Skilgreining
Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga banna hverskonar samkeppnishamlandi samstarf milli fyrirtækja. Um getur verið að ræða t.d. eftirfarandi samráð fyrirtækja:
- Um verð eða verðlag, álagningu, afslætti eða önnur viðskiptakjör
- Um takmörkun eða stýringu á framleiðslu
- Við tilboðsgerð þegar verkefni, vörukaup eða þjónusta hefur verið boðin út
- Um að skipta með sér mörkuðum, eftir t.d. viðskiptavinum eða landsvæðum
- Um bindandi endursöluverð á vöru eða þjónustu
Í hnotskurn
Allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskipaleg atriði er bannað. Undir samráð getur fallið hvers konar samskipti milli starfsmanna keppinauta, hvort heldur sem samskiptin eru einhliða eða af beggja hálfu. Sama gildir um samskipti framleiðanda og endursöluaðila, s.s. um bindandi endursöluverð á vöru eða þjónustu. Samkeppniseftirlitið leggur sektir á fyrirtæki sem taka þátt í ólögmætu samráði og stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem þátt taka í samráðinu geta sætt refsiábyrgð, s.s. sektum og fangelsi.
Leynilegt, ólögmætt samráð keppinauta er alvarlegasta brotið á samkeppnislögum þar sem það getur haft mjög skaðleg áhrif á samkeppni og þar með rýrt lífskjör almennings. Slíkt samráð fyrirtækja leiðir nær undantekningarlaust til hærra verðs en ella. Rannsóknir sem greint hefur verið frá á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar -OECD- sýna að meðaltalsávinningur fyrirtækja sem taka þátt í ólöglegu verðsamráði nemi 10% af söluverði vöru eða þjónustu. Skaði þjóðfélagsins í slíkum tilvikum er hins vegar mun meiri og kann að nema 20% af umfangi þeirra viðskipta sem samráðið nær til. Nýrri rannsóknir benda til þess að skaðinn sé jafnvel enn meiri. Með öðrum orðum þá greiða kaupendur, þ.e. neytendur, fyrirtæki og hið opinbera, mun hærra verð fyrir vörur og þjónustu þegar keppinautar koma sér saman um verð, hafa samráð við gerð tilboða eða skipta með sér mörkuðum, en þar sem heiðarleg samkeppni fær að njóta sín. Slíkt samráð fyrirtækja skaðar því bæði hag atvinnulífsins og neytenda. Aðföng fyrirtækja verða dýrari og þegar til lengri tíma er litið dregur það úr samkeppnishæfni atvinnugreina þannig að atvinnutækifærum fækkar.
Samkeppniseftirlitið getur lagt háar sektir á fyrirtæki sem taka þátt í ólögmætu samráði. Geta sektir numið allt að 10% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.
Stjórnendur fyrirtækja sem taka þátt í ólögmætu samráði eiga á hættu allt að sex ára fangelsisvist
Fyrirtæki sem taka eða hafa tekið þátt í ólögmætu samráði geta á grundvelli reglna sem Samkeppniseftirlitið hefur sett komist hjá sektum eða lækkað mögulegar sektir með því að vinna með Samkeppniseftirlitinu við að upplýsa málið. Þessar reglur, sem eru settar að erlendri fyrirmynd, er ætlað að auðvelda Samkeppniseftirlitinu að uppræta þessi alvarlegu brot. Það leiðir af framangreindu að fyrirtæki sem taka þátt í samráði geta haft mikinn hag af þessari samvinnu við eftirlitið. Nánari upplýsingar um þessar reglur og skilyrði fyrir þessari samvinnu er að finna hér.
Helstu tegundir samráðsbrota
Ólöglegt samráð getur bæði falið í sér brot sem eru annars vegar lóðrétt, þ.e. samráð milli fyrirtækja á sitthvoru sölustiginu, t.d. á milli heildsölu eða smásala, og hins vegar lárétt en þá felst ólögmæta samráðið í samstarfi tveggja fyrirtækja á sama sölustigi, t.d. milli tveggja smásala.
Samráðsbrot geta m.a. komið fram í samningum, samþykktum og samstilltum aðgerðum. Ekki er gerð krafa um ákveðið form samninga milli aðila, þ.e. að þeir séu skriflegir eða undirritaðir, til þess að þeir uppfylli samningshugtakið í samkeppnislögunum. Er því túlkunin víðtæk og nær í flestum tilvikum til þess samstarfs sem vafi leikur á að falli undir samningshugtakið.
Með samstilltum aðgerðum er átt við að tvö eða fleiri fyrirtæki samræmi aðgerðir sínar án þess að eiginlegur samningur hafi verið gerður. Þó verður að telja skilyrði að fyrirtækin sem um ræðir hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti.
Bannið um samráð nær til þeirra sem hafa þann tilgang að takmarka samkeppni. Er það því óháð því hvort það markmið náist eða ekki. Því er ekki gerð sú krafa að hið ólögmæta samstarf hafi í raun haft áhrif á samkeppnina.
Helstu tegundir samráðsbrota eru:
Verðsamráð: Varla er hægt að finna alvarlegri samkeppnishindranir en þegar fyrirtæki koma sér saman um aðgerðir sem hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þess konar aðgerðir hafa þann tilgang að hafa hamlandi áhrif á samkeppni og verð.
Markaðsskipting: Hér falla undir aðgerðir fyrirtæka á sama sölustigi og um skiptingu markaða eftir svæðum, viðskiptavinum eða eftir sölu og magni. Sömuleiðis eiga hér undir lóðréttir samningar um markaðsskipti, t.d. milli framleiðenda og dreifingaraðila.
Takmörkun á framleiðslu/framboði: Þetta tekur til samstarfs sem takmarkar eða stýrir framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu. Það gæti falist í því að keppinautar koma sér saman um að takmarka framboð á vöru með það að markmiði að hækka verð hennar.
Samráð um gerð tilboða: Hér er átt við að keppinautar koma sé saman um að taka ekki þátt í tilteknu útboði, þeir ákveða að skila útboði með sömu verðum eða þeir ákveða sín á milli hver eigi að fá viðskiptin samkvæmt útboðinu. Þess háttar aðgerðir leiða alla jafna til verðhækkana sem að lokum bitna á neytendum.
Upplýsingaskipti milli keppinauta: Hegðun keppinauta er ein af meginforsendum þess að óheft samkeppni geti átt sér stað. Upplýsingar á milli keppinauta um hvernig þeir hyggjast hegða sér á markaði dregur úr óvissu fyrirtækjanna sem í hlut eiga.
Aðgerðir sem hindra aðgengi nýrra keppinauta inn á markað: Með þessu móti þurfa aðilar sem þegar eru á markaði ekki að bregðast við nýjum keppinautum. Það dregur úr samkeppni og kemur niður á neytendum.
Aðgerðir sem mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í samskonar viðskiptum: Mismunun getur leitt til þess að veikja samkeppnisstöðu. Dæmigert atvik af þessu tagi væri lóðréttir samkeppnishamlandi samningar um verð eða afslætti, sem mismuna kaupendum eða hópum þeirra. Meginregla er að afslættir sem byggjast á kostnaðarlegum forsendum hafa samkeppnishvetjandi áhrif. Hins vegar geta afslættir sem byggjast á huglægum og ómálefnalegum sjónarmiðum haft neikvæð áhrif á samkeppni milli fyrirtækja.
Skilyrði um viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninga: Þetta á fyrst og fremst við þegar fyrirtæki býr yfir eftirsóknarverðri vöru eða þjónustu sem það hyggst aðeins selja ef kaupandi kaupir jafnframt aðra vöru eða þjónustu af fyrirtækinu. Með þessu er hægt að neyða kaupanda til viðbótar viðskipta sem þeir ef til vill gætu fengið með hagkvæmari kjörum annars staðar.
Þær tegundir sem hér hafa verið taldar upp eiga það sameiginlegt að hafa það að meginmarkmiði að hækka verð á vöru og þjónustu neytendum til tjóns.
Ábyrgð einstaklinga
Árið 2007 var refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum afmörkuð nánar en áður gilti. Með breytingunum var refsiábyrgð einstaklinga gerð skýrari og nánar fjallað um verkaskiptinu og samvinnu samkeppnisyfirvalda og lögreglu við rannsókn brota gegn samkeppnislögum.
Refsiábyrgð einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum er afmörkuð við brot sem fela í sér ólögmætt samráð en þau eru talin alvarlegustu samkeppnislagabrotin. Ástæða þess er sú að í málum þar sem grunur leikur á samráði eru miklir hagsmunir í húfi fyrir neytendur og atvinnulífið enda getur ólögmætt samráð fyrirtækja haft í för með sér verulegan efnahagslega skaða. Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum getur einstaklingur, þ.e. starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sætt sektum eða fangelsi allt að sex árum. Nánar tiltekið tekur refsiábyrgðin til samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör, samráðs um skiptingu á mörkuðum og takmörkun á framleiðslu, samráðs um gerð tilboða, samráðs um að eiga ekki viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða neytendur og svo til upplýsingagjafar um þessi tilteknu atriði. Þá heyrir hér einnig undir samráð fyrirtækja sem hefur það að markmiði að fyrirtækin keppi ekki sín á milli.
Misnotkun á markaðsráðandi stöðu getur ekki varðað einstaklingum refsingu með sama hætti. Um þetta sagði í greinargerð með frumvarpi:
Það er staðreynd að misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sbr. 11. gr. samkeppnislaga, getur haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir samfélagið og að því standa rök til þess að misnotkun á markaðsráðandi stöðu geti varðað refsingu með sama hætti og ólögmætt samráð. Hins vegar er það talið geta valdið vandkvæðum við beitingu slíks refsiákvæðis að framkvæma getur þurft flókna hagfræðilega greiningu til að komast að raun um hvort viðkomandi fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Þá kann í undantekningatilvikum að vera vandasamt fyrir fyrirtæki að gera sér grein fyrir því hvort það hafi markaðráðandi stöðu í skilningi 11. gr. samkeppnislaga. Jafnframt ber að hafa í huga að í 11. gr. laganna er lagt bann við hegðun sem getur verið eðlileg og jafnvel samkeppnishvetjandi ef um er að tefla fyrirtæki sem ekki er í markaðsráðandi stöðu. Á grundvelli þessa þykir ekki ástæða til þess að leggja refsingu við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Er niðurstaðan í samræmi við samkeppnisrétt flestra vestrænna ríkja sem mæla fyrir um refsingar við samkeppnisbrotum, t.d. Bretland, Noreg og Bandaríkin.
Samkeppnislagabrot einstaklinga sæta einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Samkeppniseftirlitið metur í hvert sinn með tilliti til grófleika brots hvort kæra skuli mál til lögreglu. Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið gæti samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Þá er rétt að taka það fram að Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann eða fyrirtækið sem hann starfar hjá haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna samráðsbrota sem geta leitt til sönnunar á brotunum eða teljast mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar í höndunum.
Samkeppniseftirlitinu er heimilt að afhenda lögregluyfirvöldum gögn og upplýsingar sem aflað hefur verið og tengjast umræddum brotum sem til rannsóknar eru. Á sama hátt getur lögreglan afhent Samkeppniseftirlitinu gögn og upplýsingar sem máli skipta. Þá er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsóknina og lögreglu er jafnframt heimilt að taka þátt í aðgerðum samkeppnisyfirvalda.
Hagsmunasamtök fyrirtækja og samkeppnisreglur
Á þessari upplýsingasíðu er safnað saman upplýsingum um reglur og beitingu reglna sem koma eiga í veg fyrir að starf hagsmunasamtaka fyrirtækja skaði samkeppni á mörkuðum. Þessar reglur hafa verið staðfestar í framkvæmd bæði hér á landi og erlendis.
Hagsmunasamtök fyrirtækja þurfa að kunna á þessum reglum góð skil. Einnig er mikilvægt að aðildarfyrirtæki hagsmunasamtaka þekki reglurnar, bæði í sinni eigin þátttöku á vettvangi samtaka og til þess að sýna samtökum sínum aðhald.
Þá eru þessar upplýsingar einnig gagnlegar fyrir neytendur, viðskiptavini fyrirtækja og aðra sem vilja skapa virkt aðhald á mörkuðum.
Starf hagsmunasamtaka fyrirtækja getur verið gagnlegt og haft jákvæð áhrif á mörkuðum, s.s. í umræðu á vettvangi stjórnvalda um leiðir til að bæta rekstrar- og starfsskilyrði fyrirtækja og viðkomandi atvinnugreinar í heild sinni. Á hinn bóginn setja samkeppnislög hagsmunasamtökum mikilvægar skorður. Þess vegna skiptir miklu máli fyrir neytendur og efnahagslífið í heild að hagsmunasamtök og aðildarfyrirtæki þeirra séu ávallt á varðbergi og gæti þess að fylgja lögum að þessu leyti.
Samkvæmt samkeppnislögum er hagsmunasamtökum fyrirtækja bannað að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt samkeppnislögum eða brjóta í bága við ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins. Bann þetta kemur fram í 12. gr. samkeppnislaga, en inntak bannsins kemur einnig fram m.a. í banni 10. gr. samkeppnislaga við ólögmætu samráði.
Ef spurningar vakna varðandi þetta málefni má endilega senda póst á samkeppni@samkeppni.is.
Spurt & svarað
Í 12. gr. samkeppnislaga segir að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum eða brjóta í bága við ákvarðanir samkvæmt lögunum. En hvað felst í þessu?
Hugtökin að „ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana“ taka til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti. Það leiðir af orðlagi ákvæðisins að ákvörðun eða hvatning getur verið í hvaða formi sem er.
Notkun hugtaksins hvatning í 12. gr. samkeppnislaga gefur til kynna að löggjafinn hafi viljað leggja sérstaka áherslu á að ákvæðið taki til hvers konar ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ekki eru bindandi sem hafa það að markmiði að raska samkeppni eða hafa slík skaðleg áhrif. Hugtakið hvatning nær þannig til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti.
Ljóst er að ákvæði 12. gr. felur í sér sjálfstætt brot á samkeppnislögum, en efnisinntak þess kemur einnig fram í banni 10. gr. samkeppnislaga við ólögmætu samráði. Ákvæði 12. gr. er sambærilegt þeim reglum sem gilda annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur verið túlkað í ákvörðunum, úrskurðum og dómum.
Í 2. mgr. 12. gr. samkeppnislaga er síðan tekið af skarið um að bann við því að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana taki einnig til „stjórnarmanna samtaka, starfsmanna þeirra og manna sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna“. Í frumvarpi sem varð að eldri samkeppnislögum kom þetta m.a. fram um ákvæðið: „Til þess að koma í veg fyrir allan vafa um túlkun er tekið fram í 2. mgr. að bannið taki einnig til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna samtaka og manna sem gegna trúnaðarstörfum hjá eða á vegum samtaka fyrirtækja.“
Samkeppniseftirlitið hefur sett fram leiðbeiningar um það hvað samtök fyrirtækja þurfi sérstaklega að varast. Hafa þær komið fram á heimasíðu eftirlitsins og í skýrslu nr. 1/2008, Viðskiptasamningar birgja og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði, (bls. 30 og áfram). Byggja þessar leiðbeiningar á umfjöllun og réttarframkvæmd hér á landi og erlendis en í skýrslunni er áréttað að þessi umfjöllun sé ekki tæmandi.
Eftirfarandi eru dæmi um umfjöllun eða samvinnu sem farið getur gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga:
- Ákvörðun eða önnur umfjöllun um gjaldskrá eða hvað teljist til „eðlilegrar“ verðlagningar aðildarfélaga.
- Ákvarðanir eða önnur umfjöllun um að hækka verð, lækka verð eða halda verði óbreyttu.
- Samræming á eða önnur umfjöllun um hvers konar viðskiptaskilmála sem gilda gagnvart viðskiptavinum aðildarfyrirtækja.
- Umfjöllun eða umræður um að aðildarfyrirtæki eigi ekki viðskipti við tiltekna aðila.
- Umfjöllun eða umræður um verð, verðþróun, viðskiptakjör, verðbreytingar á aðföngum og öðrum kostnaðarliðum.
- Umfjöllun eða umræður um rekstrar-, efnahags- og viðskiptalega stöðu keppinauta eða viðskiptavina aðildarfélaganna.
- Upplýsingaskipti eða upplýsingamiðlun um verð, kostnað eða kostnaðaruppbyggingu, kostnaðarhækkanir, viðskiptavini, framboð og söluskilmála.
- Opinbert fyrisvar varðandi verðlagningu eða þjónustu aðildarfyrirtækja. Tekur þetta m.a. til umræðu á opinberum vettvangi um verð og verðbreytingar aðildarfyrirtækja.
Eins og rakið er í svari við spurningu 2 hér að framan getur eftirfarandi umfjöllun á vettvangi eða fyrir hönd samtaka fyrirtækja farið gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga:
- „Umfjöllun eða umræður um verð, verðþróun, viðskiptakjör, verðbreytingar á aðföngum og öðrum kostnaðarliðum.“
- „Umfjöllun eða umræður um rekstrar-, efnahags- eða viðskiptalega stöðu keppinauta eða viðskiptavina aðildarfélaga.“
Talsmenn samtaka fyrirtækja þurfa því að kunna skil á reglum samkeppnislaga sem varða starfsemi hagsmunasamtaka, samráð og fleira. Þau þurfa meðal annars að vera meðvituð um að ummæli um verð og verðhækkanir geta verið túlkuð sem vísbendingar, skilaboð eða hvatning um að tímabært sé að hækka verð.
Hafa verður í huga að aðilar að samtökum fyrirtækja eru oft öll eða flest fyrirtæki í viðkomandi atvinnugrein, eða -greinum, og talsmenn slíkra samtaka tala þá í nafni greinarinnar allrar. Augljóst er að ummæli þeirra geta haft mikil áhrif á meðal fyrirtækja. Af þeim sökum hafa ákvæði 12. gr. samkeppnislaga mikla þýðingu.
Þannig verða talsmenn samtaka fyrirtækja að gæta þess að aðildarfyrirtækin geti ekki litið á umfjöllun þeirra sem vísbendingu um að nú séu verðbreytingar tímabærar. Mikilvægt er að aðildarfyrirtækin taki ákvarðanir um verðbreytingar sem og aðrar ákvarðanir um rekstur sinn með sjálfstæðum hætti.
Starf hagsmunasamtaka fyrirtækja getur verið gagnlegt og haft jákvæð áhrif á mörkuðum. Til að sinna því starfi er hagsmunasamtökum heimilt að taka þátt í almennri umfjöllun um viðkomandi atvinnugrein í fjölmiðlum, í fræðslu- og upplýsingaskyni. Þá er þeim einnig heimilt að sinna hagsmunagæslu af ýmsu tagi. Getur það t.a.m. á við í eftirfarandi tilvikum:
- Í hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum varðandi nýja löggjöf eða breytingar á löggjöf, álagningu skatta eða önnur stefnumál stjórnvalda sem gætu haft áhrif á viðkomandi atvinnugrein.
- Í umræðu um starfsumhverfi eða starfsskilyrði, t.d. með hliðsjón af öryggiskröfum og umhverfissjónarmiðum, að því gefnu að í því felist ekki samráð um aðgangshindranir inn á markaðinn sem hefðu skaðleg áhrif á samkeppni.
- Í umræðu um leiðir til að efla samkeppnishæfni viðkomandi atvinnugreinar, nýsköpun, rannsóknir eða menntun.
- Í umræðu á vettvangi stjórnvalda um leiðir til að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja. Þar á meðal getur innlegg þeirra í umræðu um stöðu efnahagsmála verið mikilvægt.
- Með veitingu þjónustu eða ráðgjafar til aðildarfyrirtækja, s.s. lögfræðilega ráðgjöf, um endurskoðun reikninga, þjálfun starfsmanna eða umhverfisverndunarsjónarmið.
Hafa ber í huga að í einstökum tilvikum kunna samtök fyrirtækja að hafa skuldbundið sig til þess að fylgja sérstökum reglum til þess að tryggja breytingar á háttsemi sem talin hefur verið ólögmæt.
Að því er varðar umfjöllun samtaka fyrirtækja eða talsmanna þeirra er ljóst að ákvæði samkeppnislaga útiloka ekki umfjöllun um efnahagsmál, vöruskort, vaxtahækkanir og önnur starfsskilyrði fyrirtækja. Þannig geta hagsmunasamtök með ýmsum hætti staðið fyrir umræðu um starfsskilyrði fyrirtækja ef þess er gætt að aðildarfyrirtækin getið ekki litið á umfjöllun samtakanna sem vísbendingu, skilaboð eða hvatningu um tiltekna háttsemi eða aðgerðir.
Í umfjöllun um starfsskilyrði fyrirtækja hafa talsmenn hagsmunasamtaka oft fleiri en einn valkost. Það er t.d. munur á annars vegar því hvort samtök fyrirtækja eða talsmaður þeirra stígur fram og spáir því að fyrirtæki muni hækka verð eða tjáir sig um nauðsyn þess, og hins vegar því að talsmaðurinn reifi hækkandi hrávöruverð og versnandi aðstæður, en taki um leið fram að það sé fyrirtækjanna sjálfra að finna leiðir til að bregðast við því, s.s. með hagræðingaraðgerðum eða breytingum á kjörum.
Fyrri valkosturinn er varhugaverður og getur farið gegn samkeppnislögum því aðildarfyrirtæki samtakanna geta tekið ummælin sem vísbendingu um að nú sé tækifæri til að huga að verðhækkunum, óháð aðstæðum viðkomandi fyrirtækis. Seinni valkosturinn felur ekki í sér slíkar vísbendingar og er því í lagi.
Ef aðgerðir eða háttsemi samtaka fyrirtækja uppfylla öll skilyrði 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga gildir bannákvæði 12. gr. laganna ekki. Samtök fyrirtækja bera sjálf ábyrgð á því að leggja mat á það hvort viðkomandi samstarf eða aðgerðir standist þau skilyrði og hvort starfsemi þeirra yfirhöfuð uppfylli kröfur samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið hefur gefið út sérstakar leiðbeiningar um undantekningar samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga.
Ólíklegt verður að teljast að minniháttarregla samkeppnislaga geti átt við í tilviki samtaka fyrirtækja þar sem fjöldi fyrirtækja í sömu atvinnugrein eru yfirleitt aðilar að slíkum samtökum og hafa aðgerðir samtakanna því víðtæk áhrif. Minniháttarregla 13. gr. samkeppnislaga tekur til samstarfs þar sem sameiginleg markaðshlutdeild samstarfsfyrirtæja er undir 5-10%. Hið sama á við um beitingu hópundanþága en markaðshlutdeild samstarfsfyrirtækja þarf í slíkum tilvikum að vera undir 30%.
Fjallað hefur verið um beitingu þessa ákvæðis í ýmsum úrlausnum eftirlitsins. Þannig hafa samkeppnisyfirvöld hér á landi tekið ákvarðanir í á öðrum tug mála þar sem samtök fyrirtækja hafa verið talin ganga gegn 12. gr. samkeppnislaga með umfjöllun um verð eða öðrum samkeppnishindrunum.
Þessi mál veita mikilvæga leiðbeiningu um það hvernig hagsmunasamtök geta hagað starfsemi sinni, og hvernig ekki.
Í þessu skyni er rétt að nefna eftirtalin mál. Í gegnum meðfylgjandi slóð er að nálgast bæði ákvörðun og frétt um viðkomandi mál:
- Ákvörðun nr. 7/2022, Brot Samtaka fjármálafyrirtækja á 12. gr. samkeppnislaga og fyrirmælum ákvörðunar nr. 17/2004. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið, þar sem samtökin viðurkenndu að hafa brotið gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og gegn 4. gr. ákvörðunarorðs í ákvörðun nr. 17/2004, þar sem lagt er bann við því að samtökin fari með opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu og þjónustu aðildarfélaga sinna.
Samandregið fólust brotin í því að SFF fóru með opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu og þjónustu aðildarfyrirtækja sem starfa á vátryggingamarkaði. Fólust í þessu samskipti á vettvangi SFF og greinaskrif samtakanna sem birtust opinberlega, dagana 25. maí 2021 og 8. september 2021. Skuldbundu SFF sig til að greiða stjórnvaldssekt vegna framangreindra brota að fjárhæð tuttugu milljónir króna.
Hér má nálgast frétt Samkeppniseftirlitsins um ákvörðunina frá 28. mars 2022.
- Ákvörðun nr. 43/2017, Aðgerðir til þess að bæta samkeppni í fasteignasölu. Félag fasteignasala gerði sátt við eftirlitið og viðurkenndi að hafa staðið fyrir umræðu um söluþóknun og innheimtu umsýslugjalds meðal fasteignasala og hvatt til þess að aðildarfyrirtæki auglýstu fasteignir eingöngu á vef félagsins. Félagið skuldbatt sig til að gera breytingar á starfsemi sinni og innleiða m.a. samkeppnisréttaráætlun. Greiddi félagið sekt vegna málsins.
- Ákvörðun nr. 24/2015, Aðgerðir til að styrkja samkeppni í ferðaþjónustu. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu að hafa m.a. safnað og miðlað verðupplýsingum, stuðlað að samræmdum skilmálum og gefið út leiðbeiningar um ýmis gjöld. Samtökin skuldbundu sig til að gera breytingar á starfsemi sinni, innleiða samkeppnisréttaráætlun og grípa til ítarlegra aðgerða sem lýst er í ákvörðunarorðum ákvörðunar. Taka skilyrði m.a. til opinbers fyrirsvars. Greiddi félagið sekt vegna málsins.
Samtökin falla undir Samtök atvinnulífsins.
- Ákvörðun nr. 30/2012, Brot Jeppavina og aðildarfyrirtækja félagsins á 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Um var að ræða hagsmunasamtök jeppaeigenda í atvinnurekstri. Samtökin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu að hafa brotið samkeppnislög með því að birta leiðbeinandi verðskrár, samræma viðskiptaskilmála og hafa með sér samskipti um verðlagningu. Skuldbatt félagið sig til að tryggja viðskiptalegt sjálfstæði félagsmanna, til áréttingar á gildandi lagafyrirmælum. Greiddi félagið sekt vegna málsins.
- Ákvörðun nr. 27/2010, Brot Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Samtökin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu að hafa bannað aðildarfyrirtækjum að eiga viðskipti við tiltekin fyrirtæki og að sú sniðganga hafi byggst á samskiptareglum samtakanna. Viðurkenndu samtökin einnig að önnur ákvæði samskiptareglnanna um upplýsingamiðlun og samvinnu fælu í sér brot á samkeppnislögum. Skuldbundu samtökin sig til að fella út gildi tiltekin ákvæði samskiptareglnanna, afturkalla verkbönn og gera breytingar á starfsemi sinni til að tryggja að brot endurtækju sig ekki. Samtökin greiddu sekt vegna málsins.
Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði gengu til liðs við Samtök iðnaðarins eftir að fyrrgreind ákvörðun var tekin en voru áður aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Samtök iðnaðarins eru aðili að Samtökum atvinnulífsins.
- Ákvörðun nr. 9/2009, Brot Bændasamtaka Íslands á banni samkeppnislaga við verðsamráði. Komist var að þeirri niðurstöðu að samtökin hefðu brotið 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga með því að beita sér fyrir verðhækkunum á búvöru. Fólst brotið m.a. í hvatningu formanns BÍ í fjölmiðlum og á búnaðarþingi. Laut brotið að vörum sem lutu frjálsri verðsamkeppni, einkum kjúklingakjöti, en ekki vörum þar sem hið opinbera kom að verðlagningu. Mælt var fyrir um breytingar á starfsemi BÍ til þess að koma í veg fyrir samskonar brot. Með úrskurði í máli nr. 7/2009 staðfesti áfrýjunarnefndin brot samtakanna, en lækkaði sektir.
- Ákvörðun nr. 5/2009, Brot félags íslenskra stórkaupmanna á 12., sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Félagið gerði sátt við eftirlitið og viðurkenndi að hafa brotið samkeppnislög með umræðum á vettvangi félagsins um verðlagsmálefni aðildarfyrirtækja sem störfuðu á sviði matvöru. Að sama skapi viðurkenndi félagið að opinber ummæli fyrrverandi framkvæmdastjóra um hækkunarþörf hefðu falið í sér brot. Þá áttu sér stað samskipti við Samtök verslunar og þjónustu um að félögin myndu tala einni röddu um ástæður verðhækkana. Félagið skuldbatt sig til að hafa í gildi starfsreglur sem ætlað var að vinna gegn hættu á samskonar brotum. Félagið greiddi sekt vegna málsins.
Félag íslenskra stórkaupmanna heitir nú Félag atvinnurekenda.
- Ákvörðun nr. 10/2008, Brot Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu á samkeppnislögum í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti á matvörum. Félögin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga, sem fólst í samvinnu um hvernig fyrirtæki skyldu standa að verðbreytingum sem leiddu af lækkun opinberra gjalda. Jafnframt var ákveðið hvernig tekjutapi yrði skipt. Hinar ólögmætu aðgerðir fólust m.a. í opinberri kynningu á áformum. Félögin skuldbundu sig til að setja reglur sem tryggðu að starf á vettvangi samtakanna yrði ávallt í samræmi við samkeppnislög. Greiddu bæði félög stjórnvaldssekt.
Félögin eru bæði aðilar að Samtökum atvinnulífsins.
- Ákvörðun nr. 4/2008, Brot Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorts hf. og Fjölgreiðslumiðlunar hf. á bannákvæðum samkeppnislaga. Félögin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu umfangsmikil brot á banni við ólögmætu samráði, auk þess sem Greiðslumiðlun (nú Valitor) viðurkenndi brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þá viðurkenndi Fjölgreiðslumiðlun brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga, en félagið var í sameiginlegri eigu banka og greiðslukortafyrirtækja og taldist samtök fyrirtækja í skilningi laga. Félögin greiddu öll stjórnvaldsektir vegna málsins og undirgengust ítarleg skilyrði sem fólu í sér breytingar á greiðslukortamarkaði.
- Ákvörðun nr. 17/2004, Rannsókn á samkeppnishindrandi samstarfi á íslenska vátryggingamarkaðnum. Samband íslenskra tryggingafélaga (SÍT) gerði sátt við samkeppnisyfirvöld, þar sem viðurkennt var að sambandið hefði brotið gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga með margvíslegum aðgerðum, þ.á m. opinberu fyrirsvari fyrir verðlagningu og þjónustu aðildarfélaga sinna. Skuldbatt sambandið sig til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir samskonar brot. Þar á meðal skyldi sambandinu óheimilt að fara með opinbert fyrirsvar við verðlagningu og fleira, til áréttingar gildandi lagafyrirmælum.
SÍT rann síðar inn í Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og er félagið aðili að Samtökum atvinnulífsins.
- Ákvörðun nr. 5/2004, Ólögmætt samráð innan Lögmannafélags Íslands. Komist var að þeirri niðurstöðu að Lögmannafélagið hefði hvatt til hækkunar og samræmingar á gjaldskrá lögmanna með því að láta semja kostnaðargrunn og birta hann. Greiddi félagið stjórnvaldssekt vegna málsins.
Samkeppniseftirlitið hefur í fleiri tilvikum beitt 12. gr. samkeppnislaga, sbr. t.d. í ákvörðun nr. 8/2015, Breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði. Málið varðaði m.a. ákvörðun um sameiginlegt milligjald í kortaviðskiptum, sem ákveðið var á vettvangi Valitor og Borgunar, f.h. viðskiptabankanna. Kortafyrirtækin voru í sameiginlegri eigu bankanna og töldust samtök fyrirtækja í skilningi samkeppnislaga. Fyrirtækin gerðu öll sátt við eftirlitið, viðurkenndu brot, þ.á m. á 12. gr. samkeppnislaga, og greiddu sektir. Þá skuldbundu fyrirtækin sig til að ráðast í aðgerðir til að bæta samkeppnisaðstæður á greiðslukortamarkaði, m.a. með lækkun milligjalda.
Eftirlit með samtökum fyrirtækja beinist einkum að því hvort farið er að 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga og því hvort samtökin fylgi þeim skilyrðum eða reglum sem þau hafa skuldbundið sig til að fylgja í einstökum tilvikum.
Á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins eru birtar upplýsingar um alla íhlutun gagnvart samtökum fyrirtækja. Eins og rakið er í svari við spurningu 6 hafa samtök fyrirtækja í allmörgum tilvikum skuldbundið sig til að gera breytingar á starfsemi sinni, s.s. setja sér samkeppnisréttaráætlun eða verklagsreglur, til þess að tryggja eftirfylgni við lögin.
Eftirlit og eftirfylgni Samkeppniseftirlitsins fer einkum fram með eftirfarandi hætti:
- Samkeppniseftirlitið tekur við kvörtunum, erindum og ábendingum frá neytendum eða fyrirtækjum á markaði og tekur afstöðu til þess hvort tilefni sé til rannsókna á grundvelli þeirra.
- Eftirlitið fylgist með fjölmiðlaumfjöllun og öðrum upplýsingum sem geta gefið til kynna möguleg athugunarefni.
- Þegar ástæða er til gefur eftirlitið út tilkynningar þar sem e.a. eru sett fram tilmæli. Þannig gaf eftirlitið út tilkynningu föstudaginn 22. október 2021, þar sem vakin var athygli á gildandi reglum um starfsemi hagsmunasamtaka og umfjöllun þeirra um verðhækkanir. Sambærileg tilmæli voru sett fram í tilkynningu í lok mars 2008, þar sem skyldur fyrirtækja og samtaka þeirra voru áréttaðar.
- Þá sinnir Samkeppniseftirlitið leiðbeiningarhlutverki með upplýsingagjöf á heimasíðu sinni, í opinberri umræðu, sbr. t.d. pistil nr. 9/2021 og í formlegum og óformlegum samskiptum við hagsmunasamtök og aðildarfyrirtæki.
- Þegar nauðsyn ber til grípur Samkeppniseftirlitið til íhlutunar, sbr. t.d. þau mál sem rakin eru svari við spurningu 6. Til rannsóknar geta verið brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga eða brot á fyrri ákvörðunum eftirlitsins.
Á Íslandi ríkir fákeppni á ýmsum mikilvægum mörkuðum. Í dómi Hæstaréttar frá 7. janúar 2021 í máli nr. 42/2019 var þetta tekið fram: „Fákeppnismarkaðir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hvers konar samstarfi keppinauta þar sem auðveldara er að viðhafa samráð eða samkeppnishamlandi samhæfingu við slíkar aðstæður og því enn ríkari ástæða til að standa vörð um sjálfstæða ákvarðanatöku keppinauta og þá samkeppni sem ríkt getur á markaðnum þrátt fyrir fákeppnina […].“ Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015 segir að mikilvægt sé á fákeppnismarkaði að fyrir hendi sé óvissa fyrirtækja „sem í hlut eiga, um hegðun keppinautanna“.
Það er því sérstaklega brýnt að íslensk hagsmunasamtök fyrirtækja þekki til hlítar þær skorður sem samkeppnislög setja starfsemi þeirra og tryggi með virkum hætti að starfsemi þeirra leiði ekki til samkeppnishindrana af neinu tagi. Um leið er mikilvægt að talsmenn samtaka fyrirtækja grípi ekki til neinna aðgerða sem með óeðlilegum hætti dragi úr æskilegri óvissu á markaði og sjálfstæðri ákvarðanatöku aðildarfyrirtækja sem keppa á markaði.
Gagnlegt er einnig að hafa í huga að viðurkennt er að virk samkeppni eykur velferð neytenda og stuðlar að hagkvæmni í atvinnulífinu. Lægra verð, aukin gæði, meiri skilvirkni, betri stjórnun, aukin nýsköpun, minni ójöfnuður, minna atvinnuleysi, hraðari endurreisn á krepputímum, þróttmeira efnahagslíf og aukin samkeppnihæfni eru allt fylgifiskar virkrar samkeppni.
Ábatinn af virkri samkeppni er því mikill. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2021, Jákvæð áhrif samkeppni á lífskjör og hagsæld, eru teknar saman rannsóknir á áhrifum samkeppni á ýmsum sviðum.
Sambærilegar reglur gilda um hagsmunasamtök fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu og víðar. Í því felst bann við samkeppnihömlum og hvatningu til hindrana. Sömuleiðis er bannið við ólögmætu samráði sama efnis víðast hvar í heiminum.
Samkeppnisyfirvöld í nágrannalöndunum fylgja þessum reglum eftir, eins og Samkeppniseftirlitið gerir hér á landi. Nefna má til dæmis rannsókn írskra samkeppnisyfirvalda, sem beindist að vátryggingafélögum og samtökum þeirra, sem greint er frá á heimasíðu írska eftirlitsins þann 20. ágúst 2021. Í tilkynningu um málið segir m.a.:
„The CCPC opened this investigation on foot of public statements made by a number of parties in the sector which appeared to be forecasting with confidence that premiums would rise. At the time, consumers were reporting increases in their premiums and the CCPC was concerned that these statements could be considered price-signalling and, along with other communications about pricing, a breach of competition law.“
Hvorki verkalýðssamtök, Seðlabankinn né greiningardeildir banka eru bundin af 12. gr. samkeppnislaga.
Hagsmunasamtök fyrirtækja skera sig úr þeim hópi sem hér er nefndur, því aðilar að samtökum fyrirtækja eru oft öll eða flest fyrirtæki í viðkomandi atvinnugrein, eða -greinum, og talsmenn slíkra samtaka tala þá í nafni greinarinnar allrar. Augljóst er að ummæli þeirra geta haft mikil áhrif á meðal fyrirtækja. Af þeim sökum hafa ákvæði 12. gr. samkeppnislaga mikla þýðingu.
Draga má saman nokkra vegvísa sem gagnlegt er að hafa hliðsjón af:
- Hagsmunasamtök ættu að setja sér samkeppnisréttaráætlun, sem birt er opinberlega., þar sem m.a. er fjallað um verklag í starfi þeirra sem vinnur gegn hættunni á samkeppnislagabrotum. Nokkur samtök hafa skuldbundið sig til að setja sér reglur af þessu tagi.
- Árétta þarf reglulega fyrir öllum sem taka þátt í starfi samtakanna að öll umræða um samkeppnislega viðkvæm málefni er bönnuð. Jafnframt er mikilvægt að aðildarfyrirtækjum sé gefið skýrt til kynna að samkeppnislagabrot eru ekki liðin á vettvangi samtakanna.
- Gagnlegt er að settar séu verklagsreglur fyrir aðildarfyrirtæki, þar á meðal um það hvernig stjórnendur og starfsmenn þeirra eiga að bregðast við ef samkeppnislega viðkvæm málefni eru rædd á meðal keppinauta. Þar ætti meginreglan að vera að yfirgefa fund/samtal, gera athugasemdir með sannlegum hætti og tilkynna um möguleg brot.
- Talsmönnum samtaka séu settar verklagsreglur um þátttöku í opinberri umræðu, sem auðvelda þeim að sinna lögmætri hagsmunagæslu og koma í veg fyrir slys.
Lækkun eða niðurfelling sekta
Reglur Samkeppniseftirlitsins um niðurfellingu og lækkun sekta eru númer 890/2005 og hægt að nálgast hér.
Til að auðvelda Samkeppniseftirlitinu að koma upp um ólögmætt samstarf fyrirtækja hafa verið settar reglur sem gera fyrirtækjum sem þátt taka í ólögmætu samstarfi kleift að draga sig út úr samstarfinu. Með því að koma upp um samstarfið og vinna með Samkeppniseftirlitinu að rannsókn þess geta fyrirtækin komist hjá sektum eða sektargreiðslur þeirra orðið mun lægri en ella.
Á það skal bent að samkvæmt samkeppnislögum geta sektir á fyrirtæki vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum numið allt að 10% af ársveltu fyrirtækjanna. Reglur sambærilegar þeim sem hér hafa verið settar eru í gildi í Bandaríkjunum, hjá Evrópusambandinu og víðar. Reynslan erlendis er sú að reglurnar hafa leitt til uppljóstrunar á ólöglegu samráði og auðveldað til muna rannsókn mála.
Með vísan til þess er talið að hagur samfélagsins af því að upplýsa ólögmætt samráð fyrirtækja vegi þyngra en þær sektir sem falla niður við það að fyrirtæki ganga til samstarfs við samkeppnisyfirvöld um að upplýsa slíka háttsemi.
Reglur um niðurfellingu eða lækkun sekta gilda eingöngu um brot er varða ólögmætt samráð. Fyrirtæki sem er þátttakandi í ólögmætu samráði eða ólögmætum samstilltum aðgerðum getur fengið sektir, sem ella hefðu verið á það lagðar, felldar niður eða lækkaðar. Í þessu samhengi skiptir öllu máli að viðkomandi fyrirtæki sé fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því að ólögmætt samráð eigi sér stað eða fyrst til þess að afhenda gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slíkt samráð.
Samkvæmt samkeppnislögum getur Samkeppniseftirlitið einnig ákveðið að kæra ekki til lögreglu brot starfsmanna og stjórnenda fyrirtækja sem hafa frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota á banni við samráði fyrirtækja eða hagsmunasamtaka þeirra. Reglur um lækkun og niðurfellingu sekta eru nú í endurskoðun með hliðsjón af fenginni reynslu og breytingum sem hafa átt sér stað í regluverki hér á landi og á evrópska efnahagssvæðinu.
Aðalatriði reglnanna
Samkvæmt reglunum mun Samkeppniseftirlitið fella niður sekt á fyrirtæki sem annars hefði verið sektað:
- ef fyrirtæki er fyrst fyrirtækja til að láta samkeppnisyfirvöldum í té sönnunargögn sem að þeirra mati geta leitt til rannsóknar á meintu ólögmætu samráði
- ef fyrirtæki er fyrst fyrirtækja til að láta samkeppnisyfirvöldum í té sönnunargögn sem að þeirra mati gerir þeim kleift að sanna hið ólögmæta samráð
Til að fá sekt fellda niður verður fyrirtæki einnig að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- það verður að sýna fullan samstarfsvilja á meðan á rannsókn málsins stendur og láta samkeppnisyfirvöldum í té öll sönnunargögn og allar þær upplýsingar sem það býr yfir í tengslum við hið meinta brot á meðan á rannsókn málsins stendur
- það verður að hætta þátttöku sinni í hinu meinta broti eigi síðar en þegar það kemur upp um hið ólögmæta samráð
- það má ekki hafa þvingað önnur fyrirtæki til þátttöku í hinu ólögmæta samráði
Þó að fyrirtæki uppfylli ekki skilyrðin til að fá sekt fellda niður getur það engu að síður uppfyllt skilyrði til að fá fjárhæð sektar lækkaða í máli sem varðar ólögmætt samráð fyrirtækja.
Til þess að fá sekt lækkaða verður fyrirtæki að láta Samkeppniseftirlitinu í té sönnunargögn sem að mati stofnunarinnar eru mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem stofnunin hefur þegar undir höndum. Þá verður fyrirtækið einnig að hætta þátttöku sinni í hinu meinta ólögmæta samráði.
Þegar metið er hversu mikla lækkun á sektarfjárhæðinni fyrirtæki hlýtur er tekið tillit til þess á hvaða tímapunkti fyrirtækið lagði fram sönnunargögnin og hversu mikla þýðingu þau hafi haft fyrir rannsókn málsins. Einnig hefur Samkeppniseftirlitið hliðsjón af samstarfsvilja fyrirtækisins eftir að það lagði fram sönnunargögnin. Uppfylli fyrirtæki skilyrðin fyrir lækkun sektar mun sektin lækka með eftirfarandi hætti:
- fyrsta fyrirtækið sem uppfyllir skilyrðin fyrir lækkun sektar getur fengið sektarupphæðina lækkaða um 30 til 50%
- annað fyrirtækið sem uppfyllir skilyrðin fyrir lækkun sektar getur fengið sektarupphæðina lækkaða um 20 til 30%
- önnur fyrirtæki sem á eftir koma og uppfylla skilyrðin fyrir lækkun sektar geta fengið allt að 20% lækkun á sektarupphæðinni
Þegar Samkeppniseftirlitið hefur staðreynt að fyrirtæki uppfylli skilyrðin fyrir niðurfellingu sektar tilkynnir stofnunin fyrirtækinu það skriflega. Jafnframt mun fyrirtæki sem óskar eftir lækkun sektarfjárhæðar og uppfyllir öll skilyrði vera skýrt frá því skriflega að til standi að lækka fjárhæð sektar sem hugsanlega verði lögð á fyrirtækið.
Fyrirtæki sem óskar eftir niðurfellingu á sekt eða lækkun á sektarfjárhæð skal óska eftir því við Samkeppniseftirlitið.
Undantekning frá banni við samráði fyrirtækja
Þann 1. janúar 2021 tóku gildi grundvallarbreytingar á 15. gr. samkeppnislaga og verklagi í tengslum við undantekningar frá bannreglum 10. og 12. gr. laganna en mælt var um þessar breytingar í lögum nr. 103/2020 um breytingar á samkeppnislögum.
Í stað fyrirkomulags þar sem undanþága er háð fyrirfram samþykki Samkeppniseftirlitsins hefur nú verið tekið upp svonefnt sjálfsmatskerfi. Þetta þýðir að nú þurfa fyrirtæki sem hyggja á samstarf að meta sjálf hvort slíkt samstarf standist samkeppnislög. Sömuleiðis þurfa samtök fyrirtækja að meta hvort starfsemi þeirra uppfylli kröfur samkeppnislaga. Heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að veita fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja undanþágur frá banni við ólögmætu samráði og samkeppnishömlum er því niður fallin.
Samkeppniseftirlitið hefur samhliða þessum breytingum birt leiðbeiningar um beitingu 15. gr. samkeppnislaga. Þar er fjallað um þau kjarnaatriði sem hafa þarf til hliðsjónar við mat fyrirtækja á því hvort samkeppnishamlandi samstarf þeirra uppfylli skilyrði 15. gr. laganna. Eru þær liður í því að auðvelda fyrirtækjum að fara að lögum.
Aðrar leiðbeiningar frá ESA
Leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins taka mið af sambærilegum leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út af Eftirlitsstofnun EFTA („ESA“) um sjálfsmat fyrirtækja og um beitingu samkeppnisreglna gagnvart láréttu og lóðréttu samstarfi fyrirtækja. Leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins gilda þessum leiðbeiningum ESA til fyllingar:
- Leiðbeinandi reglur um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum (2013)
- Leiðbeinandi reglur ESA um lóðréttar hömlur (2012)
- Leiðbeiningar um beitingu 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins (2007)
Fordæmisgildi eldri undanþáguákvarðana
Við gerð leiðbeininganna var horft til úrlausna úr íslenskri og evrópskri réttarframkvæmd. Fyrirtæki geta, upp að vissu marki, haft hliðsjón af eldri ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum úrlausnum áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómstóla við mat á því hvort samstarf uppfylli skilyrði 15. gr. samkeppnislaga. Þó ber að huga að því að það getur haft áhrif á leiðbeiningargildi eldri ákvarðana, að þær voru teknar í öðru lagaumhverfi en því sem tók gildi 1. janúar 2021. Þannig geta eldri ákvarðanir haft takmarkað leiðbeiningargildi í sjálfsmatskerfi, að því er varðar sönnunarkröfur. Um þetta er fjallað í leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins, sbr. mgr. 59-61 og mgr. 94.
Undanþágur veittar á grundvelli eldra ákvæðis – Svigrúm veitt til 1. júlí 2021
Þær breytingar sem tóku gildi á 15. gr. samkeppnislaga þann 1. janúar sl. leiddu til þess að þær undanþágur sem veittar höfðu verið af Samkeppniseftirlitinu á grundvelli eldra ákvæðis hafa ekki sömu áhrif og áður.
Með gildistöku sjálfsmatskerfis felst hlutverk Samkeppniseftirlitsins einvörðungu í því að hafa “ex post“ eftirlit með því að samráðsbann samkeppnislaga sé ekki brotið. Af þessu leiðir einnig að eftir 1. janúar 2021 hefur lagagrundvöll skort fyrir undanþágum sem áður höfðu verið veittar með ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Eftir 1. janúar 2021 bar viðkomandi aðilum sem nutu undanþágu skv. hinu eldra kerfi því að taka upp sjálfsmat í samræmi við lög nr. 103/2020.
Samkeppniseftirlitið taldi aftur á móti málefnalegt að veita fyrirtækjum sem hlotið höfðu undanþágu sem féll úr gildi um áramótin svigrúm til að axla ábyrgð sína í nýju lagaumhverfi. Var því litið svo á að samstarf sem undanþága hafði verið veitt fyrir uppfyllti undantekningarskilyrði 15. gr. samkeppnislaga, án frekari athugunar, til 1. júlí 2021. Sá frestur er nú liðinn.
Mikil þýðing varðandi sönnun
Samkeppniseftirlitið mælist til þess að fyrirtæki taki sér þegar í stað þá ábyrgð á hendur sem felst í lagabreytingum, þ.e. að leggja sjálft mat á hvort skilyrði fyrir undantekningu frá 10. og 12. gr. samkeppnislaga séu uppfyllt fyrir viðkomandi samstarfi. Skal það áréttað að í kjölfar lagabreytinganna getur Samkeppniseftirlitið ekki veitt fyrirtækjum bindandi álit á því fyrir fram hvort tiltekin háttsemi uppfylli lögbundin skilyrði.
Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því að þessi breyting á verklagi og ábyrgð fyrirtækja og samtaka fyrirtækja hefur mikla þýðingu varðandi sönnun. Sönnunarbyrði fyrir því að sjálfsmat fyrirtækja hafi verið fullnægjandi og skilyrði 15. gr. laganna séu uppfyllt, mun hvíla á viðkomandi fyrirtækjum. Fyrirtæki verða að geta sýnt fram á að samstarfið hafi þegar frá upphafi, og allan tímann sem það hefur verið fyrir hendi, uppfyllt öll skilyrði 15. gr. samkeppnislaga og ber þeim að gera það á grundvelli skriflegra sönnunargagna, sbr. nánari umfjöllun í leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins um beitingu 15. gr.. Hlutverk Samkeppniseftirlitsins verður þá eingöngu að meta hvort samstarfsaðilum hafi tekist sönnun um framangreint, komi það til rannsóknar.
Það er því mikilvægt að hafa það hugfast að undanþágur sem Samkeppniseftirlitið veitti á grundvelli eldra ákvæðis 15. gr. samkeppnislaga geta ekki leyst viðkomandi fyrirtæki undan því að meta sjálf hvort skilyrðum 15. gr. sé fullnægt, jafnvel þótt um sé að ræða áframhaldandi og yfirstandandi samstarf sem eftirlitið hefur áður lagt mat á í tíð eldri 15. gr. samkeppnislaga. Sérstaklega þarf að huga að því hvort Samkeppniseftirlitið hafi sett veitingu á undanþágu tiltekin skilyrði sem miðuðu að því að breyta viðkomandi samstarfi eða umgjörð þess til þess að tryggja að það félli undir 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga. Samstarfsfyrirtæki geta ekki gefið sér að samskonar skilyrði og Samkeppniseftirlitið setti í eldra kerfi geti tryggt að samstarf uppfylli skilyrði 15. gr. samkeppnislaga eftir 1. janúar 2021. Verða samstarfsfyrirtæki í sjálfsmatskerfi að leggja á það mat miðað við aðstæður hverju sinni hvort breytingar á umgjörð samstarfsins geri það að verkum að það geti notið undantekningar frá banni 10. og 12. gr. samkeppnislaga.
Algengar spurningar
Árið 2007 var refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum afmörkuð nánar en áður gilti. Með breytingunum var refsiábyrgð einstaklinga gerð skýrari og nánar fjallað um verkaskiptinu og samvinnu samkeppnisyfirvalda og lögreglu við rannsókn brota gegn samkeppnislögum.
Refsiábyrgð einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum er afmörkuð við brot sem fela í sér ólögmætt samráð en þau eru talin alvarlegustu samkeppnislagabrotin. Ástæða þess er sú að í málum þar sem grunur leikur á samráði eru miklir hagsmunir í húfi fyrir neytendur og atvinnulífið enda getur ólögmætt samráð fyrirtækja haft í för með sér verulegan efnahagslega skaða. Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum getur einstaklingur, þ.e. starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sætt sektum eða fangelsi allt að sex árum. Nánar tiltekið tekur refsiábyrgðin til samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör, samráðs um skiptingu á mörkuðum og takmörkun á framleiðslu, samráðs um gerð tilboða, samráðs um að eiga ekki viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða neytendur og svo til upplýsingagjafar um þessi tilteknu atriði. Þá heyrir hér einnig undir samráð fyrirtækja sem hefur það að markmiði að fyrirtækin keppi ekki sín á milli.
Misnotkun á markaðsráðandi stöðu getur ekki varðað einstaklingum refsingu með sama hætti. Um þetta sagði í greinargerð með frumvarpi:
Það er staðreynd að misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sbr. 11. gr. samkeppnislaga, getur haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir samfélagið og að því standa rök til þess að misnotkun á markaðsráðandi stöðu geti varðað refsingu með sama hætti og ólögmætt samráð. Hins vegar er það talið geta valdið vandkvæðum við beitingu slíks refsiákvæðis að framkvæma getur þurft flókna hagfræðilega greiningu til að komast að raun um hvort viðkomandi fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Þá kann í undantekningatilvikum að vera vandasamt fyrir fyrirtæki að gera sér grein fyrir því hvort það hafi markaðráðandi stöðu í skilningi 11. gr. samkeppnislaga. Jafnframt ber að hafa í huga að í 11. gr. laganna er lagt bann við hegðun sem getur verið eðlileg og jafnvel samkeppnishvetjandi ef um er að tefla fyrirtæki sem ekki er í markaðsráðandi stöðu. Á grundvelli þessa þykir ekki ástæða til þess að leggja refsingu við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Er niðurstaðan í samræmi við samkeppnisrétt flestra vestrænna ríkja sem mæla fyrir um refsingar við samkeppnisbrotum, t.d. Bretland, Noreg og Bandaríkin.
Samkeppnislagabrot einstaklinga sæta einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Samkeppniseftirlitið metur í hvert sinn með tilliti til grófleika brots hvort kæra skuli mál til lögreglu. Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið gæti samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Þá er rétt að taka það fram að Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann eða fyrirtækið sem hann starfar hjá haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna samráðsbrota sem geta leitt til sönnunar á brotunum eða teljast mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar í höndunum.
Samkeppniseftirlitinu er heimilt að afhenda lögregluyfirvöldum gögn og upplýsingar sem aflað hefur verið og tengjast umræddum brotum sem til rannsóknar eru. Á sama hátt getur lögreglan afhent Samkeppniseftirlitinu gögn og upplýsingar sem máli skipta. Þá er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsóknina og lögreglu er jafnframt heimilt að taka þátt í aðgerðum samkeppnisyfirvalda.
Já. Það er mögulegt að teljast aðili að ólögmætu samráði þrátt fyrir að aðrir sjái um framkvæmdahlið þess og einnig er mögulegt að vera aðili að samráði þar sem enginn framkvæmir nokkuð, þ.e. samráð um athafnaleysi. Bann samkeppnislaga við ólögmætu samráði felur ekki eingöngu í sér bann við beinum aðgerðum, heldur líka samningum um aðgerðir eða athafnaleysi.
Í þessu svari er best að koma með dæmi:
Fulltrúar þriggja fyrirtækja sitja á fundi. Fulltrúar tveggja fyrirtækja hafa sig í frammi og ræða að koma á fót ólögmætu samráði meðal allra þriggja fyrirtækjanna. Samráðið er útfært og því komið af stað, án beinnar þátttöku þriðja fulltrúans. Samt sem áður yrði hann talinn aðili að samráðinu því hann var viðstaddur þann fund sem samráðinu var komið á og það útfært og var þannig fullkunnugt um það.
Til þess að teljast ekki aðili að samráðinu hefði þriðji fulltrúinn þurft að koma því mjög skýrlega á framfæri að hann myndi ekki taka þátt í samráðinu. Jafnvel með því að taka vatnsglasið sitt og skvetta úr því til þess að vekja athygli á máli sínu.
Í 12. gr. samkeppnislaga segir að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Í lögskýringargögnum kemur fram að í ákvæðinu sé hnykkt á því að jafnt samtökum fyrirtækja sem fyrirtækjunum sjálfum sé óheimilt að standa að eða hvetja til hindrana sem brjóta í bága við bannákvæði laganna. Ljóst er samkvæmt þessu að brot á 12. gr. felur í sér sjálfstætt brot á samkeppnislögum enda þótt efnisinntak ákvæðisins komi að nokkru leyti fram í öðrum ákvæðum samkeppnislaga, s.s. 10. gr.
Með ákvörðun samtaka fyrirtækja í skilningi samkeppnisréttarins er átt við hvers konar bindandi eða leiðbeinandi ákvarðanir eða tilmæli sem samtökin beina til aðildarfyrirtækja þannig að þau geti haft áhrif á viðskiptahætti félagsmanna. Engar formkröfur gilda um þessar ákvarðanir samtaka fyrirtækja. Notkun hugtaksins hvatning í 12. gr. samkeppnislaga gefur til kynna að löggjafinn hafi viljað leggja sérstaka áherslu á að ákvæðið taki til hvers konar ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ekki eru bindandi sem hafa það að markmiði að raska samkeppni. Hugtakið hvatning í 12. gr. samkeppnislaga nær þannig til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti. Það leiðir af orðlagi ákvæðisins að slík hvatning getur verið í hvaða formi sem er. Af þessu leiðir að margvíslegar aðgerðir samtaka fyrirtækja, s.s. tilmæli, ráðleggingar eða upplýsingagjöf, geta fallið undir 12. gr. samkeppnislaga ef þessar aðgerðir hafa það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða henni raskað.
Þá þarf jafnframt að hafa í huga að á vettvangi samtaka fyrirtækja skapast hætta á upplýsingaskiptum sem kunna að brjóta í bága við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga jafnvel þótt sú sé ekki ætlunin. Ákævði 10. gr. samkeppnislaga leggur blátt bann við öllu samráði keppinauta sem og samstilltum aðgerðum þeirra á milli. Í því felst að allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskipaleg atriði er bannað. Undir samráð getur fallið hvers konar samskipti milli starfsmanna keppinauta, hvort heldur sem samskiptin eru einhliða eða af beggja hálfu.
Fjárhæð sekta fer eftir eðli og umfangi brots, hversu lengi brotið hefur staðið yfir og hvort um ítrekuð brot er að ræða. Fleiri þættir geta komið til skoðunar, t.d. stærð brotlegs fyrirtækis, huglæg afstaða stjórnenda og hagnaðarsjónarmið. Sektir geta numið allt að 10% af ársveltu brotlegs fyrirtækis. Hafa ber í huga að samtök fyrirtækja eru einnig sektuð fyrir samkeppnislagabrot. Í tilvikum samtaka fer um sektarákvörðun eftir veltu samtakanna sjálfra eða veltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til.
Hvergi er að finna skilyrði þess efnis að fyrirtæki verði að vera rekið með hagnaði til þess að sektir verði lagðar á vegna samkeppnislagabrots. Það er þó ljóst að ákvörðun sekta tekur mið af hverju tilviki fyrir sig sem og því markmiði stjórnvaldssekta sem er almennt að hafa varnaðaráhrif. Í tilviki samkeppnisréttar skulu sektir þannig stuðla að framkvæmd samkeppnislaga og þar með aukinni samkeppni. Eins og greinir í samkeppnislögum má falla frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða ef, af öðrum ástæðum, ekki er talin þörf á sektum til að stuðla að og efla virka samkeppni.
Það hvort fyrirtæki eru rekin með hagnaði eða ekki hefur eitt og sér ekki úrslitaáhrif þegar kemur að því að meta hvort og hversu mikið sekta eigi brotlegt fyrirtæki.
Reglur um niðurfellingu eða lækkun sekta gilda eingöngu um brot er varða ólögmætt samráð. Fyrirtæki sem er þátttakandi í ólögmætu samráði eða ólögmætum samstilltum aðgerðum getur fengið sektir, sem ella hefðu verið á það lagðar, felldar niður eða lækkaðar. Til þess að eiga möguleika á niðurfellingu sekta í heild þarf fyrirtæki annað hvort að vera fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á ólögmætu samráði og leggja fram gögn sem leiða til þess að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á umræddu samkeppnislagabroti hefjist eða vera fyrst til þess að leggja Samkeppniseftirlitinu að eigin frumkvæði í té gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slík brot. Fyrirtæki á þess ekki kost að fá sektir niðurfelldar að öllu leyti nema það sýni fullan samstarfsvilja og afhendi öll gögn og upplýsingar sem það býr yfir og varða viðkomandi samkeppnislagabrot. Jafnframt þarf viðkomandi fyrirtæki að hætta þátttöku í brotastarfseminni og má auk þess ekki hafa þvingað önnur fyrirtæki til þátttöku í hinu ólögmæta samráði.
Í þessu samhengi skiptir öllu máli að viðkomandi fyrirtæki sé fyrst að borðinu, það er að segja fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því að ólögmætt samráð eigi sér stað eða fyrst til þess að afhenda gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slíkt samráð. Sektir verða ekki felldar niður í heild nema Samkeppniseftirlitið hafi ekki áður haft fullnægjandi sönnunargögn til að hefja rannsókn eða til að sanna brot.
Að öðru leyti en að ofan er rakið getur fyrirtæki fengið sektir lækkaðar leggi það fram sönnunargögn sem teljast mikilvæg viðbót við þau gögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar undir höndum. Það er kappsmál fyrir fyrirtæki að vera fyrst til að leggja fram gögn sem eru mikilvæg viðbót því það fyrirtæki sem er fyrst til þess fær hlutfallslega mestu lækkunina. Komi fleiri fyrirtæki síðar og afhenda Samkeppniseftirlitinu gögn sem falla undir það að vera mikilvæg viðbót er hlutfallsleg lækkun sem þau geta fengið á sekt lægri en þess fyrirtækis sem á undan kom. Það fyrirtæki sem kemur næst fær minni lækkun en það sem kom fyrst og svo koll af kolli.
Við mat á því hvaða gögn teljast mikilvæg viðbót er litið til þess að hver miklu leyti gögnin hjálpa við að upplýsa staðreyndir málsins að teknu tilliti til eðlis gagnanna og nákvæmni þeirra. Almennt hafa skrifleg gögn sem stafa frá þeim tíma sem brotastarfsemin fer fram ríkari gildi en gögn sem koma síðar til. Einnig hafa bein sönnunargögn meiri þýðingu en óbein gögn.
Reglur Samkeppniseftirlitsins um niðurfellingu og lækkun sekta eru númer 890/2005 og hægt að nálgast hér.
Eitt af grundvallaratriðum samkeppnislaganna er bann við verðsamráði fyrirtækja. Ólögmætt verðsamráð er fyrir hendi þegar fyrirtæki gera með sér samning eða þau með samstilltum aðgerðum fylgja sameiginlegri áætlun sem takmarkar eða er líkleg til að takmarka sjálfstæða hegðun þeirra á markaðnum. Í þessu felst því að fyrirtæki eiga að ákveða sjálfstætt, hvert fyrir sig, hvernig þau ætla að hegða sér á markaði. Þessi krafa um sjálfstæði bannar þó ekki að fyrirtæki grípi til aðgerða vegna hegðunar keppinauta sinna á markaðnum. Hún bannar hins vegar hvers konar samskipti milli keppinauta, bein eða óbein, sem hafa eða geta haft þau áhrif á hegðun keppinauta á markaðnum að draga úr samkeppni á milli þeirra eða raska henni. Fyrirtæki gerast t.d. sek um ólögmætt samráð ef þau á fundi, í símtali, í bréfi, í tölvupósti eða með öðrum hætti eiga viðræður eða skiptast á eða taka við upplýsingum um atriði sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun um verð. Það eitt að keppinautar á markaði verðleggi vörur sínar með svipuðum eða sama hætti og elti hver annan í verðbreytingum er því ekki eitt og sér nægilegt til að sýna fram á að um ólögmætt verðsamráð sé að ræða.
Það er samkvæmt framansögðu skilyrði fyrir því, að um ólögmætt verðsamráð sé að ræða, að fyrirtækin sem um ræðir hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti. Það kann vissulega að vera erfitt í einstökum tilvikum að greina annars vegar á milli samstilltra aðgerða fyrirtækja, sem þau taka meðvitað þátt í til þess að takmarka samkeppni, og hins vegar þess, þegar fyrirtæki haga sér eins eða líkt á markaði vegna samkeppninnar. Sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna fákeppnismarkað en fyrirtæki á t.d. gagnsæjum fákeppnismarkaði hafa sífellt í huga hver viðbrögð keppinautanna á markaðnum verða við tiltekinni aðgerð á markaði t.d. verðlækkun. Yfirleitt á þó athugun á markaðnum og markaðsaðstæðum að geta leitt í ljós hvort um samstilltar aðgerðir sé að ræða. Undir vissum kringumstæðum getur samskonar hegðun keppinauta á markaði falið í sér vísbendingar um ólögmætt samráð.
Í stuttu máli er svarið já, allt samráð fyrirtækja sem truflar samkeppni er bannað. Það er meginregla í samkeppnisrétti að fyrirtæki á samkeppnismörkuðum skuli haga sér sjálfstætt um öll þau atriði sem samkeppni er um. Þar má t.d. nefna ákvarðanir um vöruúrval, þjónustuleiðir og verð.
Það skiptir ekki máli hvernig samráðið á sér stað, þ.e. hvort fulltrúar fyrirtækja hittist á fundum, skrifist á, undirriti formlega samninga eða sammælist um markaðshegðun á einhvern annan hátt. Engu máli skiptir heldur hvort þessir samningar eða samskipti séu bindandi eða aðeins leiðbeinandi. Það sem skiptir máli við mat á því hvort um ólögmætt samráð sé að ræða er hvort markmið eða afleiðingar háttseminnar eru takmörkun eða röskun á samkeppni.
Samtökum fyrirtækja, stjórnarmönnum slíkra samtaka, starfsmönnum þeirra og mönnum sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna er einnig bannað að taka þátt í samráði.
Það er þó viðurkennt í samkeppnisrétti að samráð milli fyrirtækja sem hafa litla hlutdeild á markaði hafi minni háttar áhrif á samkeppnismarkað og efli jafnvel samkeppnisstöðu lítilla fyrirtækja gagnvart stærri keppinautum. Þess vegna er í samkeppnislögum sk. „minniháttarregla“ sem felur í sér að láréttir samningar (þ.e. samningar milli fyrirtækja sem starfa á sama framleiðslu- eða sölustigi, t.d. samningar milli smásala einungis) falla ekki undir bann við samráði fari markaðshlutdeild allra samstarfsfyrirtækja ekki yfir 5% á neinum markaði sem máli skiptir. Þegar um lóðrétta samninga er að ræða (þ.e. samningar milli fyrirtækja sem starfa á mismunandi framleiðslu- eða sölustigi, t.d. samningar milli heildsala og smásala) er miðað við að fyrirtæki með allt að 10% markaðshlutdeild geti haft samráð án þess að brjóta samkeppnislög.
Einnig er það viðurkennt í samkeppnisrétti að stundum geti samráð fyrirtækja haft jákvæðar afleiðingar, til að mynda ef það stuðlar að aukinni hagræðingu, skilvirkni eða eflir tæknilegar framfarir og/eða bætta framleiðslu á vöru. Til þess að slíkt samstarf sé heimilt þurfa jákvæð áhrif þess að vega þyngra en þau neikvæðu. Viðkomandi samstarfsfyrirtækjum ber í slíkum tilvikum að leggja mat á hvort samstarfið uppfylli skilyrði 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga til að vera undanskilið banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði. Samkeppniseftirlitið hefur gefið út leiðbeiningar sem er ætlað að aðstoða fyrirtæki við þetta mat. Einnig geta svokallaðar hópundanþágur átt við.
Í samkeppnislögum er lagt bann við hverskonar samkeppnishamlandi samstarfi á milli tveggja eða fleiri fyrirtækja. Samráð á milli keppinauta telst vera eitt alvarlegasta brotið í samkeppnisrétti enda er ætlast til þess að keppinautar hegði sér að öllu leyti sjálfsætt á markaði.
Ólögmætt samráð á milli fyrirtækja getur bæði verið lóðrétt þ.e. samráð á milli fyrirtækja á sitthvoru sölustiginu t.d. á milli heildsölu og smásala, eða lárétt sem felst í ólögmætu samstarfi fyrirtækja á sama sölustigi t.d. milli tveggja smásala. Sem dæmi um helstu tegundir ólögmæts samráðs má nefna:
- Verðsamráð sem getur m.a. falist í samkomulagi um að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þetta á ekki einungis við um endanlegt kaup- eða söluverð heldur getur einnig átt við um samkomulag um t.d. lágmarksverð og viðmiðunarverð.
- Markaðsskipting sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að skipta með sér mörkuðum eftir t.d. viðskiptavinum, vörutegundum eða landssvæðum.
- Takmörkun á framleiðslu/framboði sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að framleiða/selja einungis ákveðið magn af vöru með það að markmiði að hækka verð vörunnar.
- Samráð um gerð tilboða sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að taka ekki þátt í tilteknu útboði, þeir ákveði að skila tilboði með sömu verðum eða þeir ákveði sín á milli hver eigi að fá viðskiptin samkvæmt útboðinu.
- Upplýsingaskipti milli keppinauta sem geta t.d. falist í að keppinautar sendi sín á milli upplýsingar sem eru til þess fallnar að hafa eða geta haft áhrif á hegðun þeirra á markaðnum og dregið þannig úr óvissu um hvernig keppinauturinn ætlar að hegða sér á markaðnum.
- Aðgerðir sem hindra aðgengi nýrra keppinauta inn á markaðinn.
Þær tegundir samráðs sem taldar hafa verið upp hér að framan eiga það sameiginlegt að hafa það að meginmarkmiði að hækka verð á vöru og þjónustu neytendum til tjóns. Samráð fyrirtækja geta því haft mjög skaðleg áhrif á samkeppni og rýrt kjör almennings.
Samkeppniseftirlitið hefur tekið fjölmargar ákvarðanir þar sem fyrirtæki hafa verið sektuð fyrir að taka þátt í ólögmætu samráði en Samkeppniseftirlitið getur lagt háár sektir á fyrirtæki sem taka þátt í slíkum brotum og geta sektirnar numið allt að 10% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu. Auk þess geta stjórnendur fyrirtækja sem taka þátt í ólögmætu samráði átt á hættu allt að sex ára fangelsisvist.
Eins og mörgum er kunnugt er hvers konar samkeppnishamlandi samstarf milli fyrirtækja bannað samkvæmt samkeppnislögum. Oft er í þessu sambandi talað um ólögmætt samráð keppinauta. Getur verið um að ræða ólögmætt samráð um t.d. verð á vöru eða þjónustu, gerð tilboða þegar innkaup eða verkefni eru boðin út og að fyrirtæki skipti með sér mörkuðum. Samkeppnishamlandi ólögmætt samráð er alvarlegasta brot á samkeppnislögum og eru öll samráðsmál því í eðli sínu mikilvæg að mati Samkeppniseftirlitsins.
Þrátt fyrir það eru vitaskuld sum mál mikilvægari en önnur. Sennilega má telja sk. olíumál eða olíusamráð einna mikilvægast og umfangsmest allra þeirra samráðsmála sem samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa upplýst, sjá ákvörðun. nr. 21/2004 Ólögmætt samráð Kers hf. (áður Olíufélagið hf.), Olíuverslunar Íslands hf., Skeljungs hf. og Bensínorkunnar ehf. Í því fólst m.a. samráð um verð, álagningu, gerð tilboða og markaðsskiptingu. Annað mikilvægt samráðsmál er uppræting á ólögmætu samráði fyrirtækja á grænmetismarkaði, sjá ákvörðun nr. 13/2001, sem m.a. fólst í verðsamráði og markaðsskiptingu dreifingarfyrirtækja. Þá má nefna mjög alvarlegt samráð fyrirtækja á greiðslukortamarkaðnum, sjá ákvörðun nr. 4/2008. Loks skal bent á nýlegt mál þar sem fyrirtækin Tæknivörur og Hátækni höfðu með sér ólögmætt samráð á heildsölumarkaði fyrir farsíma, ákvörðun nr. 7/2013.