18.9.2015

Efling samkeppni á ferðaþjónustumarkaði – Samtök ferðaþjónustunnar gera sátt við Samkeppniseftirlitið

Með ákvörðun nr. 24/2015, sem birt er í dag, lýkur rannsókn Samkeppniseftirlitsins á brotum Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) á 12. gr. samkeppnislaga. SAF sneri sér til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir sátt. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við samtökin. Með ákvörðuninni og undirliggjandi sátt er komið í veg fyrir háttsemi sem fer gegn samkeppnislögum. Um leið er stuðlað að því að áframhaldandi uppbygging ferðaþjónustu á Íslandi byggi á forsendum heilbrigðrar samkeppni.

Háttsemin

Samkvæmt 12. gr. samkeppnislaga er samtökum fyrirtækja, eins og SAF, óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Með sáttinni viðurkenna SAF m.a. að starfsemi samtakanna hafi farið gegn 12. gr. samkeppnislaga, einkum er varðar eftirfarandi háttsemi:

  • SAF safnaði verðupplýsingum fyrirtækja á ferðaþjónustumarkaði á skipulegan hátt sem á tilteknum tímapunkti var í þeim tilgangi að miðla þeim til aðildarfyrirtækja sinna og hvetja til hækkunar á verði og/eða viðhaldi verðs.
  •  SAF stuðlaði að samræmdum skilmálum fyrirtækja á ferðaþjónustumarkaði.
  • SAF aðstoðaði við, og gaf sjálft út til aðildarfyrirtækja, leiðbeiningar fyrir ýmis gjöld sem fyrirtækin innheimta, t.a.m. gjald fyrir afpantanir á þjónustu. SAF fallast á að greiða 45 m.kr. sekt vegna brotanna en þau áttu sér stað á gildistíma bæði eldri og núgildandi samkeppnislaga.

Breytingar til framtíðar

Mikilvægt er að vinna gegn því að sams konar háttsemi endurtaki sig á ferðaþjónustumarkaði og stuðla þannig að virkari samkeppni til frambúðar á mikilvægum markaði. Samhliða því að viðurkenna brot og fallast á greiðslu stjórnvaldssektar vegna þess hefur SAF því einnig fallist á að gera frekari breytingar á starfsemi sinni og innleiða m.a. samkeppnisréttaráætlun sem og að tryggja að stjórnendur og starfsmenn SAF, sem og aðildarfyrirtækja samtakanna, séu ávallt að fullu upplýstir um þær kröfur sem samkeppnisreglur gera til starfsemi fyrirtækja og samtaka fyrirtækja á samkeppnismörkuðum.

Ferðaþjónusta er ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs. Það er afar mikilvægt fyrir áframhaldandi framþróun greinarinnar og efnahagslífið í heild að hún sé reist á stoðum heilbrigðrar samkeppni. Samkeppni leiðir til aukinnar skilvirkni fyrirtækja og eykur líkur á að nýir keppinautar komi inn á markaði og veiti þeim sem eru óskilvirkari samkeppni. Samkeppni býr einnig í haginn fyrir nýsköpun sem elur af sér ný atvinnutækifæri. Þetta ferli leiðir síðan af sér aukna framleiðni og efnahagsframfarir. Samhliða nýtur neytandinn betra verðs, gæða og úrvals. Skilyrði þau sem sett hafa verið í ákvörðun þessari stuðla að því að áframhaldandi uppbygging ferðaþjónustu á Íslandi byggi á þessum forsendum.

Rannsóknin

Rannsókn þeirri sem lýkur með framangreindri ákvörðun var viðamikil og tók til langs tíma í starfi samtakanna. Stóð rannsóknin í nokkur ár. Verulegar tafir urðu á rannsókninni á árunum 2010-2012. Meðferð málsins er nánar lýst í ákvörðuninni.