9.7.2020

Verklag við rannsóknir á samrunamálum - Breytingar eftir samtal við hagaðila

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu unnið að breytingu á verklagi og verklagsreglum um meðferð samrunamála. Í því skyni efndi Samkeppniseftirlitið til fundar þann 16. október síðasta haust, með lögmönnum sem komið hafa fram fyrir hönd samrunafyrirtækja gagnvart eftirlitinu frá upphafi árs 2018. Fundurinn var liður í fundarröð sem Samkeppniseftirlitið hefur haldið undanfarin ár undir heitinu Samtal um samkeppni. Á fundinum fóru fram gagnlegar umræður um reynsluna af meðferð samrunamála hjá eftirlitinu og æskilegar breytingar sem unnt væri að gera til bæta umgjörð og skilvirkni rannsókna. Í kjölfar fundarins leitaði Samkeppniseftirlitið jafnframt opinberlega sjónarmiða þeirra aðila sem áhugasamir væru um að koma framfæri ábendingum um það sem betur mætti fara í meðferð samrunamála, sbr. frétt á vef eftirlitsins 17. október sl.

Samkeppniseftirlitið hefur nú yfirfarið þau sjónarmið og ábendingar sem bárust vegna framangreinds. Er það mat eftirlitsins að reynslan sýni að núverandi reglur og verklag við rannsókn samrunamála hafi heilt yfir gefið nokkuð góða raun. Þannig er meirihluti samruna tilkynntur með svokallaðri styttri tilkynningu sem felur í sér töluvert hagræði fyrir samrunaaðila. Þá er rannsókn meirihluta samrunamála lokið á fyrsta fasa rannsóknar eða innan 25 virkra daga.

Í ljósi fenginnar reynslu og framkominna ábendinga er Samkeppniseftirlitið að koma á auknu og betra samtali á milli eftirlitsins og samrunaaðila fyrir og á meðan rannsókn stendur, m.a. til þess að stuðla að bættri upplýsingagjöf um samruna og til þess að upplýsa sem fyrst um stöðu rannsóknar og möguleg samkeppnisvandamál. Um leið gerir Samkeppniseftirlitið ríkar kröfur til þess að samrunaskrá uppfylli settar kröfur, en reynslan frá ársbyrjun 2018 til haustsins 2019 sýnir að í um 40% tilvika var samrunaskrá metin ófullnægjandi. Að mati eftirlitsins er það of hátt hlutfall.

Í kjölfarið á þessari vinnu hefur Samkeppniseftirlitið gert ákveðnar breytingar á meðferð samrunamála sem berast stofnuninni en er þeim ætlað að bæta umgjörð og skilvirkni rannsókna. Þær helstu eru eftirfarandi:

  • Eftirlitið hvetur nú samrunaaðila til þess að eiga viðræður við eftirlitið í aðdraganda samrunatilkynningar (e. Pre-notification contacts). Með því að eiga samtal við Samkeppniseftirlitið, áður en samrunatilkynning er send stofnuninni, um viðkomandi samruna og þær upplýsingar sem æskilegt er að liggi fyrir áður en rannsókn hefst minnka líkur á því að upplýsingar í samrunaskrá teljist ekki fullnægjandi. Þá geta slíkar viðræður verið til þess fallnar að flýta fyrir meðferð samrunamála þar sem fyrr í ferlinu er unnt að einblína á þau atriði sem skipta hvað mestu máli fyrir hið samkeppnislega mat. Þetta verklag gerir um leið kröfur um að samrunaaðilar vandi undirbúning viðkomandi viðskipta.
  • Samkeppniseftirlitið hefur tekið upp það verklag í flóknari málum, sem þurfa frekari rannsókn (fasi II), að halda svokallaðan stöðufund með samrunaaðilum (e. State of play meeting). Á slíkum fundi kynnir eftirlitið samrunaaðilum stöðu rannsóknar og þau atriði sem vakið hafa athygli í henni, s.s. líkleg samkeppnisleg vandamál. Reynslan sýnir að slíkir fundir eru til þess fallnir að gera samrunaaðilum kleift að koma að sjónarmiðum sínum og mögulegum leiðréttingum fyrr í ferlinu. Auk þess geta slíkir fundir einnig ýtt undir að lausn finnist á málum þar sem augljós samkeppnisleg vandamál eru fyrir hendi.
  • Samkeppniseftirlitið hefur í huga að formgera með nánari hætti en gert hefur verið hingað til með hvaða hætti viðræðum um mögulegar sáttir í samrunamálum er háttað. Með því er tryggt að samrunaaðilar eru upplýstir um markmið og tilgang viðræðnanna frá upphafi og þeim eru settar ákveðinn tímarammi (áætlun).
  • Þessum breytingum kunna einnig að fylgja frekari breytingar. Þar á meðal er til athugunar hvort unnt sé að stytta og einfalda gerð andmælaskjala, í því skyni að flýta meðferð mála.

Breytingar á samrunareglum samkeppnislaga

Auk framangreinds hyggst Samkeppniseftirlitið uppfæra reglur um tilkynningu samruna. Við þá endurskoðun mun eftirlitið líta til þeirra sjónarmiða sem borist hafa í tengslum við framangreinda endurskoðun á verklagi, auk þess sem þær breytingar á samkeppnislögum sem samþykktar voru á Alþingi 29. júní 2020 kalla á endurskoðun reglnanna. Helstu breytingar á samrunareglum samkeppnislaga sem samþykktar voru með lögunum voru hækkun veltumarka vegna tilkynningarskyldra samruna, víðtækari heimild til þess að skila styttri tilkynningu vegna samruna og uppfærð ákvæði um tímafresti til rannsóknar samrunamála. Þá voru reglur um samrunagjald endurskoðaðar.