Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 8/2015
  • Dagsetning: 30/4/2015
  • Fyrirtæki:
    • Arion banki
    • Valitor hf.
    • Kortaþjónustan ehf
    • Íslandsbanki hf.
    • Landsbankinn hf.
    • Borgun hf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjármálaþjónusta
    • Greiðslukortastarfsemi
  • Málefni:
    • Markaðsyfirráð
  • Reifun

    Þann 18. desember 2014 tilkynnti Samkeppniseftirlitið um að Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Borgun og Valitor hefðu hver fyrir sig gert sátt við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar þess á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Í meðfylgjandi ákvörðun er fjallað um sáttirnar og málið sem sáttirnar byggja á.

    Með sáttunum viðurkenndu framangreind fyrirtæki að tiltekin framkvæmd á greiðslukortamarkaði hefði ekki verið í samræmi við 10. og 12. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Fyrirtækin féllust á að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir sem eru til þess fallnar að efla samkeppni. Jafnframt féllust þau á greiðslu sekta, samtals að fjárhæð 1.620 milljónir kr.

    Sáttirnar sem liggja til grundvallar ákvörðuninni munu leiða til jákvæðra grundvallarbreytinga á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði. Megintilgangurinn með þeim er að stuðla að aukinni hagkvæmni í greiðslukortaþjónustu með því að skapa grundvöll fyrir sterkara aðhald viðskiptavina, að stuðla að samkeppnislegu jafnræði keppinauta á sviði færsluhirðingar og greiðslukortaútgáfu, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum í starfsemi fjármálafyrirtækja á greiðslukortamarkaði og að öðru leyti stuðla að virkari samkeppni á sviði kortaútgáfu og færsluhirðingar

    Breytingarnar fela m.a. í sér að hámark verður sett á svonefnt milligjald sem er þóknun sem rennur til bankanna gegnum færsluhirða frá söluaðilum (s.s. verslunum). Jafnframt er stuðlað er að auknu gagnsæi í gjaldtöku fyrir greiðslukortaþjónustu og aukinni hagræðingu á þessu sviði. Þá hafa Valitor og Borgun fallist á að skilja á milli útgáfuþjónustu og færsluhirðingar en samrekstur þessara starfsþátta hefur falið í sér samkeppnishindranir gagnvart öðrum keppinautum á greiðslukortamarkaði. Jafnframt er horfið frá því að keppinautar á viðskiptabankamarkaði eigi saman greiðslukortafyrirtæki en það fyrirkomulag hefur ekki gefist vel í samkeppnislegu tilliti. Samhliða er tryggt að Valitor og Borgun þjónusti aðra en eigendur sína á jafnræðisgrundvelli.