13.10.2015

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna Lýsis hf. og Akraborgar ehf.

Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar samruna Lýsis hf. og Akraborgar ehf. Lýsi er fyrirtæki sem framleiðir lýsi og aðrar afurðir úr sjávarafla. Akraborg er fyrirtæki sem framleiðir einkum þorsklifur sem niðursoðin er í neytendaumbúðir. Bæði fyrirtækin nýta fisklifur í framleiðslu sína og var markaðurinn fyrir öflun hráefnis sá markaður sem einkum kom til skoðunar í málinu. Í kjölfar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum samrunans var það niðurstaða eftirlitsins að hann leiddi ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu eða að hann raskaði samkeppni að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Nánar er hægt að kynna sér niðurstöðu málsins í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 28/2015, Samruni Lýsis hf. og Akraborgar ehf.