Fræðsla og leiðbeining


Samtal um samkeppni

Fundaröð Samkeppniseftirlitsins með atvinnulífi og stjórnvöldum

Undanfarin ár hefur Samkeppniseftirlitið staðið fyrir fundaröð með atvinnulífi og stjórnvöldum um samkeppnismál undir samheitinu „Samtal um samkeppni“. Fundirnir eru umræðuvettvangur þar sem fjallað er um hverju hefur verið áorkað og hver séu brýnustu viðfangsefnin framundan. Með þessu er Samkeppniseftirlitið að leggja við hlustir, þ.e. draga saman sjónarmið og upplýsingar sem að gagni geta komið við forgangsröðun verkefna og mótun áherslna. Um leið er eftirlitið að búa til vettvang til að koma sjónarmiðum á framfæri, sem vonandi gagnast öðrum þátttakendum einnig.

Fundirnir eru með misjöfnu sniði en það ræðst af eðli og efni fundanna. Sumir eru einugis ætlaðir boðsgestum sem tengjast málaflokknum sérstaklega og eru þeir smærri í sniðum en aðrir fundir eru opnir og verða þeir auglýstir sérstaklega hér á vefnum.


Samtal um Samkeppni: Opinn umræðufundur um nýjar samrunareglur

Þann 11. desember sl. hélt Samkeppniseftirlitið opinn umræðufund um drög eftirlitsins að endurskoðuðum reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum. Höfðu drögin áður verið birt til umsagnar á heimasíðu eftirlitsins og áhugasömum verið gefið tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum. Fundarboðið má nálgast hér.

Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað og sóttu um 28 manns fundinn. Sköpuðust þar frjóar umræður þær meginbreytingar sem lagðar eru til í nýju reglunum. Var fundurinn gagnlegur og munu sjónarmið sem þar komu fram nýtast við frágang leiðbeininganna.

Hinar nýju reglur byggja að verulegu leyti á gildandi reglum frá árinu 2008, með síðari breytingum. Þær breytingar sem nú eru gerðar eru einkum af tvennum toga:

  1. Formfestar eru breytingar á verklagi við meðferð samrunamála sem miða að aukinni skilvirkni, en eftirlitið hefur áður leitað samráðs vegna þessa og efnt til fundar í fundarröðinni Samtal um samkeppni þar sem gagnlegar umræður fóru fram um reynsluna.
  2. Reglurnar eru uppfærðar með tilliti til breytinga á samkeppnislögum sem tóku gildi þann 23. júlí á þessu ári.Samtal um Samkeppni: Opinn umræðufundur um drög að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga

Þann 30. nóvember sl. hélt Samkeppniseftirlitið opinn umræðufund um drög eftirlitsins að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga, en drögin höfðu verið birt til umsagnar á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins og áhugasömum gefið tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum. Fundarboðið má nálgast hér.

Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað og sóttu um 25 manns fundinn. Sköpuðust þar góðar umræður um efni leiðbeininganna og þær meginbreytingar sem nýtt ákvæði 15. gr. samkeppnislaga mun hafa í för með sér. Var fundurinn gagnlegur og munu sjónarmið sem þar komu fram nýtast við frágang leiðbeininganna.Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða um verklag við rannsóknir á samrunum

SamtalumsamkeppnisamrunarSamkeppniseftirlitið hefur um þessar mundir til athugunar hvort og þá hvernig gera megi verklag við rannsóknir samrunamála enn skilvirkari. Meðal annars er til skoðunar hvort efni séu til breytinga á reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum, sem eftirlitið setur samkvæmt samkeppnislögum.

Af þessu tilefni efndi Samkeppniseftirlitið í gær (16. október) til fundar með lögmönnum sem komið hafa fram fyrir hönd samrunafyrirtækja gagnvart eftirlitinu frá upphafi árs 2018. Var fundurinn vel sóttur en um milli 40 og 50 manns tóku þátt. Var fundurinn liður í fundarröð sem Samkeppniseftirlitið hefur haldið undanfarin ár undir heitinu Samtal um samkeppni.

Fyrir fundinum lá minnisblað þar sem gefið er yfirlit yfir fjölda samrunamála og aðrar tölulegar upplýsingar um rekstur þeirra. Þá er í minnisblaðinu kallað eftir viðbrögðum um mögulegar breytingar á umgjörð og verklagi samrunarannsókna. Minnisblaðið er aðgengilegt hér.


Tólf fundir um það hvernig stjórnvöld geta eflt íslenskt efnahagslíf með endurbættu regluverki

Dagana 22.-24. febrúar sl. átti Ania Thiemann, einn af stjórnendum samkeppnisdeildar OECD, tólf fundi hér á landi með opinberum stofnunum og hagsmunasamtökum í atvinnulífinu. Á fundunum var rætt um áhrif laga og reglna og annarra stjórnvaldsfyrirmæla á samkeppni og efnahagslíf. Sérstaklega var farið yfir hvernig nýta mætti svokallað samkeppnismat til þess að draga úr samkeppnishindrunum sem stafað geta af þeirri umgjörð sem stjórnvöld búa atvinnulífi.  

Nánar má lesa um fundinn hér.


Eignarhald á atvinnufyrirtækjum – Áskoranir framundan

Samkeppniseftirlitið stóð þann 25. maí fyrir umræðufundi um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverk lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni. Fundurinn var sá fjórði í fundaröð sem eftirlitið rekur undir yfirskriftinni  „Samtal um samkeppni“. Tæplega 80 manns sóttu fundinn og spunnust gagnlegar umræður um málefnið. Til undirbúnings umræðunum setti Samkeppniseftirlitið saman stutt minnisblað.  

Nánar má lesa um fundinn hér.


Beiting samkeppnisreglna

Dr. Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) flutti erindi á opnum fundi Samkeppniseftirlitsins um beitingu samkeppnisreglna á Íslandi og Evrópska efnahagssvæðinu.

Nánar má lesa um fundinn hér.


Áhrif stjórnvalda á samkeppni

Fyrsti fundur í fundarröðinni fór fram 3.12.2015 en þar var Ania Thiemann, hagfræðingur hjá samkeppnisdeild OECD frummælandi. Fundurinn fjallaði um áhrif stjórnvalda á samkeppni.

Nánar má lesa um fundinn hér


Tölum um samkeppni í landbúnaði

Annar fundur fundarraðarinnar var haldinn föstudaginn 12. febrúar undir yfirskriftinni „Tölum um samkeppni í landbúnaði“. Landbúnaðarráðherra, fulltrúum hagsmunaaðila í landbúnaði og verslun og fulltrúum neytenda var boðið til fundarins.

Í pallborði sátu dr. Daði Már Kristófersson stjórnandi fundarins og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra, Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna, Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, Jón Björnsson forstjóri Festis og Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.   

Umræður voru líflegar og komið víða við. Á fundinum lá frammi minnisblað um málefnið sem nálgast má hér


Í brennidepli

Engin grein fannst.