeppnismarkaðir. Markaðir með HHI gildi á bilinu 1.000 til 1.800 eru taldir í meðallagi samþjappaðir markaðir. Markaðir með gildi á bilinu 1.800 til 2.000 nálgast það að vera mjög samþjappaðir. 

Markaðir sem hafa HHI gildi yfir 2.000 eru að öllu jöfnu álitnir mjög samþjappaðir markaðir. Þannig má segja að þegar fá stór fyrirtæki starfa á markaði sé samþjöppunarstuðullinn fyrir viðkomandi markað tiltölulega hár sem endurspeglar fremur takmarkaða samkeppni. Aftur á móti er samþjöppunarstuðullinn lágur þegar eingöngu smærri fyrirtæki starfa á tilteknum markaði en það bendir til þess að samkeppni á markaðnum sé virk.

Mælikvarðar á samþjöppun á markaði eru einkum notaðir af samkeppnisyfirvöldum til að leggja mat á áhrif fyrirhugaðra samruna á samkeppnisvirkni á markaði. Rétt er að taka fram að ýmis önnur sjónarmið eru einnig höfð til viðmiðunar við mat á áhrifum samruna á samkeppni, s.s. fjárhagslegur styrkleiki, aðgangshindranir að markaði og möguleg hagræðing sem hlýst af samruna.


Tengdar ákvarðanir

Tengdar ákvarðanir

Byggingaþjónusta


Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun


Fjármálaþjónusta


Neysluvörur, rekstrarvörur og fleira

  •  

Orkumál

  •  

Samgöngu- og ferðamál

  •  

Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta

  •  

Umhverfismál

  •  

Mennta og menningarmál

  •  

Tengt efni