Ólögmætt samráð

Allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskiptaleg atriði er bannað.

Lækkun eða niðurfelling á sektum

Reglur Samkeppniseftirlitsins um niðurfellingu og lækkun sekta eru númer 890/2005 og hægt að nálgast hér.

Til að auðvelda Samkeppniseftirlitinu að koma upp um ólögmætt samstarf fyrirtækja hafa verið settar reglur sem gera fyrirtækjum sem þátt taka í ólögmætu samstarfi kleift að draga sig út úr samstarfinu. Með því að koma upp um samstarfið og vinna með Samkeppniseftirlitinu að rannsókn þess geta fyrirtækin komist hjá sektum eða sektargreiðslur þeirra orðið mun lægri en ella.

Á það skal bent að samkvæmt samkeppnislögum geta sektir á fyrirtæki vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum numið allt að 10% af ársveltu fyrirtækjanna. Reglur sambærilegar þeim sem hér hafa verið settar eru í gildi í Bandaríkjunum, hjá Evrópusambandinu og víðar. Reynslan erlendis er sú að reglurnar hafa leitt til uppljóstrunar á ólöglegu samráði og auðveldað til muna rannsókn mála.

Með vísan til þess er talið að hagur samfélagsins af því að upplýsa ólögmætt samráð fyrirtækja vegi þyngra en þær sektir sem falla niður við það að fyrirtæki ganga til samstarfs við samkeppnisyfirvöld um að upplýsa slíka háttsemi.

Reglur um niðurfellingu eða lækkun sekta gilda eingöngu um brot er varða ólögmætt samráð. Fyrirtæki sem er þátttakandi í ólögmætu samráði eða ólögmætum samstilltum aðgerðum getur fengið sektir, sem ella hefðu verið á það lagðar, felldar niður eða lækkaðar. Í þessu samhengi skiptir öllu máli að viðkomandi fyrirtæki sé fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því að ólögmætt samráð eigi sér stað eða fyrst til þess að afhenda gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slíkt samráð.

Samkvæmt samkeppnislögum getur Samkeppniseftirlitið einnig ákveðið að kæra ekki til lögreglu brot starfsmanna og stjórnenda fyrirtækja sem hafa frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota á banni við samráði fyrirtækja eða hagsmunasamtaka þeirra. Reglur um lækkun og niðurfellingu sekta eru nú í endurskoðun með hliðsjón af fenginni reynslu og breytingum sem hafa átt sér stað í regluverki hér á landi og á evrópska efnahagssvæðinu.

Aðalatriði reglnanna

Samkvæmt reglunum mun Samkeppniseftirlitið fella niður sekt á fyrirtæki sem annars hefði verið sektað:

  • ef fyrirtæki er fyrst fyrirtækja til að láta samkeppnisyfirvöldum í té sönnunargögn sem að þeirra mati geta leitt til rannsóknar á meintu ólögmætu samráði
  • ef fyrirtæki er fyrst fyrirtækja til að láta samkeppnisyfirvöldum í té sönnunargögn sem að þeirra mati gerir þeim kleift að sanna hið ólögmæta samráð

Til að fá sekt fellda niður verður fyrirtæki einnig að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • það verður að sýna fullan samstarfsvilja á meðan á rannsókn málsins stendur og láta samkeppnisyfirvöldum í té öll sönnunargögn og allar þær upplýsingar sem það býr yfir í tengslum við hið meinta brot á meðan á rannsókn málsins stendur
  • það verður að hætta þátttöku sinni í hinu meinta broti eigi síðar en þegar það kemur upp um hið ólögmæta samráð
  • það má ekki hafa þvingað önnur fyrirtæki til þátttöku í hinu ólögmæta samráði

Þó að fyrirtæki uppfylli ekki skilyrðin til að fá sekt fellda niður getur það engu að síður uppfyllt skilyrði til að fá fjárhæð sektar lækkaða í máli sem varðar ólögmætt samráð fyrirtækja.

Til þess að fá sekt lækkaða verður fyrirtæki að láta Samkeppniseftirlitinu í té sönnunargögn sem að mati stofnunarinnar eru mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem stofnunin hefur þegar undir höndum. Þá verður fyrirtækið einnig að hætta þátttöku sinni í hinu meinta  ólögmæta samráði.

Þegar metið er hversu mikla lækkun á sektarfjárhæðinni fyrirtæki hlýtur er tekið tillit til þess á hvaða tímapunkti fyrirtækið lagði fram sönnunargögnin og hversu mikla þýðingu þau hafi haft fyrir rannsókn málsins. Einnig hefur Samkeppniseftirlitið hliðsjón af samstarfsvilja fyrirtækisins eftir að það lagði fram sönnunargögnin. Uppfylli fyrirtæki skilyrðin fyrir lækkun sektar mun sektin lækka með eftirfarandi hætti:

  • fyrsta fyrirtækið sem uppfyllir skilyrðin fyrir lækkun sektar getur fengið sektarupphæðina lækkaða um 30 til 50%
  • annað fyrirtækið sem uppfyllir skilyrðin fyrir lækkun sektar getur fengið sektarupphæðina lækkaða um 20 til 30%
  • önnur fyrirtæki sem á eftir koma og uppfylla skilyrðin fyrir lækkun sektar geta fengið allt að 20% lækkun á sektarupphæðinni

Þegar Samkeppniseftirlitið hefur staðreynt að fyrirtæki uppfylli skilyrðin fyrir niðurfellingu sektar tilkynnir stofnunin fyrirtækinu það skriflega. Jafnframt mun fyrirtæki sem óskar eftir lækkun sektarfjárhæðar og uppfyllir öll skilyrði vera skýrt frá því skriflega að til standi að lækka fjárhæð sektar sem hugsanlega verði lögð á fyrirtækið.

Fyrirtæki sem óskar eftir niðurfellingu á sekt eða lækkun á sektarfjárhæð skal óska eftir því við Samkeppniseftirlitið.


Tengdar ákvarðanir

Tengdar ákvarðanir

Byggingaþjónusta

Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun


Fjármálaþjónusta

Neysluvörur, rekstrarvörur og fleira

Orkumál

Samgöngu- og ferðamál

  •  

Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta

  •  

Umhverfismál

  •  

Mennta og menningarmál

  •