Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Stofnun félags Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku hf. og Orkuveitu Húsavíkur ohf. um nýsköpunarverkefnið EIM

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 11/2017
  • Dagsetning: 15/3/2017
  • Fyrirtæki:
    • Landsvirkjun
    • Orkuveita Húsavíkur ehf.
    • Norðurorka hf
    • Eyþing
  • Atvinnuvegir:
    • Orkumál
    • Raforkumál (framleiðsla, flutningur, dreifing og sala)
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings (landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðausturlandi), Norðurorku hf. og Orkuveitu Húsavíkur ohf. um nýsköpunarverkefnið EIM. Að mati Samkeppniseftirlitsins felur hið sameiginlega verkefni og stofnun á félaginu EIMUR í för með sér samruna í skilningi d. liðar 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Verkefnið er samstarfsverkefni aðila á starfssvæði Eyþings og hefur það að markmiði að tryggja bætta nýtingu orkuauðlinda, auka verðmætasköpun á svæðinu og fleira. Í þeim tilgangi hafi framangreindir aðilar ákveðið að stofna félag um samstarfsverkefnið. Eins og því er lýst mun samstarfsverkefnið EIMUR snúast um afmarkað skilgreint verkefni sem ekki eigi að hafa neikvæð áhrif á samkeppni. Verkefnið eigi að snúast um nýsköpun og þróun og aðkoma félagsins verði eingöngu í formi styrkveitinga, hvatningar til nýsköpunarverkefna, þekkingaraukningar, fræðslu og atvinnuþróunar. Þá sé Eimur ekki þátttakandi á markaði er snýr að framleiðslu eða sölu. Ekki er hægt að sjá að stofnun á félagi um nýsköpunarverkefnið EIM og tengt verkefni leiði til samræmingar milli sjálfstæðra fyrirtækja sem hindri samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Þá er heldur ekki talið að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist með tilkomu verkefnisins eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c. samkeppnislaga. Á grundvelli þess telur Samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tengslum við þennan samruna.