28.5.2002

Samkeppnisráð setur skilyrði fyrir kaupum Byko hf. og Húsasmiðjunnar hf. á hlutum í Steinullarverksmiðjunni hf.

Nýlega fjallaði samkeppnisráð um kaup Byko hf., Húsasmiðjunnar hf. og Kaupfélags Skagfirðinga svf. á hlutum í Steinullarverksmiðjunni hf. Umrædd kaup eru samruni í skilningi samkeppnislaga og voru þau rannsökuð með hliðsjón af því. Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu að kaupin styrki markaðsyfirráð Steinullarverksmiðjunnar við framleiðslu og heildsöludreifingu á steinull og skyldum vörum hér á landi. Þá telur samkeppnisráð að sameiginleg eignaraðild Byko og Húsasmiðjunnar að Steinullarverksmiðjunni sé til þess fallin að takmarka samkeppni á milli verslunarfyrirtækjanna tveggja. Sameiginleg aðkoma keppinautanna, Byko og Húsasmiðjunnar, að rekstri Steinullarverksmiðjunnar gæti leitt til samráðs eða samvinnu um verð og aðrar samkeppnishömlur.

Það er mat samkeppnisráðs að ástæða sé til að grípa til íhlutunar vegna samrunans. Telji samkeppnisráð að samruni fyrirtækja hindri virka samkeppni getur ráðið ógilt samrunann eða sett honum skilyrði. Viðræður á milli fyrirtækjanna sem að framangreindum samruna standa og samkeppnisyfirvalda hafa leitt til þess að málsaðilar eru reiðubúnir að fallast á tiltekin skilyrði vegna kaupanna. Að uppfylltum umræddum skilyrðum telur samkeppnisráð að skaðlegum áhrifum samrunans verði eytt.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).