Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Haga hf. á öllu hlutafé í Eldum rétt ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 23/2022
  • Dagsetning: 18/10/2022
  • Fyrirtæki:
    • Hagar hf.
    • Eldum rétt ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
    • Matvörur
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Með ákvörðun þessari er tekin afstaða til kaupa Haga hf. (hér eftir „Hagar“) á Eldum rétt ehf. (hér eftir „Eldum rétt“), en í kaupunum felst samruni í skilningi 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir lágu á þeim tíma sem andmælaskjal var ritað var það frummat Samkeppniseftirlitsins að samruninn raskaði samkeppni og tilefni væri til íhlutunar.

    Í andmælaskjali felst hvorki stjórnvaldsákvörðun né er það á nokkurn hátt bindandi fyrir samkeppnisyfirvöld. Andmælaskjalið er ritað í þeim tilgangi að auðvelda samrunaaðilum að nýta andmælarétt sinn skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og stuðla að því að rétt ákvörðun verði tekin í málinu, sbr. 17. gr. reglna um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, nr. 880/2005. Ef athugasemdir, skýringar eða ný gögn þykja gefa tilefni til, geta ályktanir sem fram koma í skjalinu tekið breytingum. Í kjölfar útgáfu andmælaskjals bárust Samkeppniseftirlitinu athugasemdir beggja samrunaaðila. Auk þess var leitað sjónarmiða hagsmunaaðila og eftirlitið aflaði frekari gagna og upplýsinga. Með hliðsjón af þeim og í kjölfar áframhaldandi rannsóknar tók frummat stofnunarinnar breytingum, líkt og reifað er hér að framan. Grundvallarbreytingin felst í því að Samkeppniseftirlitið hefur tekið möguleg skaðleg áhrif samrunans til frekari skoðunar og komist að þeirri niðurstöðu að samrunaaðilar teljast ekki líklegir eða nánir keppinautar hvors annars. Auk þess er það mat Samkeppniseftirlitsins að líklegur markaður fyrir samsetta matarpakka er markaður í þróun og aðgangshindranir að honum eru takmarkaðar, m.a. vegna greiðs aðgengis að birgjum.

    Við samrunann munu Hagar öðlast yfirráð yfir Eldum rétt sem starfar á tengdum markaði og velta þess fyrirtækis bætast við efnahagslegan styrk Haga. Þrátt fyrir það er það mat Samkeppniseftirlitsins að vegna takmarkaðrar veltu Eldum rétt og þar af leiðandi takmarkaðrar viðbótar við efnahagslegan styrk samstæðu Haga séu ekki forsendur til þess að grípa til íhlutunar vegna styrkingar á markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði.

    Við meðferð málsins lögðu samrunaaðilar fram tillögur að skilyrðum til þess að mæta frummati Samkeppniseftirlitsins um skaðleg áhrif samrunans á samkeppni. Í ljósi niðurstöðu málsins koma þær tillögur ekki til frekari skoðunar en benda má á að Hagar eru bundnir af skilyrðum sem varða starfsemi Banana sem starfa á sviði innflutnings og sölu á ávöxtum og grænmeti. Þau skilyrði kveða á um jafnan aðgang fyrirtækja Haga og keppinauta þeirra að vörum og þjónustu Banana.

    Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn muni ekki hindra virka samkeppni sbr. 17. gr. c samkeppnislaga. Af þeim sökum er ekki ástæða til að aðhafast vegna þessa samruna.