Símenntunarstefna Samkeppniseftirlitsins

Samkeppniseftirlitið telur mikilvægt að starfsfólk þess búi yfir góðri þekkingu og reynslu sem nýtist í starfi. Menntun er auðlind og öflun þekkingar er fjárfesting til framtíðar sem eykur bæði hag starfsfólks og Samkeppniseftirlitsins. Vegna  síbreytilegs samkeppnisumhverfis og framþróunar samkeppnisréttar er nauðsynlegt að starfsfólk viðhaldi og auki við þekkingu sína. Slíkt eykur hæfni starfsfólks til að gegna störfum sínum og eykur starfsánægju. Frumkvæði starfsmanna og metnaður í fræðslu er lykill að árangri. 

Til að stuðla að ofangreindu setur Samkeppniseftirlitið sér símenntunarstefnu sem felst m.a. í því að starfsfólk er hvatt til að viðhalda fagþekkingu sinni með símenntun og afla sér viðbótarþekkingar sem nýtist sem best í starfi.

Starfsfólki bjóðast margvíslegar leiðir til símenntunar og öflunar viðbótarþekkingar. Þær geta m.a. verið fólgnar í því að sækja námskeið og fyrirlestra á sviði samkeppnisréttar auk þátttöku á ráðstefnum og alþjóðlegum vinnuhópum. Þá getur starfsmönnum Samkeppniseftirlitsins staðið til boða tímabundið leyfi til m.a. framhaldsnám og vistaskipti hjá systurstofnunum erlendis. Samkeppniseftirlitið mun tryggja að það búi yfir öflugum bókakosti um samkeppnismál og úrvali af tengdum fræðigreinum auk þess sem eftirlitið er áskrifandi að tímaritum og fræðsluritum á sviði samkeppnisréttar.

Sérstök þriggja manna nefnd, fræðslunefnd, hefur í samráði við forstjóra umsjón með framkvæmd  símenntunarstefnu Samkeppniseftirlitsins. Nefndin er skipuð af forstjóra eftirlitsins.

Nánari skýringar á leiðum til símenntunar:

 1. Bækur og fræðirit
  Samkeppniseftirlitið leggur mikla áherslu á að búa yfir öflugum bókakosti á sviði samkeppnismála og samkeppnisréttar. Tryggja skal að í bókasafni eftirlitsins sé ávallt að finna nýjustu fræðirit og tímarit á þessu sviði. Einnig skal starfsmönnum tryggður aðgangur að rafrænum gagnasöfnum eftir því sem þarf. Starfsmenn skulu, hver á sínu sviði, fylgjast með og hafa frumkvæði að því að viðhalda ritkosti Samkeppniseftirlitsins, og koma tillögum þar að lútandi á framfæri við fræðslunefnd.
 2. Námskeið, ráðstefnur og fyrirlestrar
  S
  amkeppniseftirlitið hvetur starfsmenn sína til að fylgjast með þeim námskeiðum, ráðstefnum og fyrirlestrum  (hér eftir nefnt í einu lagi námskeið) sem í boði eru á þeirra sviði bæði hér á landi og erlendis. Einnig mun fræðslunefnd vekja athygli starfsmanna á áhugaverðum námskeiðum af þessum toga.

  Þátttaka á námskeiðum er til þess fallin að viðhalda hæfni og þekkingu starfsmanna. Starfsmenn sem taka þátt í slíkum viðburðum skulu, eins og kostur er, miðla því sem þar kemur fram áfram til annarra starfsmanna eftirlitsins.
  Einnig er gert ráð fyrir því að starfsmenn geti sótt námskeið sem auka víðsýni og starfsgleði starfsmanns enda þótt þau séu ekki í beinum tengslum við starf viðkomandi.
 3. Nám
  Starfsmönnum stendur til boða að stunda nám hér á landi eða erlendis, eftir atvikum fullt nám eða samhliða vinnu. Þátttaka Samkeppniseftirlitsins í námi starfsmanns getur verið fólgin í því að fá leyfi frá störfum, launuðu eða launalausu, og námskostnaður, að fullu eða hluta til greiddur.
 4. Vistaskipti
  Starfsmaður getur óskað eftir að kynna sér og taka þátt í störfum systurstofnana Samkeppniseftirlitsins erlendis eða hjá Eftirlitsstofnun EFTA/framkvæmdastjórn EB. Slík vistaskipti geta verið í allt að 6 mánuði (eða lengur eftir samkomulagi). Samkeppniseftirlitið mun aðstoða starfsmenn við að koma á slíku samstarfi og einnig taka þátt í samskiptum í þessu skyni.
 5. Framkvæmd
  Fræðslunefnd annast kaup á bókum og sér um áskriftir að fræðiritum. Tillögum þar að lútandi skal beint til fræðslunefndar.

Til að stuðla að framgangi símenntunarstefnu setur Samkeppniseftirlitið sér markmið um að verja árlega til símenntunar fjárhæð sem nemur tilteknu hlutfalli af launakostnaði stofnunarinnar. Jafnframt skal setja markmið um að verja til símenntunar tilteknu hlutfalli af heildarvinnutíma sem stofnunin hefur til ráðstöfunar.