24.10.2016

Lántökugjöld sem hlutfall af lánsfjárhæð heyra sögunni til

Samkeppniseftirlitið vekur athygli á því að í nýsamþykktum lögum frá Alþingi um fasteignalán til neytenda er m.a. kveðið á um að lánveitanda sé aðeins heimilt að krefja neytanda um gjöld í samningi um fasteignalán sem byggjast á hlutlægum grunni vegna kostnaðar sem lánveitandi hefur orðið fyrir og tengjast fasteignaláninu beint, auk vaxta. Þetta ákvæði felur í sér ígildi banns við því að lántökugjöld séu lögð á sem hlutfall af lánsfjárhæð. Samkeppniseftirlitið fagnar þessu en í umsögn sinni, dags. 7. janúar 2016, til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hvatti Samkeppniseftirlitið til þess að slíkt ákvæði yrði innleitt í frumvarpið. Í umsögninni kom eftirfarandi fram:

„Við veitingu fasteignalána hefur lengi tíðkast að innheimta svonefnt lántökugjald sem jafnan er hlutfall af lánsfjárhæð. Þar sem lán fyrir kaupum á fasteignum fela yfirleitt í sér afar háar fjárhæðir er viðkomandi hlutfall yfirleitt mjög há fjárhæð í krónum talið og langt umfram það sem hægt væri að réttlæta á grundvelli kostnaðar við skjalagerð og afgreiðslu lánsins. Í raun er um forvexti að ræða sem hafa hliðstæðan skiptikostnað í för með sér fyrir lántakendur og stimpilgjaldið sem nú hefur verið aflagt. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að taka þóknunar í formi forvaxta við veitingu íbúðalána dragi úr virkni lántakenda til að leita bestu kjara á íbúðalánamarkaði sem skaðar samkeppni á markaðnum. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru engin málefnaleg rök fyrir því að forvextir séu innheimtir við veitingu íbúðalána. Ekki fæst séð að gjald sem þetta sé hagkvæm leið til þess að verðleggja áhættu lánveitanda.


Samkeppniseftirlitið telur að nýta ætti tækifærið nú við innleiðingu sérstakra laga um fasteignalán til að innleiða ákvæði sem fæli í sér bann við því að innheimtir séu forvextir eða ígildi þeirra við veitingu fasteignalána. Samkeppniseftirlitið telur að markaðurinn myndi virka betur ef gjöld við töku íbúðalána (hverju nafni sem kunna að nefnast) væru föst krónutala sem tæki mið af kostnaði við skjalagerð og afgreiðslu láns en sé ekki hlutfall af lánsfjárhæð eins og hingað til hefur tíðkast.“

Á liðnum árum hefur Samkeppniseftirlitið lagt áherslu á það við stjórnvöld og fyrirtæki á fjármálamarkaði að gripið yrði til aðgerða til að draga úr samkeppnishindrunum í fjármálaþjónustu. Einn liður í þessu hefur verið að vinna gegn óþörfum skiptikostnaði sem gerir viðskiptavinum erfitt um vik að skipta um þjónustuaðila. Með því er unnt að búa í haginn fyrir virkari samkeppni, ekki síst í almennri viðskiptabankaþjónustu og á íbúðalánamarkaði. Afnám lántökugjalds sem hlutfalls af lánsfjárhæð er mikilvægt skref í þessa átt.