Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Beiðni Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og Mílu ehf. um undanþágu frá samkeppnislögum fyrir lagningu á ljósleiðara

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 11/2018
  • Dagsetning: 17/4/2018
  • Fyrirtæki:
    • Míla ehf.
    • Gagnaveita Reykjavíkur ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
  • Málefni:
    • Undanþágur
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið heimilar Mílu ehf. og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. að eiga tiltekið samstarf um lagningu ljósleiðara

    Með ákvörðun nr. 11/2018, hefur Samkeppniseftirlitið heimilað Mílu ehf. (Míla) og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) að eiga samstarf um lagningu ljósleiðara. Um er að ræða afmarkað verkefni í framkvæmd og tíma sem felst í því að hvort félag sér um lagningu á tveimur ljósleiðaraheimtaugum í tilteknum íbúðahverfum á höfðuðborgarsvæðinu og selur hinu annan strenginn að verkefni loknu.

    Það er markmið með framangreindu samstarfi að auka hagkvæmni og hagræðingu við lagningu ljósleiðara og auk þess að lágmarka ónæði og röskun sem fylgir slíkum framkvæmdum í götum og á öðrum svæðum bæjar- og sveitarfélaga. Er þess vænst að samstarfið hafi jákvæð áhrif á samkeppni og auki valkosti neytenda með því að komið verði á fót tveimur sjálfstæðum ljósleiðaranetum á þeim svæðum þar sem samningur aðila nær til. Samstarfið mun einskorðast við að nýta sömu framkvæmdir til þess að leggja tvö ljósleiðaranet sem verði tæknilega aðskilin og sjálfstæð og skapa þannig grundvöll til samkeppni um hlutaðeigandi viðskiptavini.

     Samstarfið er bundið skilyrðum sem m.a. miða að því að ljósleiðaranetin sem samstarfið nær til séu tæknilega aðskilin og sjálfstæð og skapi grundvöll til samkeppni um hlutaðeigandi viðskiptavini. Einnig er skilyrðunum ætlað að tryggja að samstarfið einskorðist við þetta og feli ekki í sér neins komnar samráð um aðra þætti, s.s. verð eða þjónustu til viðskiptavina. Eftirlitsnefnd um Jafnan Aðgang Fjarskiptafélaga, samkvæmt ákvörðun nr. 6/2015, Skipulag Símasamstæðunnar og aðgerðir til að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði – Breyting á ákvörðun nr. 6/2013, er falið að fylgjast með samstarfinu á grundvelli þessarar undanþágu.

    Framangreind heimild er byggð á 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sem heimildar Samkeppniseftirlitinu að veita undanþágu frá banni 10. gr. samkeppnislaga við ólögmætu samráði.