21.12.2020

Aðgerðir sem miða að virkari samkeppni á eldsneytismarkaði

Samkeppniseftirlitið hefur birt skýrslu nr. 2/2020 , Breytingar á eldsneytismarkaði – úrlausn samkeppnishindrana sem bent var á í markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins. Í skýrslunni eru rifjaðar upp samkeppnishömlur sem fjallað var um í frummatsskýrslu vegna markaðsrannsóknar eftirlitsins sem birt var í lok árs 2015 (2/2015) , og gerð grein fyrir breytingum sem orðið hafa í framhaldi eða í tengslum við þá rannsókn.

Frá því að Samkeppniseftirlitið kynnti frummat sitt og benti á leiðir til úrbóta, hefur eftirlitið beint fjórum álitum til stjórnvalda þar sem mælst er til aðgerða til að ráða bót á aðstæðum sem skaðlegar eru samkeppni. Jafnframt hafa fyrirtæki á markaðnum gripið til og skuldbundið sig til breytinga í tengslum við síðari stjórnsýslumál, í samræmi við frummat eftirlitsins í þeim málum, sem miða að því að greiða fyrir samkeppni. Í þessu sambandi má nefna eftirfarandi álit, ákvarðanir og sáttir:

  1. Álit nr. 1/2017 og 2/2017 - Samkeppnishömlur á eldsneytismarkaði, þar sem því var beint til umhverfis- og auðlindaráðherra og Reykjavíkurborgar að bæta umgjörð skipulags og lóðaúthlutunar. Ekki hefur verið brugðist við tilmælunum.
  2. Álit nr. 3/2017 og 4/2017 - Samkeppnishömlur á eldsneytismarkaði, þar sem því var beint til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Flutningajöfnunarsjóðs að gera breytingar á umgjörð sjóðsins. Brugðist var við tilmælunum.
  3. Ákvörðun nr. 8/2019, Samruni N1 hf. og Festi hf, þar sem samrunaaðilar skuldbundu sig m.a. til sölu á eldsneytisstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og vörmerkis Dælunnar til nýs aðila og breytinga á umgjörð birgðahalds og dreifingar á eldsneyti, en hvoru tveggja er til þess fallið að efla samkeppni.
  4. Ákvörðun nr. 9/2019, Samruni Haga hf., Olíuverzlunar Íslands hf. og DGV ehf., þar sem samrunaaðilar skuldbundu sig m.a. til sölu á eldsneytisstöðvum á höfuðborgarsvæðinu til nýs aðila og breytinga á umgjörð birgðahalds og dreifingar á eldsneyti.
  5. Sátt Olíudreifingar (ODR) við Samkeppniseftirlitið um aukið aðgengi endurseljenda að eldsneyti í heildsölu og aukið aðgengi að þjónustu Olíudreifingar ehf. Sáttin var gerð í tengslum við úrlausn skv. c- og d-lið hér að framan.
  6. Ákvörðun nr. 39/2020, Bættar samkeppnisaðstæður við sölu flugvélaeldsneytis á flugvöllum innanlands, en með sátt vegna málsins er tryggður jafn og hlutlægur aðgangur til sölu eldsneytis á innanlandsflugvöllum.


Þá hefur verið gengið úr skugga um jafnan og hlutlægan aðgang að aðstöðu Icelandic Tank Storage ehf. í Helguvík, við sölu á flugvélaeldsneyti. Nánar er fjallað um þessar úrlausnir í skýrslunni.

Með hliðsjón af framangreindu hafa orðið talsverðar breytingar á eldsneytismarkaði frá því að markaðsrannsóknin var framkvæmd. Eru þessar breytingar til þess fallnar að greiða fyrir samkeppni á markaðnum, þótt ekki sé á þessu stigi komið í ljós hver endanleg áhrif þeirra verða. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru þessar umbætur til þess fallnar að greiða fyrir framþróun orkumarkaða og skapa skilvirkari umgjörð fyrir þau orkuskipti sem framundan eru. Á því sviði eru ýmsar áskoranir sem Samkeppniseftirlitið er að huga að.

 Við framkvæmd markaðsrannsóknarinnar reyndist ekki nauðsynlegt að beita íhlutun skv. c-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að grípa til íhlutunar vegna samkeppnishindrandi aðstæðna, þótt þær verði ekki raktar til brota á samkeppnislögum. Jákvætt er að breytingar hafa orðið á markaðinum án þess að grípa hafi þurft til þeirrar heimildar

Hér er hægt að lesa meira um markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði