26.5.2020

COVID 19: Hætta á aukinni verndarstefnu og veikara eftirliti með samkeppni?

Banner_islSamkeppniseftirlitið býður til vefráðstefnu þar sem virtir fræðimenn á vettvangi samkeppnismála beggja vegna Atlantshafsins ræða álitaefni sem skipta miklu í mótun samkeppnis- og efnahagsstefnu á næstunni.

Varpað verður fram eftirfarandi spurningum:

  • Þróun samkeppniseftirlits í Evrópu og Bandaríkjunum. Hvaða lærdóm geta stjórnvöld hvorum megin Atlantshafsins dregið af reynslu hvers annars?
  • Hvaða rök standa með og á móti því að til verði stór leiðandi fyrirtæki (e. national champions), og hver yrðu áhrif slíkra fyrirtækja á samkeppni?
  • Hversu líklegt má telja að núverandi efnahagssamdrætti verði svarað með aukinni verndarhyggju og veikara eftirliti með samkeppni? Hver ættu viðbrögð samkeppniseftirlita að vera?

Skráning hér

9. júní

13:00-13:05

Kynning og fundarstjórn

Páll Gunnar Pálsson | forstjóri Samkeppniseftirlitsins

13:05-13:25

Frummælandi

Jonathan Baker | Rannsóknarprófessor við lagadeild American University Washington College of Law
National champions and competition policy

13:25-14:30

Pallborðsumræður

Þátttakendur:

  • Fiona Scott Morton | Theodore Nierenberg prófessor í hagfræði við Yale University School of Management
  • Gylfi Magnússon | Dósent í hagfræði við Háskóla Íslands
  • Jonathan Baker | Rannsóknarprófessor við lagadeild American University Washington College of Law
  • Lars Sørgard | Forstjóri norska samkeppniseftirlitsins
  • Pierre Régibeau | Aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

Umræðustjóri:

  • Valur Þráinsson | Aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins

Bakgrunnsupplýsingar

Samkeppniseftirlitið er þátttakandi í alþjóðasamstarfi á vettvangi samkeppnismála. Til stóð að eftirlitið yrði gestgjafi samstarfsfunda á þessu sviði nú í vor og myndi í tengslum við þá halda ráðstefnu hér á landi um samkeppnismál. Vegna COVID-19 var fundunum og ráðstefnunni frestað, en þess í stað boðað til fyrrgreindrar vefráðstefnu.

Þegar kreppir að í efnahagskerfinu hefur oft á fyrri tíð myndast þrýstingur á stjórnvöld víða um heim að grípa til innlendrar verndarstefnu og veikingar samkeppniseftirlits, í því skyni að auka samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja. Þrátt fyrir að reynslan sýni að slíkum aðgerðum fylgi jafnan meiri skaði en ábati, eru raddirnar sem kalla eftir verndarhyggju ávallt háværar á samdráttartímum líkt og við lifum í dag.

Við stefnumótun á vettvangi Evrópusambandsins hafa verið uppi sjónarmið um að samrunaeftirlit á vettvangi Framkvæmdastjórnar ESB ætti ekki að hindra það að innan Evrópu verði til stór leiðandi fyrirtæki (e. national/global champions) sem geti keppt á alþjóðlegum mörkuðum. Framkvæmdastjórnin hefur legið undir gagnrýni um að samrunaeftirlit þess einblíni um of á samkeppni innan Evrópu, þegar samkeppni evrópskra fyrirtækja sé oft fremur við stórfyrirtæki í Bandaríkjunum og Asíu. Íhlutanir í samruna sem ella myndu skapa leiðandi fyrirtæki innan Evrópu skerði þannig samkeppnishæfni Evrópskra fyrirtækja gagnvart alþjóðlegum leiðandi fyrirtækjum sem njóta stuðnings yfirvalda í Bandaríkjunum, Suður-Kóreu, Japan og Kína.

Hinum megin við Atlantshafið hefur umræðan frekar verið um það hvort umgjörð og eftirlit með samkeppni í Bandaríkjunum hafi haft skaðleg áhrif á neytendur og fyrirtæki. Margir fræðimenn hafa haldið því fram að þörf sé á að styrkja umgjörð og eftirlit með samkeppni á bandarískum mörkuðum til að viðhalda samkeppnishæfni þarlendra fyrirtækja.

Mikilvægt er að hafa þessi sjónarmið í huga þegar stjórnvöld um allan heim ræða og skipuleggja aðgerðir til þess að takast á við efnahagslegan samdrátt í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins.