Ólögmætt samráð

Allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskiptaleg atriði er bannað.

Ólögmætt samráð

Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga banna hverskonar samkeppnishamlandi samstarf milli fyrirtækja. Um getur verið að ræða t.d. eftirfarandi samráð fyrirtækja:

  • Um verð eða verðlag, álagningu, afslætti eða önnur viðskiptakjör
  • Um takmörkun eða stýringu á framleiðslu
  • Við tilboðsgerð þegar verkefni, vörukaup eða þjónusta hefur verið boðin út
  • Um að skipta með sér mörkuðum, eftir t.d. viðskiptavinum eða landsvæðum
  • Um bindandi endursöluverð á vöru eða þjónustu

Í hnotskurn

Allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskipaleg atriði er bannað. Undir samráð getur fallið hvers konar samskipti milli starfsmanna keppinauta, hvort heldur sem samskiptin eru einhliða eða af beggja hálfu. Sama gildir um samskipti framleiðanda og endursöluaðila, s.s. um bindandi endursöluverð á vöru eða þjónustu. Samkeppniseftirlitið leggur sektir á fyrirtæki sem taka þátt í ólögmætu samráði og stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem þátt taka í samráðinu geta sætt refsiábyrgð, s.s. sektum og fangelsi.

Leynilegt, ólögmætt samráð keppinauta er alvarlegasta brotið á samkeppnislögum þar sem það getur haft mjög skaðleg áhrif á samkeppni og þar með rýrt lífskjör almennings. Slíkt samráð fyrirtækja leiðir nær undantekningarlaust til hærra verðs en ella. Rannsóknir sem greint hefur verið frá á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar -OECD- sýna að meðaltalsávinningur fyrirtækja sem taka þátt í ólöglegu verðsamráði nemi 10% af söluverði vöru eða þjónustu. Skaði þjóðfélagsins í slíkum tilvikum er hins vegar mun meiri og kann að nema 20% af umfangi þeirra viðskipta sem samráðið nær til. Nýrri rannsóknir benda til þess að skaðinn sé jafnvel enn meiri. Með öðrum orðum þá greiða kaupendur, þ.e. neytendur, fyrirtæki og hið opinbera, mun hærra verð fyrir vörur og þjónustu þegar keppinautar koma sér saman um verð, hafa samráð við gerð tilboða eða skipta með sér mörkuðum, en þar sem heiðarleg samkeppni fær að njóta sín. Slíkt samráð fyrirtækja skaðar því bæði hag atvinnulífsins og neytenda. Aðföng fyrirtækja verða dýrari og þegar til lengri tíma er litið dregur það úr samkeppnishæfni atvinnugreina þannig að atvinnutækifærum fækkar.

Samkeppniseftirlitið getur lagt háar sektir á fyrirtæki sem taka þátt í ólögmætu samráði. Geta sektir numið allt að 10% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.

Stjórnendur fyrirtækja sem taka þátt í ólögmætu samráði eiga á hættu allt að sex ára fangelsisvist

Fyrirtæki sem taka eða hafa tekið þátt í ólögmætu samráði geta á grundvelli reglna sem Samkeppniseftirlitið hefur sett komist hjá sektum eða lækkað mögulegar sektir með því að vinna með Samkeppniseftirlitinu við að upplýsa málið. Þessar reglur, sem eru settar að erlendri fyrirmynd, er ætlað að auðvelda Samkeppniseftirlitinu að uppræta þessi alvarlegu brot. Það leiðir af framangreindu að fyrirtæki sem taka þátt í samráði geta haft mikinn hag af þessari samvinnu við eftirlitið. Nánari upplýsingar um þessar reglur og skilyrði fyrir þessari samvinnu er að finna hér.

Frekari upplýsingar

Lög og reglur

Kvartanir og erindi


Tengdar ákvarðanir

Tengdar ákvarðanir

Byggingaþjónusta

Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun


Fjármálaþjónusta

Neysluvörur, rekstrarvörur og fleira

Orkumál

Samgöngu- og ferðamál

  •  

Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta

  •  

Umhverfismál

  •  

Mennta og menningarmál

  •