Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Brot Síldar og fisks ehf. og Matfugls ehf. á 10. gr. samkeppnislaga

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 36/2011
  • Dagsetning: 7/11/2011
  • Fyrirtæki:
    • Síld og fiskur ehf.
    • Matfugl ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
    • Landbúnaður
  • Málefni:
    • Ólögmætt samráð
  • Reifun

    • 80 mkr. sekt vegna samráðs í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar hafa verðmerkt fyrir Haga (svokölluð forverðmerking).

    • Fyrirmæli sett til þess að efla samkeppni.

    Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið birti í desember 2010 ákvörðun þar sem greint er frá brotum, annars vegar verslana Bónuss, og hins vegar Sláturfélags Suðurlands, Reykjagarðs, Kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, Norðlenska, Kjarnafæðis og Kjötbankans gegn 10. gr. samkeppnislaga með samkeppnishamlandi samvinnu um verð. Þetta gerðu fyrirtækin með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar höfðu verðmerkt fyrir Bónus.

    Þessi fyrirtæki óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt við Samkeppniseftirlitið. Á þeim grundvelli nýtti Samkeppniseftirlitið sér heimild samkeppnislaga og gerði sátt við hvert þeirra. Í sáttunum fólst m.a. að fyrirtækin viðurkenndu brot á samkeppnislögum og greiddu samtals 405 mkr. í sekt vegna þeirra.

    Síld og fiskur og Matfugl óskuðu eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu. Þurfti Samkeppniseftirlitið því að taka afstöðu til aðgerða fyrirtækjanna í sérstakri ákvörðun og er það gert í ákvörðun sem birt er í dag.

    Ákvæði samkeppnislaga banna framleiðendum og smásölum að hafa með sér samráð um endursöluverð (lóðrétt verðsamráð). Í málinu fór fram umfangsmikil athugun á m.a. tölvupóstssamskiptum Síldar og fisks og Matfugls við Bónus. Þessi gögn sýna að annars vegar Síld og fiskur og Matfugl og hins vegar Bónus höfðu nána samvinnu um smásöluverð Bónuss og afslætti frá því. Fólst í þessu mun meiri samvinna heldur en einföld samskipti um verðmerkingar á kjöti og unnum kjötvörum. Voru þessi brot Síldar og fisks og Matfugls til þess fallin að valda almenningi samkeppnislegu tjóni. Er talið hæfilegt að leggja á Langasjó ehf. (móðurfélag Síldar og fisks og Matfugls) 80 mkr. í sekt vegna brotanna.

    Gögn málsins sýna m.a. að af samráði þessu leiddi að neytendur voru blekktir í tengslum við forverðmerkingar á kjötvörum. Haft var samráð um hvert hið „merkta verð“ ætti að vera og hversu mikinn afslátt ætti að gefa frá því verði, allt frá 10% og upp í 40% afslátt. Hins vegar er ljóst að hið merkta smásöluverð stóð neytendum aldrei til boða og var því í raun ekki um raunverulega verðlækkun að ræða. Er því í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins beint tilteknum fyrirmælum til Síldar og fisks og Matfugls í því skyni að efla samkeppni. Er um að ræða samskonar fyrirmæli og gilda gagnvart þeim kjötvinnslufyrirtækjum sem áður gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið, sjá fréttatilkynningu frá 14.12.2010. Í þeim felst m.a. að Síld og fiskur og Matfugl skulu hætta öllum afskiptum af smásöluverði, afslætti frá smásöluverði og smásöluálagningu matvöruverslana og hætta að merkja kjötvörur með smásöluverði.

    Umræddar sáttir frá 2010 hafa leitt til talsverðra breytinga á matvörumarkaði en frá 1. júní 2010 hættu verslanir Haga að taka við öllum forverðmerktum kjötvörum og kjötvinnslufyrirtækin hættu slíkum merkingum fyrir alla viðskiptavini sína. Í kjölfar þessa hafa sum fyrirtæki að eigin frumkvæði hætt forverðmerkingum, sbr. td. Osta- og smjörsöluna. Neytendastofa hefur sett sérstakar reglur til að tryggja að verðmerkingar smásala séu fullnægjandi, sbr. reglur nr. 563/2011. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í dag er tryggt að Síld og fiskur og Matfugl geri einnig nauðsynlegar breytingar á starfsemi sinni. Nánari upplýsingar um þessar breytingar er að finna hér.

    Í maí 2008 gaf Samkeppniseftirlitið út skýrslu um viðskiptasamninga birgja og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði. Í skýrslunni kom fram að takmörkuð samkeppni væri í sölu á forverðmerktum kjötvörum. Var í því sambandi m.a. bent á að miklu minni verðmunur væri á forverðmerktum vörum í matvöruverslunum heldur en á öðrum vörum. Hefur ASÍ í tengslum við verðkannanir sínar ítrekað bent á að þessi litli verðmunur sýndi fram á takmarkaða verðsamkeppni og sé að meginstefnu tilkominn vegna forverðmerkinga. Eftir að framangreindar breytingar tóku gildi, eða þann 27. júní 2011, gerði ASÍ verðkönnun og sýndi hún að verðmunur milli matvöruverslana á vörum sem áður voru forverðmerktar hafði aukist verulega. Vonast Samkeppniseftirlitið til þess að ákvörðun þess í dag auki enn á samkeppni á þessum mikilvægu neytendamörkuðum.