31. október 2025
Uppfært í janúar
Vegna yfirstandandi heilsuvár af völdum COVID-19 standa neytendur og atvinnu- og efnahagslíf frammi fyrir áskorunum sem ekki eiga sér nein fordæmi. Af þeim sökum hefur Samkeppniseftirlitið opnað sérstaka upplýsingasíðu þar sem finna má upplýsingar um eftirfarandi:
Samstarf keppinauta – Undantekning frá banni við ólögmætu samráði
Samkvæmt samkeppnislögum er allt samkeppnishamlandi samstarf á milli fyrirtækja bannað. Hins vegar er í samkeppnisrétti viðurkennt að við tilteknar aðstæður getur samvinna fyrirtækja verið til þess fallin að stuðla m.a. að aukinni hagræðingu, skilvirkni og eflt tæknilegar framfarir. Til þess að slíkt samstarf sé heimilt þurfa jákvæð áhrif þess að vega þyngra en þau neikvæðu. Um slíkt er að ræða þegar sannað þykir að skilyrði samkeppnislaga til undantekningar frá ólögmætu samráði eru uppfyllt.
Undanþágukerfi samkeppnislaga tók grundvallarbreytingum þann 1. janúar 2021. Áður gat Samkeppniseftirlitið veitt fyrirtækjum eða samtökum þeirra undanþágu frá banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði. Heimild Samkeppniseftirlitsins til þessa var að finna í 15. gr. samkeppnislaga. Með þeim breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2021 var hins vegar tekið upp svonefnt sjálfsmatskerfi. Þetta þýðir að nú þurfa fyrirtæki sem hyggja á samstarf að meta sjálf hvort slíkt samstarf standist samkeppnislög. Sömuleiðis þurfa samtök fyrirtækja að meta hvort starfsemi þeirra uppfylli kröfur samkeppnislaga. Heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að veita fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja undanþágur frá banni við ólögmætu samráði og samkeppnishömlum er því fallin niður.
Í 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga koma fram skilyrði sem öll þurfa að vera uppfyllt til að samkeppnishamlandi samstarf sé undanskilið banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði. Þau eru m.a. að samstarfið stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu, efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir og veiti neytendum hlutdeild í þeim ávinningi sem af hlýst. Þá er mikilvægt að samstarfið gangi ekki lengra en þörf er á og takmarki ekki samkeppni á verulegum hluta markaðarins.
Samkeppniseftirlitið hefur gefið út leiðbeiningar um undantekningar frá ólögmætu samráði og beitingu 15. gr. samkeppnislaga og er þeim ætlað að auðvelda fyrirtækjum að fara að lögum og aðstoða við mat á því hvort samstarf falli undir skilyrði ákvæðisins.
Í tíð eldri lagaákvæðis veitti Samkeppniseftirlitið nokkrar undanþágur vegna aðstæðna sem höfðu skapast af völdum COVID-19. Var m.a. um að ræða samstarf sem miðaði að því að tryggja aðgengi að brýnum aðföngum og til að tryggja að viðskiptavinir ferðaskrifstofa kæmust til síns heima o.fl. Við veitingu þeirra lagði eftirlitið m.a. áherslu á að stjórnvöld á viðkomandi sviði, t.d. Lyfjastofnun og Ferðamálastofa, tækju þátt í samskiptum keppinauta þegar það átti við, hefðu yfirsýn yfir viðkomandi samstarf og þar með einnig yfirsýn yfir þær aðgerðir sem ráðist var í.
Hér að neðan er að finna yfirlit yfir það samstarf sem Samkeppniseftirlitið heimilaði með sérstakri undanþágu vegna aðstæðna af völdum COVID-19. Fyrirtæki geta, upp að vissu marki, haft hliðsjón af eldri ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum úrlausnum áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómstóla við mat á því hvort samstarf uppfylli skilyrði 15. gr. samkeppnislaga. Þó ber að huga að því að það getur haft áhrif á leiðbeiningargildi eldri ákvarðana, að þær voru teknar í öðru lagaumhverfi en því sem tók gildi 1. janúar 2021. Þannig geta eldri ákvarðanir haft takmarkað leiðbeiningargildi í sjálfsmatskerfi, að því er varðar sönnunarkröfur, og því mikilvægt að fyrirtæki leggi sjálfstætt mat á viðkomandi samstarf á hverjum tíma. Um þetta er fjallað í leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins, sbr. mgr. 59-61 og mgr. 94. Þá er mikilvægt að hafa í huga þær sérstöku aðstæður sem blöstu við vegna yfirstandandi heilsuvár af völdum COVID-19, á þeim tíma sem neðangreindar undanþágur voru veittar.
- Samstarf ferðaskrifstofa sem miðar að þvi að viðskiptavinir þeirra komist til síns heima og takmarka tjón af völdum COVID-19, sbr. ákvörðun nr. 12/2020. Samstarfið er bundið þeim skilyrðum að Ferðamálastofa meti samstarfið nauðsynlegt hverju sinni og að stofnunin sé þátttakandi í samskiptum keppinautanna. Nánari upplýsingar má nálgast hér.
- Heimild til handa Ferðamálastofu til að kalla saman ferðaþjónustuaðila á öllum sviðum til að meta hvernig brugðist skuli við áhrifum COVID-19. Þessi heimild er innifalin í ákvörðun nr. 12/2020, sbr. hér að ofan. Til skoðunar er af hálfu Ferðamálastofu hvort þörf sé að óska eftir frekari undanþágum á þessu sviði.
- Heimild til handa Samtökum í ferðaþjónustu (SAF) til að grípa til tiltekinna aðgerða til að auðvelda ferðaþjónustuaðilum að bregðast við breyttum aðstæðum vegna COVID-19, sbr. ákvörðun nr. 9/2020. Nánari upplýsingar má nálgast hér.
- Heimild til samstarfs tiltekinna fyrirtækja sem sinna áætlunarferðum til og frá Keflavíkurflugvelli, sbr. ákvörðun nr. 26/2020. Nánari upplýsingar má nálgast hér.
- Samstarf keppinauta á vettvangi innflutnings og dreifingar á lyfjum sem miðar að því að tryggja fullnægjandi aðgengi að lyfjum, sbr. ákvörðun nr. 11/2020. Samstarfið er bundið þeim skilyrðum að Lyfjastofnun meti nauðsyn samstarfsins og að stofnunin sé þátttakandi í samskiptum keppinautanna. Nánari upplýsingar má nálgast hér.
- Samstarf smærri lyfjaverslana (með 1-2 sölustaði) sem ætlað er að vinna gegn því að aðstæður vegna COVID-19 hafi þau áhrif að keppinautum fækki og samkeppni minnki á markaði fyrir smásölu lyfja, samhliða því að búa í haginn fyrir nauðsynlegt aðgengi að lyfjum. Undanþágan er m.a. bundin þeim skilyrðum að Lyfjastofnun sé gefinn kostur á að vera þátttakandi í samskiptum keppinauta vegna þessa og hafi yfirsýn yfir aðgerðir. Ákvörðun nr. 15/2020 má nálgast hér.
- Heimild til handa Embætti landlæknis til að kalla saman keppinauta á ýmsum sviðum, með það að markmiði að tryggja órofinn rekstur mikilvægrar starfsemi og fullnægjandi aðföng.
- Samstarf lánveitenda til þess að fresta tímabundið innheimtu skulda fyrirtækja. Undanþágan er m.a. bundin skilyrðum sem tryggja að samstarfið komi ekki í veg fyrir frekari greiðsluerfiðleikaúrræði. Ákvörðun nr. 13/2020 er aðgengilega hér.
Áður hafði Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) verið heimilað að beita sér fyrir og taka þátt í samstarfi aðildarfyrirtækja sinna og annarra aðila á lánamarkaði, sem miðar að því að undirbúa viðbrögð við tímabundnum greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna COVID-19. Forsenda heimildarinnar var að Seðlabanka Íslands væri boðið að taka þátt samskiptum keppinauta og utanaðkomandi aðili með þekkingu á samkeppnisrétti haldi utan um samskiptin.
- Afmarkað samstarf Skeljungs og ODR sem miðar að því að tryggja aðgang að eldsneyti í öllum byggðarlögum. Undanþágan gerir félögunum kleift að aðstoða hvort annað tímabundið við dreifingu eldsneytis þar sem erfiðleikar koma upp vegna fámennis, veikinda eða annarra takmarkana sem stafa af COVID-19. Ákvörðun nr. 14/2020 má nálgast hér.
- Afmarkað eins skiptis samstarf í sjóflutningum sem miðaði að því að tryggja flutning tiltekinnar lyfjasendingar til landsins.
Hvað er til ráða ef verð á mikilvægum vörum og þjónustu hækkar við þessar aðstæður? – Aukið eftirlit með samkeppnishindrunum
Samkeppniseftirlitið
vill tryggja að söluaaðilar nýti sér ekki þær aðstæður sem uppi eru á meðan COVID-19
faraldurinn gengur yfir heimsbyggðina og hækki verð óeðlilega mikið eða okri á
viðskiptavinum eða neytendum til tjóns. Á þetta sérstaklega við um
nauðsynjavörur og svo vörur sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja
heilbrigði, s.s. handsótthreinsiefni og hlífðargrímur.
Af
þessu tilefni eru neytendur, fyrirtæki
og stjórnvöld hvött til þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart um allar
vísbendingar um óeðlilegar verðhækkanir eða okur á vörum og þjónustu. Hægt er
að senda Samkeppniseftirlitinu ábendingar með því að smella hér, í
gegnum netfangið samkeppni@samkeppni.is eða
með því að hafa samband í síma 585-0700.
Samkeppniseftirlitið
mun eins og kostur er vinna úr innkomnum ábendingum og m.a. taka afstöðu til
þess hvort ábendingin kalli á eitthvað af eftirtöldu:
- Til greina kemur birgja fyrrgreindra nauðsynjavara að ákveða hámarks- eða leiðbeinandi verð í
smásölu, til þess að vinna gegn óeðlilegum hækkunum á smásölustigi. Getur
Samkeppniseftirlitið greitt fyrir slíkum varúðarráðstöfunum með undanþágu á
grundvelli 15. gr. í þeim tilvikum þar sem markaðshlutdeild viðkomandi
fyrirtækja er hærri en 30%. Sé hún lægri er hins vegar ekki þörf á undanþágu.
- Hvort rannsaka þurfi mögulega misnotkun á
markaðsráðandi stöðu, sbr. 11. gr. samkeppnislaga.
- Hvort rannsaka þurfi mögulegt samráð
keppinauta, sbr. 10. gr. samkeppnislaga.
- Hvort tilefni sé til aðgerða til að koma í
veg fyrir að háttsemi á markaði valdi almenningi tjóni, sbr. c-lið 1. mgr. 16.
gr. samkeppnislaga.
- Hvort tilefni sé til þess að taka ákvörðun
til bráðabirgða og stöðva strax t.d. ætlað okur, sbr. 3. mgr. 16. gr.
samkeppnislaga.
- Hvort ábendingin eigi fremur undir önnur
stjórnvöld, t.d. Neytendastofu, Lyfjastofnun eða Seðlabankann
(fjármálaeftirlit). Verður ábendingin þá framsend til viðkomandi stjórnvalds.
Mikilvægt
er að vera vakandi fyrir því að fyrirtæki nýti sér ekki þetta fordæmalausa ástand
til þess að brjóta samkeppnislög og með því skaða hagsmuni samfélagsins alls. Samkeppniseftirlitið
hvetur annars vegar fyrirtæki að gæta þess að fylgja samkeppnislögum og hins
vegar neytendur og markaðsaðila að vera vakandi yfir samkeppnislagabrotum og
tilkynna Samkeppniseftirlitinu ef grunur vaknar um samkeppnislagabrot.
Áherslur í samkeppnismálum – Hvað getum við lært af öðrum og hvernig getum nýtt reynsluna úr bankahruninu við úrlausn samkeppnismála nú?
(Uppfært
5. júní): Samkeppniseftirlitið hefur á liðnum vikum og mánuðum viðað að
sér upplýsingum og sjónarmiðum sem nýst geta við mótun samkeppnisstefnu
við breyttar efnahagsaðstæður af völdum COVID-19. Meðal annars hefur
Samkeppniseftirlitið leitað til innlendra fræðimanna á vettvangi
samkeppnis- og efnahagsmála. Ennfremur hefur eftirlitið nýtt þátttöku
sína í erlendu samstarfi samkeppniseftirlita í þessu skyni. Nefna má sem
dæmi að Samkeppniseftirlitið stóð fyrir mánaðarlegum fjarfundum
forstjóra norrænu samkeppniseftirlitanna þar sem eftirlitin báru saman
bækur sínar.
Þá stendur Samkeppniseftirlitið fyrir alþjóðlegri vefráðstefnu þriðjudaginn 9. júní nk., þar sem þessi mál verða rædd. Nálgast má upplýsingar um ráðstefnuna hér.
Stjórnvöld
á Íslandi og íslensk fyrirtæki geta á ýmsan hátt nýtt sér þá reynslu sem varð
til við bankahrunið og við úrlausn á þeim efnahagserfiðleikum sem fylgdu í
kjölfarið. Það á líka við um samkeppnisstefnu og úrlausn samkeppnismála. Hér er
vert að vekja athygli á nokkrum atriðum:
- Reynsla annarra ríkja af efnahagskreppum og
rannsóknir fræðimanna sýna að aðgerðir til þess að efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins. Sömu
heimildir sýna að ráðstafanir sem takmarka samkeppni framlengja og auka á
efnahagsörðugleika og vinna þar með gegn bata.
Samkeppni í viðskiptum er nauðsynleg fyrir
íslenskt atvinnulíf þar sem hún eykur velferð almennings og stuðlar að
hagkvæmni í atvinnurekstri. Virk samkeppni er atvinnuskapandi og stuðlar að
aukinni framleiðni og efnahagslegum vexti. Samkeppniseftirlitið fjallaði
ítarlega um þetta í kafla II í skýrslu nr. 2/2008, Öflug uppbygging, sem
aðgengileg er hér.
- Mjög mikilvægt er að hugað sé vel að aðkomu banka og stjórnvalda að
rekstrarerfiðleikum fyrirtækja. Í alvarlegum rekstarerfiðleikum heilla
atvinnugreina geta ákvarðanir banka og stjórnvalda haft grundvallarþýðingu
fyrir samkeppnisaðstæður á viðkomandi mörkuðum og þar með hagsmuni neytenda til
langrar framtíðar.
Samkeppniseftirlitið fjallaði ítarlega um
þetta á árunum 2008-2011. Nefna má að haustið 2008 gaf Samkeppniseftirlitið út
álit nr. 3/2008, Ákvarðanir banka og
stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum. Þar er að finna 10
meginreglur (boðorð) sem mótuð voru í samstarfi við Samtök atvinnulífsins.
Þessar meginreglur eiga vel við í þeim aðstæðum sem nú eru að skapast. Álitið
er aðgengilegt hér.
Eftirlitið fjallaði einnig ítarlega um þessi
álitaefni í skýrslu nr. 2/2009, Bankar og
endurskipulagning fyrirtækja, sem aðgengileg er hér.
- Í umræðu nú er rætt um að gera þurfi
greinarmun á lausafjárvanda og
eiginfjárvanda fyrirtækja. Jafnframt heyrast raddir stjórnenda stöndugra
fyrirtækja sem vara við því að skuldir verr rekinna fyrirtækja séu
endurskipulagðar.
Samkeppniseftirlitið fjallaði talsvert um
þessi álitaefni í tengslum við bankahrunið, sbr. m.a. skýrslu nr. 2/2009 sem
áður er getið, sem og skýrslu nr. 2/2011, Samkeppnin eftir hrun. Í þeirri skýrslu
voru skilgreindir nokkrir neikvæðir hvatar sem tafið höfðu og skekkt heilbrigða
endurskipulagningu. Einn þeirra var svokallaður sanngirnisvandi, sem fólst í því að vel rekin varkár fyrirtæki, sem
ekki þurftu stuðning, stóðu frammi fyrir samkeppni af hendi fyrirtækja sem verr
voru rekin en fengu niðurfellingu og endurskipulagningu skulda.
Áþekkur neikvæður hvati væri t.d. ef eigendur
fyrirtækja, sem m.a. þiggja eða hafa þegið arð af rekstri þeirra, væru ekki
fullir þátttakendur í þeim stuðningi sem fyrirtæki þeirra fær fyrir tilstilli
stjórnvalda, en væru þess í stað fyrst og fremst þiggjendur stuðnings. Vinna má
gegn þessu með því t.d. að setja takmarkanir á arðgreiðslur eða aðrar aðgerðir
eigenda sem fyrst og fremst eru þeim til hagsbóta.
- Af framangreindu er ljóst að gæta þarf þess
að stuðningsaðgerðir á vettvangi stjórnvalda raski ekki samkeppni. Þannig hefur
Samkeppniseftirlitið nýlega bent á í umsögn sinni við 683. þingmál, um aðgerðir
til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, að
skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaúrræðum geti falið í sér ýmis vafatilvik.
Til
að mynda geti verið að fyrirtæki séu lífvænleg þrátt fyrir að þau kunni ekki að
uppfylla skilyrði um að hafa ekki verið í vanskilum í tiltekinn tíma, sbr.
skilyrði í samkomulagi lánveitenda um frestun greiðslna á skuldum. Í þessu
sambandi er einnig rétt að benda á að ekki er hægt að útiloka hættuna á því að
nýsköpunarfyrirtæki sem annars kynnu að eiga sér bjarta framtíð verði útundan í
því hjálparstarfi sem nú stendur yfir.
Óheppileg hliðaráhrif stuðningsaðgerða væru
þannig t.d. þau að markaðsráðandi staða tiltekinna fyrirtækja myndi styrkjast
þar sem smærri fyrirtæki á viðkomandi markaði myndu heltast úr lestinni,
jafnvel þótt þau gætu til lengri tíma talist lífvænleg.
- Í umræðum um endurreisn fyrirtækja í kjölfar
bankahrunsins talaði Samkeppniseftirlitið fyrir því að stuðst væri við
svokallað samkeppnismat (e. Competition
Assessment) við undirbúning á aðgerðum stjórnvalda. Matið felur í sér
einfalda aðferðafræði sem miðar að því að koma auga á samkeppnishindranir. Ef
slíkar hindranir koma í ljós er í framhaldinu leitað leiða að settu markmiði,
sem síst skaða samkeppni. Samkeppniseftirlitið beindi sérstöku álit til
stjórnvalda um þetta efni, sbr. álits
nr. 2/2009, Samkeppnismat
stjórnvalda.
Benda má á að OECD stýrir nú sérstöku verkefni hér
á landi, í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og
Samkeppniseftirlitið, þar sem komið er auga á samkeppnishindranir í núgildandi
regluverki í ferðaþjónustu og á byggingamarkaði. Nýta má niðurstöður þeirrar
vinnu til þess að flýta endurreisn efnahagslífsins í kjölfar COVID-19.
- Við úrlausn á fjárhagsvanda fyrirtækja og
heimila beitti Samkeppniseftirlitið í talsverðu mæli heimild 15. gr.
samkeppnislaga til að veita undanþágur
frá banni við ólögmætu samráði. Nefna má í þessu sambandi undanþágur til
fjármálafyrirtækja, þ.m.t. vegna sértækrar skuldaðlögunar og greiðsluaðlögunar,
sbr. ákvarðanir nr. 23/2010 og 10/2011, og
vegna samstarfs í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 varðandi
gengistryggð lán, sbr. ákvörðun nr. 4/2012.
Umsagnir til Alþingis og stjórnvalda
Samkeppniseftirlitið
hefur veitt nokkrar umsagnir við meðferð Alþingis á frumvörpum og
undirbúning á öðrum aðgerðum stjórnvalda. Nefna má eftirfarandi
umsagnir:
- Umsögn um frumvarp til laga um ferðagjöf, 839. mál.
- Umsögn um frumvarp um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, 811. mál.
- Umsögn um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, 683. mál.
- Umsögn um samstarf í innkaupum á sóttvarnarbúnaði.
Hvaða áherslur hefur Samkeppniseftirlitið við rannsókn samruna við þessar aðstæður?
Fyrri
reynsla sýnir að á tímum efnahagslegra erfiðleika reynir oft á beitingu
samkeppnislaga. Í því efni er mikilvægt að hafa í huga að erfið staða
fyrirtækja á mörgum mikilvægum samkeppnismörkuðum gerir aðgerðir til þess að
efla samkeppni brýnni en ella, sbr. nánar um reynsluna af bankahruninu.
Þetta
á m.a. við um samrunaeftirlit. Í efnahagserfiðleikum vakna oft spurningar um
hvort lausna á vandanum geti verið að leita í auknum samrunum fyrirtækja.
Áherslur Samkeppniseftirlitsins eru skýrar að þessu leyti: Það eru ekki
forsendur til þess að víkja frá hefðbundnum viðmiðum við mat á samrunum þegar
efnahagsörðugleikar steðja að. Með því að heimila samruna sem í venjulegu
árferði væri stöðvaður, væri Samkeppniseftirlitið að taka þátt í að fresta
vandanum, þ.e. skapa samkeppnisaðstæður á markaði sem baka myndu neytendum tjón
í framtíðinni.
Á
hinn bóginn er þekkt að í efnahagserfiðleikum reynir í ríkara mæli á þá
undantekningarreglu samkeppnisréttar sem heimilar samþykki samruna, sem ella
hefðu skaðleg áhrif á samkeppni, á þeirri forsendu að yfirtekna fyrirtækið sé á fallandi fæti. Talsvert
reyndi á þetta skilyrði í málum er tengdust bankahruninu. Í þessu sambandi
vísast t.d. til ákvörðunar nr. 33/2011, Yfirtaka
Íslandsbanka hf. á Byr. hf. Jafnframt var nýlega fjallað um
undantekningarregluna í ákvörðun eftirlitsins nr. 34/2019, Kaup Zinkstöðvarinnar ehf. á Stekki ehf.
Samkeppniseftirlitið
hefur hins vegar fullan skilning á mikilvægi þess að hraða samrunarannsóknum
þegar efnahagserfiðleikar steðja að og mun kappkosta að leysa úr málum eins
hratt og mál leyfa.
Af
framangreindu leiðir að Samkeppniseftirlitið mun leggja áherslu á eftirfarandi
við úrlausn samrunamála:
- Vera
sveigjanlegt í meðferð brýnna samrunamála og hraða málsmeðferð
- Að
beita hefðbundnu og viðurkenndu mati á samkeppnislegum áhrifum samruna.
Að hverju þarf að hyggja við ríkisaðstoð/ríkisstyrki og til hvaða aðgerða hafa stjórnvöld í kringum okkur verið að grípa?
Til að aðstoða íslensk stjórnvöld vegna COVID-19 hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) stofnað starfshóp sem verður stjórnvöldum innan handar vegna ráðstafana sem gætu flokkast sem ríkisaðstoð samkvæmt samkeppnisreglum EES-samningsins.
Ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins taka tillit til sérstakra aðstæðna líkt og COVID-19, og er í samningnum að finna lagastoð fyrir margvíslegum ráðstöfunum sem unnt er að veita fyrirtækjum í rekstrarerfiðleikum. Hvers kyns ríkisaðstoð eða ríkisaðstoðarkerfi þarf að hljóta samþykki ESA áður en það kemst til framkvæmdar. Með fyrrgreindum starfshópi er ESA reiðubúið að taka afstöðu til veitingu ríkisaðstoðar á skömmum tíma.
Á heimasíðu ESA og heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins má finna upplýsingar um ríkisaðstoðarreglur og COVID-19 og er þar að finna umfjöllun um nýjustu vendingar á sviði ríkisaðstoðar vegna COVID-19.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og ESA samþykkti strax upphafi fjölda aðgerða hjá aðildarríkjum sem miðuðu að því að bregðast við áhrifum COVID-19 á hagkerfi landanna. Hér er yfirlit yfir aðgerðir frá 12.-26 mars:
- 12. mars: 12 milljón evra ríkisstyrkur danskra stjórnvalda til handa skipuleggjendum viðburða í Danmörku sem hafa orðið fyrir tjóni vegna COVID-19. Sjá nánar hér.
- 21. mars: Aðgerðir franskra stjórnvalda sem leiða til meira en 300 milljarða evra lausafjárstuðnings til handa fyrirtækjum sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Sjá nánar hér.
- 21. mars: Aðgerðir danskra stjórnvalda sem fela í sér um 130 milljóna evra stuðning til handa litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Aðgerðirnar fela í sér ríkisábyrgð á rekstrarlánum upp að allt að 70%. Sjá nánar hér.
- 22. mars: Aðgerðir þýskra stjórnvalda sem fela í sér stuðning til fyrirtækja sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Aðgerðirnar fela m.a. í sér ríkisábyrgð á lánum upp að allt að 90%. Sjá nánar hér.
- 22. mars: 50 milljón evra stuðningur ítalskra stjónvalda til handa fyrirtækjum sem framleiða, eða geta fært framleiðslu sína yfir í, lækningatæki og hlífðarfatnað. Sjá nánar hér.
- 22. mars: Aðgerðir portúgalskra stjórnvalda sem fela í sér um 3 milljarða evra stuðning til handa m.a. litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Aðgerðirnar fela í sér ríkisábyrgð á rekstrarlánum upp að allt að 90%. Sjá nánar hér.
- 23. mars: Aðgerðir lettneskra stjórnvalda sem fela í sér stuðning til lána sem nema samtals 250 milljón evra. Aðgerðirnar fela m.a. í sér ríkisábyrgð á rekstrarlánum upp að allt að 50%. Sjá nánar hér.
- 24. mars: Aðgerðir stjórnvalda í Lúxemborg fela í sér stuðning til fyrirtækja og sérfræðinga (e. liberial professions) og nema samtals 300 milljónum evra. Sjá nánar hér.
- 24. mars: Frekari aðgerðir þýskra stjórnvalda sem fela í sér stuðning til allra fyrirtækja. Aðgerðirnar fela í sér ríkisábyrgð á lánum á hagstæðum kjörum til þess að aðstoða fyrirtæki til þess að standa straum af því rekstrarfé og fjárfestigum sem þörf er á. Sjá nánar hér.
- 24. mars: Frekari aðgerðir þýskra stjórnvalda („Bundesregelung Kleinbeihilfen 2020”) sem fela í sér stuðning sem hefur það að markmiði að truflanir vegna COVID-19 grafi ekki undan lífvænleika þeirra. Aðgerðirnar fela m.a. í sér beinan fjárhagslegan stuðning, stuðning sem greiða þarf til baka og skattalegar ívilnanir. Sjá nánar hér.
- 25. mars: Aðgerðir spænskra stjórnvalda fela í sér 20 milljarða evra ábyrgð á nýjum lánum og endurfjármögnun til handa sjálfstætt starfandi, litlum, meðalstórum og stórum fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir áhrifum af COVID-19. Aðgerðirnar fela m.a. í sér ríkisábyrgð á lánum upp að allt að 70% fyrir stærri fyrirtæki og allt að 80% fyrir sjálfstætt starfandi. Sjá nánar hér.
- 25. mars: Aðgerðir breskra stjórnvalda sem fela í sér stuðning til handa litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Aðgerðirnar fela m.a. í sér ríkisábyrgð á rekstrarlánum upp að allt að 80% og beina styrki. Sjá nánar hér.
- 25. mars: Aðgerðir danskra stjórnvalda sem fela í sér meira en um 1,3 milljarða evra stuðning til handa sjálfstætt starfandi sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Í stuðningnum felst að allt að 75% af væntum tekjumissi er bættur, allt að 3 þúsund evrum á mánuði. Sjá nánar hér.
- 26. mars: Aðgerðir ítalskra stjórnvalda sem fela í sér stuðning til handa litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Aðgerðirnar fela m.a. í frestun greiðslna vegna yfirdráttar, húsnæðislána og leigu. Sjá nánar hér.
- 26. mars: Aðgerðir norskra stjórnvalda sem fela í sér stuðning til handa örlitlum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem COVID-19 hefur haft áhrif á. Aðgerðirnar fela m.a. í sér ríkisábyrgð á lánum til rekstrar og fjárfestinga sem veitt eru af fjármálastofnunum. Sjá nánar hér.
Á vefsíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að finna greinargott yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda víða um heim vegna COVID-19.
Áherslur samkeppnisyfirvalda í kringum okkur
Samkeppniseftirlitið
er þátttakandi í samstarfi samkeppnisyfirvalda innan Evrópska efnahagssvæðisins
og á vettvangi Norðurlandanna, þar sem m.a. eru dregnar saman upplýsingar um
viðbrögð stjórnvalda við COVID-19 og áhrif á samkeppni. Nokkur
samkeppnisyfirvöld hafa boðað breyttar áherslur, á komandi vikum og mánuðum,
eða tekið ákvarðanir þar sem COVID-19 faraldurinn hefur haft bein áhrif. Stutta
samantekt er að finna hér að neðan (Síðast uppfært 30. mars 2020):
- Samtök
evrópskra samkeppnisyfirvalda (e. European Competition Network) hafa birt
sameiginlega yfirlýsingu um beitingu samkeppnislaganna á tímum COVID-19. Í
yfirlýsingunni er lögð áhersla á að samkeppnisyfirvöld á Evrópska
efnahagssvæðinu muni beita samkeppnisreglum og eftirliti í samræmi við þær
samfélagslegu og efnahagslegu aðstæður sem nú eru uppi. Nú sem endranær sé
mikilvægt að nýta samkeppnisreglur til að tryggja jafna samkeppnisstöðu
fyrirtækja. Markmið samkeppnislaga séu einnig mikilvæg í efnahagserfiðleikum
eins og þeim sem nú hellast yfir.
Í
yfirlýsingunni er jafnframt gerð grein fyrir því að hin fordæmalausa staða sem
nú er uppi geti kallað á samstarf fyrirtækja til þess að tryggja aðföng og
dreifingu mikilvægra vara til neytenda. Evrópsk samkeppnisyfirvöld muni að
líkindum ekki grípa inn í nauðsynlegt samstarf af því tagi. (Ath. að fæst
evrópsku eftirlitanna geta gefið fyrirtækjum fullvissu um að samstarf þeirra
samræmist lögum, líkt og hið íslenska getur skv. 15. gr. samkeppnislaga).
Á
sama tíma sé mikilvægt að þær vörur sem nauðsynlegar séu til þess að tryggja
heilbrigði, s.s. andlitgrímur og sótthreinsiefni, séu til sölu á samkeppnishæfu
verði. Því muni evrópsk samkeppnisyfirvöld ekki hika við að bregðast við ef
markaðsráðandi fyriræki misnota stöðu sína eða ef keppinautar eiga með sér
samráð. Einnig er bent á að til greina komið að framleiðendur setji hámarksverð
á vörur, sem gæti reynst vel til að takmarka verðhækkanir á dreifingarstigi. Nánari
upplýsingar má finna hér.
- Bresk
samkeppnisyfirvöld hafa birt fréttatilkynningu þar sem m.a. kemur fram að
eftirlitið muni skoða allar vísbendingar um brot á samkeppnislögum í tengslum
við COVID-19 faraldurinn og nefna í því samhengi sérstaklega okurverðlagningu.
Fyrirtæki og aðrir endurseljendur þurfi haga sér á ábyrgan hátt og gæta að því
að selja ekki vörur á uppsprengdu verði. Þetta er haft eftir forstjóra
eftirlitsins, Andrea Coscelli: „We urge
retailers to behave responsibly throughout the coronavirus outbreak and not to
make misleading claims or charge vastly inflated prices. We also remind members
of the public that these obligations may apply to them too if they resell
goods, for example on online marketplaces.” Nánari upplýsingar má finna hér.
- Bresk
stjórnvöld hafa einnig heimilað dagvörusölum að vinna saman til þess að fæða
bresku þjóðina. Aðgerðinar leyfa dagvörusölum m.a. að miðla upplýsingum um
birgðastöðu, eiga með sér samstarf til þess að halda verslunum opnum og samnýta
dreifingu á vörum. Er þetta liður í aðgerðum ríkisstjórnar, en þarlend
samkeppnisyfirvöld hafa ekki sömu heimildir til að veita undanþágur frá
samkeppnislögum og Samkeppniseftirlitið hér á landi hefur. Nánari upplýsingar
má finna hér.
- Bandarísk
samkeppnisyfirvöld hafa tilkynnt að einstaklingar og fyrirtæki sem eiga með sér
verðsamráð á vörum sem nýttar eru í heilbrigðisþjónustu, t.d. hlífðarhanskar og
hlífðargrímur gætu staðið frammi fyrir sakamálarannsókn vegna háttseminnar. Keppinautar
sem skipta með sér kaupendum heilbrigðisvara gætu einnig verið saksóttir. Haft
var eftir William P. Barr, dómsmálaráðherra, að “The Department of Justice stands ready to make sure that bad actors do
not take advantage of emergency response efforts, healthcare providers, or the
American people during this crucial time,” og “I am committed to ensuring
that the department’s resources are available to combat any wrongdoing and
protect the public.” Nánari upplýsingar má finna hér.
- Pólsk
samkeppnisyfirvöld hafa hafið rannsókn á meintri samkeppnishamlandi háttsemi
heildsala á hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsólk. Nánari upplýsingar má
finna hér.
- Grísk
samkeppnisyfirvöld hafa vakið athygli á því að í leiðbeiningum fram
kvæmdastjórnar Evrópusambandsins um lóðréttar samkeppnishömlur kemur fram að
heimilt sé, að uppfylltum vissum skilyrðum, að heildsalar eða framleiðendur
setji endursölum skilyrði er varðar hámarksverð eða leiðbeinandi verð. Er bent
á þetta sem aðferð til þess að vinna gegn okri á nauðsynjavörum. Nánari
upplýsingar um leiðbeiningarnar má finna hér og
fréttatilkynninguna hér.
- Dönsk
samkeppnisyfirvöld hafa birt áherslur sínar um beitingu á samkeppnislögum á
meðan COVID-19 heimsfaraldurinn gengur yfir. Nánari upplýsingar má finna hér.
- Norsk
stjórnvöld hafa heimilað keppinautum á flutningamarkaði samstarf sín á milli næstu
þrjá mánuði, með það að markmiði að tryggja lágmarks þjónustu fyrir borgara á
meðan COVID-19 heimsfaraldurinn gengur yfir. Þess ber að geta að norska
samkeppniseftirlitið hefur ekki heimild til þess að veita fyrirtækjum undanþágu
vegna samstarfs sem brýtur í bága við samkeppnislög. Sú heimild er hins vegar
til staðar í íslenskum samkeppnislögum. Nánari upplýsingar má finna hér.
Reifun
á ákvörðunum erlendra stjórnvalda um ríkisaðstoð/ríkisstyrki er að finna í
sérstökum kafla um það efni á þessari upplýsingasíðu.
Breytingar á starfsemi samkeppnisyfirvalda í heiminum?
Samkeppnisyfirvöld
og stjórnvöld víða um heim hafa á sl. dögum og vikum gripið til ýmissa
ráðstafana sem áhrif hafa áhrif á starfsemi þeirra og þeirra fyrirtækja sem eru
í samskiptum við þau. Stutta samantekt er að finna hér að neðan á aðgerðum sem tilkynnt voru á fyrstu vikum faraldursins í Evrópu:
- Framkvæmdastjórn
Evrópusambandsins hefur beint tilmælum til fyrirtækja um að fresta því að
tilkynna um samruna þar sem því verður komið við. Ástæður þessa eru að
starfsmenn framkvæmdastjórnarinnar munu eiga í erfiðleikum með að afla
upplýsinga frá hagaðlium þar sem starfsmenn framkvæmdastjórnarinnar eru að
vinna að heiman. Takmarkar það jafnframt í einhverjum tilvikum aðgang þeirra að
gagnagrunnum og upplýsingum. Í þeim tilvikum þar sem fyrirtæki tilkynna um
samruna er þeim tilmælum beint til fyrirtækja að gera það rafrænt. Nánari
upplýsingar má finna hér.
- Finnsk
samkeppnisyfirvöld hafa óskað eftir því að fyrirtæki sem hyggjast tilkynna um
samruna hafi sem fyrst samband við eftirlitið. Nánari upplýsingar má finna hér.
- Ráðherra
sameppnismála í Danmörku hefur framlengt þann frest sem dönsk samkeppinsyfirvöld
hafa til þess að rannsaka samruna um 14 daga. Nánari upplýsingar má finna hér.
- Bresk
samkeppnisyfirvöld ætla sér að halda áfram rannsókn mála og uppfylla þær lögbundnu
skyldur sem á þeim hvíla. Hins vegar munu þau endurskoða tímaáætlanir og lengja
fresti þar sem það er nauðsynlegt. Starfsmenn þeirra vinna nú að heiman, í þeim
tilvikum þar sem það er mögulegt, öll samskipti fara fram í gegnum
fjarfundarbúnað auk þess sem verið er að forgangsraða verkefnum. Nánari
upplýsingar má finna hér.
- Bandarísk
samkeppnisyfirvöld (FTC og DoJ) notast nú eingöngu, til bráðabirgða, við rafræn
skil á gögnum, auk þess sem flestir starsfmenn vinna að heima, öll ónauðsynleg
ferðalög starfsmanna hafa verið aflögð og nær allir fundir eru haldnir í gegnum
fjarfundarbúnað. Nánari upplýsingar má finna hér og hér.
- Frönsk
samkeppnisyfirvöld hafa beint þeim tilmælum til fyrirtækja að fresta því að
tilkynna um samruna sem ekki eru brýnir auk þess sem starfsmenn vinna að heima
og aðeins er tekið við gögnum á rafrænu formi. Nánari upplýsingar má finna hér.
- Þýsk
samkeppnisyfirvöld hafa beint þeim tilmælum til fyrirtækja að skoða í hverju
tilfelli fyrir sig hvort hægt sé að fresta því að tilkynna um samruna eða beina
öðrum erindum til þeirra. Einnig er einungis fundað um nauðsynleg erindi í
gegnum fjarfundarbúnað. Nánari upplýsingar má finna hér.
- Spænsk
stjórnvöld hafa afnumið alla fresti sem samkeppniseftirlitið er bundið af vegna
neyðarástands sem ríkir í landinu. Fyrirtæki geta hins vegar óskað eftir því að
lögbundnir tímafrestir gildi í málum sem þau varða. Nánari upplýsingar má finna
hér.
- Belgísk
samkeppnisyfirvöld hafa lokað skrifstofum sínum en allir starfsmenn eru í
fjarvinnu og vinnsla mál heldur áfram. Vakin er athygli á því að framangreint getur
haft áhrif á vinnslu samrunamála. Nánari upplýsingar má finna hér.
- Írsk
samkeppnisyfirvöld hafa hvatt fyrirtæki til þess að fresta því að senda inn
samrunatilkynningar og í þeim tilvikum þar sem þörf er á því séu þær sendar
rafrænt. Þau ætla hins vegar að halda áfram rannsókn mála og uppfylla þær lögbundnu
skyldur sem á þeim hvíla. Nánari upplýsingar má finna hér.
- Grísk
samkeppnisyfirvöld hafa takmarkað opnunartíma sinn og óskað eftir því að aðilar
skili inn gögnum á rafrænan hátt. Nánari upplýsingar má finna hér.
Forgangsröðun og frestun annarra mála
Samkeppniseftirlitið
mun á næstu vikum leggja áherslu á afgreiðslu mála er varða viðbrögð við
efnahagsvá tengdri COVID-19. Af þeim sökum mun eftirlitið þurfa að fresta
meðferð ýmissa mála eða endurmeta meðferð þeirra að öðru leyti.
Fyrirtæki
sem hyggjast senda Samkeppniseftirlitinu erindi, s.s. kvartanir eða
samrunatilkynningar, sem þarfnast ekki flýtimeðferðar vegna COVID-19, eru beðin
um að íhuga hvort unnt sé að bíða með sendingu þeirra á meðan faraldurinn
gengur yfir og önnur brýnni verkefni þurfa að vera í forgangi.
Breytingar á starfsemi Samkeppniseftirlitsins
Uppfært í september 2020:
Frá og með 21. september hafa breytingar verið gerðar á starfsemi
Samkeppniseftirlitsins, með líkum hætti og gert var í mars og apríl í vor. Er
þetta gert til þess að verja heilsu starfsmanna og viðskiptavina og um leið til
að tryggja rekstraröryggi. Meginbreytingarnar eru eftirfarandi:
- Fundir á
starfsstöð Samkeppniseftirlitsins hafa verið lagðir af nema í
undantekningartilvikum. Þess í stað eru stuðst við fjarfundi. Mælst er til
þess að viðskiptavinir komi ekki á skrifstofu eftirlitsins nema
nauðsynlegt sé.
- Hluti
starfsmanna vinnur frá heimili sínu. Sé þörf að hafa samband við
starfsmenn er fólk hvatt til að senda tölvupóst. Netföng starfsmanna má
finna hér.
- Flest bréf
og gögn eru einungis send með rafrænum hætti. Mælst er til þess að erindi
og gögn sem send eru eftirlitinu séu afhent með rafrænum hætti ef því
verður við komið.
Starfsemin verður færð til fyrra horfs þegar dregið hefur nægjanlega úr
smitum í samfélaginu.