13.6.2022

Morgunfundur Samkeppniseftirlitsins í Hörpu - upptaka af fundinum

Morgunfundur Samkeppniseftirlitsins um samspil samkeppni, verðbólgu og kaupmáttar fór fram í Björtuloftum í Hörpu mánudaginn 13. júní. Tilefni ráðstefnunnar var koma aðalhagfræðinga samkeppniseftirlita í Evrópu hingað til lands en Samkeppniseftirlitið hélt árlegan fund þeirra að þessu sinni. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flutti opnunarávarp á fundinum og Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flutti erindi. Hann fjallaði um hvaða áhrif samkeppni og samkeppniseftirlit geta haft á verðbólgu og kaupmátt. Aukin verðbólga er áhyggjuefni víða um heim þessi misserin þar sem hún getur rýrt kaupmátt heimila.

https://www.youtube.com/watch?v=4ffHFM1KPNg

Frábærir gestir tóku þátt í fjörugum pallborðsumræðum:

  • Ana Sofia Rodrigues, aðalhagfræðingur portúgalska samkeppniseftirlitsins
  • Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri
  • Martin Gaynor, hagfræðiprófessor við Carnegie Mellon-háskóla
  • Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar ESB
  • Fundarstjórn: Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins

Dagskrá:

  • 08:00 – Kaffi og morgunverður
  • 08:15 – Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, býður gesti velkomna ( eintak hér )
  • 08:20 – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flytur opnunarávarp
  • 08:25 – Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flytur erindi ( eintak hér )
  • 08:50 – Pallborðsumræður
  • 09:40 – Sveinn Agnarsson, stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins, flytur lokaorð ( eintak hér )

Nánari upplýsingar um þátttakendur

Ana Sofia Rodrigues hefur starfað sem aðalhagfræðingur portúgalska samkeppniseftirlitsins (AdC) frá því í október 2015 eftir eitt ár hjá OECD þar sem hún vann sem sérfræðingur í samkeppnismálum. Þar áður gegndi hún ýmsum störfum hjá AdC. Ana Sofia lauk doktorsnámi í hagfræði frá Háskólanum í York árið 2008.

Ásgeir Jónsson var skipaður Seðlabankastjóri árið 2019. Þar áður starfaði hann sem forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Ásgeir lauk meistaraprófi í hagfræði frá Indiana-háskóla árið 1997 og doktorsprófi í hagfræði frá sama skóla árið 2001.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur átt sæti í ríkisstjórn Íslands frá 2016 en hún tók við ráðuneyti menningar- og viðskiptamála í nóvember 2021. Áður en Lilja var kjörinn á Alþingi gegndi hún ýmsum störfum fyrir bæði Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Lilja er með meistaragráðu í hagfræði frá Columbia-háskóla í New York.

Martin Gaynor er hagfræðiprófessor við Carnegie Mellon-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er fyrrverandi yfirmaður hagfræðideildar Alríkisviðskiptastofnunar Bandaríkjanna (e. Federal Trade Commision). Martin hefur verið atkvæðamikill í rannsóknum á samkeppnisstefnu (e. competition policy) og samkeppni í heilbrigðisgeiranum. Hann lauk doktorsnámi í hagfræði frá Northwestern-háskóla 1983.

Páll Gunnar Pálsson hefur verið forstjóri Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2005. Páll Gunnar er lögfræðingur að mennt.

Pierre Régibeau er aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar ESB. Í rannsóknum sínum hefur hann lagt áherslu á atvinnuvegahagfræði, réttarhagfræði og alþjóðaviðskipti. Pierre lauk doktorsprófi frá Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum. Þá hefur hann kennt við MIT-háskóla, Northwestern-háskóla og Háskólann í Barcelona. Í dag gegnir hann stöðu heiðursgestaprófessors við Essex-háskóla.

Sveinn Agnarsson er stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins en hann starfar sem prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Sveinn lauk grunnnámi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í hagfræði frá Háskólanum í Gautaborg.

Valur Þráinsson hefur verið aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2019. Valur lauk grunnámi í hagfræði frá Háskóla Íslands, meistaraprófi í hagfræði frá Háskólanum í Amsterdam og diplómagráðu í evrópskum samkeppnisrétti frá King‘s College í Lundúnum.