2.7.2007

Álit Samkeppniseftirlitsins - Samkeppnisaðstæður á leigubifreiðamarkaðnum

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu haft til umfjöllunar nokkur mál sem varða samkeppnisaðstæður á leigubifreiðamarkaðnum.
 
Einu málinu lauk með því að Samkeppniseftirlitið birti samgönguráðherra, af gefnu tilefni, álit nr. 2/2007 vegna samkeppnishindrandi ákvæða í lögum og reglum um leigubifreiðar. Er því beint til ráðherra að hann beiti sér fyrir því að hinum samkeppnishamlandi lögum og reglugerðum verði breytt þannig að samkeppni fái þrifist á leigubifreiðamarkaðnum til hagsbóta fyrir almenning.

Jafnframt því að beina áliti til samgönguráðherra hefur Samkeppniseftirlitið tekið þrjár ákvarðanir sem varða leigubifreiðar og rekstur þeirra. Í ákvörðun nr. 28/2007 kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að hópur leigubifreiðastjóra sem störfuðu á leigubifreiðastöðvunum BSH í Hafnarfirði og Aðalbílum í Reykjanesbæ hafi haft með sér ólögmætt samráð er þeir sammæltust um að segja upp samningum sínum við bifreiðastöðvarnar. Ákvarðanir nr. 33/2007 og 34/2007 fjalla um undanþágur til eins árs til handa leigubifreiðastöðvunum Hreyfli annars vegar og BSR hins vegar að gefa út hámarksökutaxta fyrir hvora stöð fyrir sig. Álit nr. 2/2007.