3.6.2020

Samkeppniseftirlitið heimilar samstarf Kynnisferða ehf. og Airport Direct ehf. á áætlunarleiðinni á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins

Samkeppniseftirlitið heimilaði á föstudag samstarf hópbifreiðafyrirtækjanna Kynnisferða ehf. og Airport Direct ehf. sem miðar að tímabundinni samnýtingu á bifreiðaflota fyrirtækjanna á áætlunarleiðinni á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Er undanþágunni ætlað að gera fyrirtækjunum kleift að bregðast við því fordæmalausa ástandi sem stafar af heimsfaraldri af völdum COVID-19 en flutningur flugfarþega til og frá Keflavíkurflugvelli er að mati Samkeppniseftirlitsins afar mikilvægur þáttur í samgöngum til og frá landinu og hefur þar af leiðandi þýðingu í enduruppbyggingu ferðaþjónustu hér á landi þegar núverandi ástand af völdum COVID-19 er yfirstaðið.

Samstarfið er bundið þeim skilyrðum að öll samskipti á milli fyrirtækjanna séu afmörkuð við markmið samstarfsins. Ferðamálastofu skal gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að samstarfinu en tilgangur þess er að tryggja að Ferðamálastofa geti öðlast yfirsýn yfir þær aðgerðir sem keppinautar á markaðnum grípa til að þessu leyti.

Við útfærslu og framkvæmd samstarfsins skal þess gætt að ekki komi til samræmingar á verði samstarfsaðila með nokkrum hætti. Þá er það jafnframt forsenda samstarfsins að samstarfsaðilar sinni sjálfir eigin markaðsmálum og selji áfram ferðir á áætlunarleiðinni með sjálfstæðum hætti, þ.e. eftir eigin söluleiðum. Samstarfið skal því einungis felast í því að samnýta ferðir hópferðabifreiða fyrirtækjanna á áætlunarleiðinni á undanþágutímabilinu.

Við veitingu undanþágu í máli þessu hafði það sérstaka þýðingu að á Kynnisferðum og Airport Direct hvílir skylda, á grundvelli samningsskuldbindinga við Isavia, til að hafa áætlunarferðir til og frá flugstöðinni starfræktar í tengslum við allar komur og brottfarir áætlunar- og leiguflugvéla á Keflavíkurflugvelli. Önnur hópferðabifreiðafyrirtæki hafa sinnt akstri eftir pöntunum til og frá flugstöðinni frá svokölluðum fjarstæðum en framangreind skylda til aksturs hvílir hins vegar ekki þeim fyrirtækjum. Þá var litið til þess að Samkeppniseftirlitið hefur áður gert athugasemdir og beint tilmælum til Isavia vegna þess hvernig fyrirtækið stóð að þeim útboðum sem liggja til grundvallar núgildandi samningum. Isavia hefur brugðist við þeim tilmælum og sagst vera reiðubúið til samstarfs við Samkeppniseftirlitið um gerð útboðsskilmála vegna aðstöðu við flugstöðina. Vilji Isavia til að endurskoða núverandi fyrirkomulag hafði því þýðingu við mat á fyrirliggjandi undanþágubeiðni.

Undanþágan er veitt til skamms tíma eða til 31. desember 2020. Eigi síðar en 31. ágúst 2020 skal þó endurmeta þörf á samstarfinu í ljósi aðstæðna, til dæmis með tilliti til fjölda flugferða til og frá landinu.

Ákvörðunin er aðgengileg hér.

Samkeppniseftirlitið hefur á síðustu vikum veitt fyrirtækjum undanþágur til að bregðast við vanda sem stafar af COVID-19. Nánari umfjöllun má finna á upplýsingasíðu eftirlitsins hér