Kröfur til þeirra sem senda erindi

Mikilvægt er að undirbúa vel erindi til Samkeppniseftirlitsins, til að greiða fyrir ákvörðun um rannsókn eða frekari málsmeðferð.

Af þessum sökum eru sérstakar kröfur gerðar til erinda sem beint er til Samkeppniseftirlitsins, ætli málshefjandi að eiga aðild að rannsókn viðkomandi máls.  Í 6. grein (gr.) reglna um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, nr. 880/2005 , og í viðauka með reglunum er kveðið sérstaklega á um þetta.

Uppfylli erindi ekki þessar kröfur er erindið móttekið sem ábending, sem síðar kann að leiða til rannsóknar. Hægt er að leggja inn ábendingar um mál sem ekki uppfylla þessi skilyrði hér á vefnum og falla þau þá undir skilmála um ábendingar.

Helstu kröfur til erinda eru þessar:

  1. Erindi skulu vera skrifleg og skulu tvö ljósrit af erindinu og fylgiskjölum fylgja erindinu.  Einnig skal fylgja með eintak af erindinu á rafrænu formi.
  2. Trúnaðarupplýsingar:
    Ef trúnaðarupplýsingar koma fram í erindi skal einnig láta Samkeppniseftirlitinu í té eintak af erindi þar sem trúnaðarupplýsingar hafa verið felldar brott.
  3. Upplýsingar um þann sem sendir erindið:

    Nafn, heimilisfang, kennitala og netfang. Ef kvartandi er lögaðili skal greina frá starfsemi hans og starfsemi og uppbyggingu fyrirtækjasamstæðu sem hann eftir atvikum kann að vera aðili að.

  4. Upplýsingar um aðila sem erindi beinist að:

    Ef við á skal lýsa eins ítarlega og unnt er þeirri fyrirtækjasamstæðu sem viðkomandi fyrirtæki tilheyrir ásamt lýsingu á atvinnustarfsemi sem þessir aðilar stunda. Taka skal fram hvort sá sem ber fram erindi sé keppinautur eða viðskiptavinur þess sem kvartað er yfir eða hafi einhver önnur tengsl við hann.

  5. Lýsing á efni erindis:

    Ef kvartað er yfir meintu broti á samkeppnislögum eða opinberum samkeppnishömlum skal lýsa nákvæmlega þeim atvikum sem að mati kvartanda styðja það að brot hafi átt sér stað eða að samkeppni sé raskað. Jafnframt skal rökstutt hvers vegna þessi atvik eru talin fara gegn samkeppnislögum eða raska samkeppni. Lýsa skal með ítarlegum hætti þeirri vöru, þjónustu eða starfsemi sem tengist meintu broti eða samkeppnishömlum. Ef við á skal einnig lýsa þeim markaði sem erindið tekur til og þeim aðstæðum sem á honum ríkja, þ.m.t. viðskiptaháttum og eðli viðskipta með viðkomandi vörur eða þjónustu. Veita skal allar tiltækar upplýsingar um samninga, atvik, aðstæður eða aðgerðir þeirra aðila sem kvörtunin lýtur að. Ef við á skal tilgreina eftir föngum markaðshlutdeild allra viðkomandi fyrirtækja og gera grein fyrir helstu keppinautum og viðskiptavinum. Ef erindi lýtur að ósk um undanþágu frá 10. gr. og 12. gr. samkeppnislaga ber að setja fram ítarlegan rökstuðning sem styður það mat hlutaðeigandi að slík undanþága sé réttlætanleg.

  6. Sönnunargögn:

    Með erindinu skal fylgja afrit af öllum gögnum sem viðkomandi býr yfir og tengjast þeim atvikum sem erindið fjallar um. Slík gögn geta t.d. verið bréf, tölvupóstur, samningar, dreifibréf, fundargerðir, minnispunktar vegna funda eða símtala, yfirlit yfir verðþróun og önnur gögn eða hagtölur sem sýnt geta þróun á viðkomandi markaði o.s.frv. Tilgreina skal nafn og heimilisfang aðila sem staðfest geta þau atvik sem lýst er í erindi.

  7. Lögvarðir hagsmunir:

    Í erindi skal rökstutt hvaða lögvörðu hagsmuna hlutaðeigandi hafi að gæta. Einnig skal lýst þeim aðgerðum sem óskað er eftir að Samkeppniseftirlitið grípi til. Taka skal fram ef leitað hefur verið til annarra stjórnvalda eða dómstóla vegna málsins.

  8. Yfirlýsing:

    Ljúka ber erindi til Samkeppniseftirlitsins með eftirfarandi yfirlýsingu, undirritaðri af eða fyrir hönd allra sem að því standa:
    Undirritaðir lýsa því yfir að upplýsingar, sem veittar eru í erindi þessu, eru sannar, réttar og fullnægjandi samkvæmt bestu vitund, að óstytt afrit af skjölum fylgja með, að allt mat er tilgreint sem slíkt og sett fram samkvæmt bestu vitund og vitneskju um staðreyndir málsins og þar sem álit er látið í ljós er það gert í góðri trú. Undirritaðir hafa kynnt sér ákvæði 2. málsgrein. 42. gr. samkeppnislaga.