22.10.2021

Hagmunasamtök mega ekki taka þátt í umfjöllun um verð

Neytendur þurfa að vera á varðbergi gagnvart verðhækkunum

  • Rvk

[ Sjá einnig pistil sem birtist á Vísi 25. október 2021 ]

Á undanförnum dögum hafa fjölmiðlar fjallað um yfirvofandi vöruskort á ýmsum sviðum, hækkandi hrávöruverð, truflanir í aðfangakeðjum og aðrar efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins sem áhrif geta haft á verðlag og hagsmuni neytenda hér á landi.

Forsvarsmenn hagsmunasamtaka fyrirtækja hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þannig lét framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafa það eftir sér í fjölmiðlum að það væri „mjög líklegt að [vöru]skorturinn til skamms tíma muni valda verðhækkunum alla vega á einhverjum vöruflokkum.

Einnig hefur framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu lýst yfir áhyggjum af því að „það verði áfram þrýstingur á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu […]“ í grein í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni „Frekari hækkanir í vændum“ ásamt því að lýsa því yfir í ViðskiptaMogganum að „greinilegt“ sé að „þær hækkanir sem orsakast af þessum miklu hrávöruhækkunum, […] eru ekki að fullu komnar framÍslandi]“. Þá var haft eftir formanni Bændasamtaka Íslands að verðhækkanir á tilbúnum áburði muni á endanum leiða til hækkunar á afurðaverði og nefndi sem dæmi framleiðslu á grænmeti og mjólkurafurðum.

Af þessu tilefni vill Samkeppniseftirlitið taka fram eftirfarandi:

  • Ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður í hagsmunagæslu sinni og verða samtök fyrirtækja því að fara afar gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna. Öll þátttaka í umræðu um verð og verðlagningu er sérstaklega varhugaverð og ætti ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka.

  • Sérstaklega er brýnt að gætt sé að þessu þegar í hlut eiga fákeppnismarkaðir og efnahagserfiðleikar steðja að.

  • Á samkeppnismarkaði á hækkun á aðfangaverði ekki að leiða sjálfkrafa til hækkunar á verði til neytenda. Samkeppnislög gera ráð fyrir því að hvert og eitt fyrirtæki geri eigin ráðstafanir og taki sjálfstæðar ákvarðanir til að bregðast við slíkum áskorunum á sínum eigin rekstrarlegu forsendum og án alls samráðs við keppinauta eða hvatningar frá hagsmunasamtökum.

  • Undir kringumstæðum sem þessum, þegar erfiðleikar steðja að, setur virk samkeppni þrýsting á stjórnendur fyrirtækja til að skapa aðstæður fyrir aukið hagræði.

  • Neytendur eiga heimtingu á því að fyrirtæki ákveði sjálfstætt hvernig þau hegða sér á markaði og hvernig þau verðleggja vörur sínar. Einnig er mikilvægt við aðstæður sem þessar að neytendur veiti fyrirtækjum öflugt aðhald.

Með hliðsjón af þessu brýnir Samkeppniseftirlitið fyrir forsvarsmönnum hvers konar hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að taka ekki þátt í umfjöllun sem tengist verðlagningu eða annarri markaðshegðun fyrirtækja.

Jafnframt minnir eftirlitið á þær skyldur stjórnenda fyrirtækja að taka sjálfstæðar ákvarðanir í rekstri sínum án tillits til umfjöllunar á vettvangi hagsmunasamtaka.

Einnig beinir eftirlitið því til neytenda að vera á varðbergi gagnvart verðhækkunum framundan. Hægt er að beina ábendingum um verðhækkanir til Neytendasamtakanna, verðlagseftirlits ASÍ eða Neytendastofu. Þá tekur Samkeppniseftirlitið við ábendingum um hugsanleg brot á samkeppnislögum.

Bakgrunnsupplýsingar

Samkeppni í viðskiptum er nauðsynleg fyrir íslenskt atvinnulíf þar sem hún eykur velferð almennings og stuðlar að hagkvæmni í atvinnurekstri. Virk samkeppni er atvinnuskapandi og stuðlar að aukinni framleiðni, nýsköpun og efnahagslegum vexti. Þannig geta aðgerðir sem efla samkeppni frekar stuðlað að hraðari endurreisn efnahagslífsins.

Samkeppniseftirlitið hefur í nokkrum tilvikum þurft að hafa afskipti af samtökum fyrirtækja vegna aðgerða sem fóru gegn samkeppnislögum. Á árinu 2008 lagði Samkeppniseftirlitið sektir á Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu vegna aðgerða sem stuðluðu að verðsamráði á matvöru og á árinu 2009 voru lagðar sektir á Félag íslenskra stórkaupmanna og Bændasamtök Íslands, meðal annars vegna umræðu um þörf á hækkun á verði matvæla. Samkeppniseftirlitið mun áfram taka af festu á brotum af þessu tagi.

Nýverið kallaði Samkeppniseftirlitið eftir upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja í tilefni af umfjöllun samtakanna um verðlagningu aðildarfyrirtækja sinna á vátryggingamarkaði en í grein framkvæmdastjóra samtakanna sem birt var í fjölmiðlum var meðal annars fjallað um áhrif launaþróunar, bótafjárhæða og annarra þátta á iðgjöld. Hefur Samkeppniseftirlitið það nú til skoðunar hvort ástæða sé til að hefja frekari rannsókn vegna þessa en samkeppnisyfirvöld hafa áður þurft að hafa afskipti af opinberu fyrirsvari hagsmunasamtaka vátryggingafélaga um verðlagsmál tryggingafélaga.