Samrunamál

Samruni í skilningi samkeppnislaga telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum fyrirtækis til frambúðar, svo sem vegna sameiningar tveggja fyrirtækja eða yfirtöku eins fyrirtækis á öðru

Samrunatilkynningar

Hvenær á að tilkynna samruna?

Samrunareglur samkeppnislaga mæla fyrir um að fyrirtæki sem öðlast yfirráð yfir öðru fyrirtæki séu tilkynningarskyld þegar ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Þannig er skylt að tilkynna samruna til Samkeppniseftirlitsins þegar sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 3 milljarðar kr. eða meira á Íslandi og að minnsta kosti tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 300 millj. kr. ársveltu á Íslandi hvert um sig. Samkeppniseftirlitið hefur þó heimild til að krefja samrunaaðila um samrunatilkynningu þrátt fyrir að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt ef sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er meiri en 1,5 milljarður kr. á ári.

Tilkynna skal Samkeppniseftirlitinu um samruna áður en hann kemur til framkvæmda en eftir að samningur um hann er gerður, tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða yfirráða í fyrirtæki er aflað. Samruni sem fellur undir ákvæði samkeppnislaga skal því ekki koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.

Hvað þarf að koma fram í tilkynningu um samruna?

Í samrunatilkynningu skal veita upplýsingar um samrunann, þau fyrirtæki sem honum tengjast, um viðkomandi markaði og um önnur nauðsynleg atriði við athugun á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Í reglum Samkeppniseftirlitsins nr. 1390/2020  um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum eru nánar tilgreindar þær upplýsingar sem fram verða að koma í tilkynningu. Heimild er til styttri tilkynningar ef uppfyllt eru eitt af skilyrðum a til e liðar 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, svo sem ef þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir.

Í viðauka I við framangreindar reglur kemur fram nákvæm skrá yfir þær upplýsingar sem koma skulu fram í tilkynningu um samruna til Samkeppniseftirlitsins. Heimild er til styttri tilkynningar ef uppfyllt eru eitt af skilyrðum a til e liðar 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, svo sem ef þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir. Í slíkum tilvikum þarf ekki að veita jafn víðtækar upplýsingar og þegar um hefðbundna samrunatilkynningu er að ræða og er tæmandi talning þeirra upplýsinga sem skulu fylgja styttri tilkynningu að finna í viðauka II í reglum Samkeppniseftirlitsins nr. 1390/2020 um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum.

Undirritaðri samrunaskrá skal skilað til Samkeppniseftirlitsins á 2. hæð í Borgartúni 26, Reykjavík.

Greiða þarf sérstakt samrunagjald við afhendingu samrunatilkynningar að upphæð kr. 500.000 fyrir lengri tilkynningu og 200.000 fyrir styttri tilkynningu. Reikningsnúmerið er 001-26-25874, kt. 540269-6459. Í skýringu þarf að koma fram fyrir hvaða samruna er verið að greiða og senda skal kvittun um greiðsluna á netfangið samkeppni@samkeppni.is.

Hvenær mega samrunar fyrirtækja koma til framkvæmda?

Þegar samrunar hafa verið tilkynntir til Samkeppniseftirlitsins megi þeir ekki koma til framkvæmda fyrr en eftirlitið hefur lokið umfjöllun sinni um þá. Þannig skal tilkynna um samruna áður en hann kemur til framkvæmda en eftir að samningur um hann er gerður, tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða yfirráða í fyrirtæki er aflað.

Samkeppniseftirlitið hefur 25 virka daga til athugunar á samkeppnislegum áhrifum samruna eftir að tilkynnt hefur verið um hann með fullnægjandi hætti (fasi I). Telji Samkeppniseftirlitið ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samruna skal stofnunin tilkynna samrunaaðilum um það. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um ógildingu eða setningu skilyrða samruna skal taka eigi síðar en 90 virkum dögum eftir að viðkomandi fyrirtækjum var send tilkynning um frekari rannsókn á samrunanum (fasi II). Setji samrunaaðilar, sem óska eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið, fram möguleg skilyrði vegna samrunans á 55. virka degi annars fasa rannsóknar eða síðar, framlengist frestur til rannsóknar samrunans sjálfkrafa um 15 virka daga. Óski samrunaaðilar þess er Samkeppniseftirlitinu heimilt að framlengja framangreinda fresti til rannsóknar samruna um allt að 20 virka daga. Samruninn má ekki koma til framkvæmda á meðan slík rannsókn stendur yfir.

Í 4. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga kemur fram að Samkeppniseftirlitið geti samkvæmt beiðni veitt undanþágu frá banni við framkvæmd samruna á meðan eftirlitið fjallar um hann, enda sé sýnt fram á að tafir á framkvæmd samrunans geti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptaaðila þess og að samkeppni sé stefnt í hættu. Beiðnin skal vera rökstudd og skriflega. Undanþágu er heimilt að binda skilyrðum í þeim tilgangi að tryggja virka samkeppni.

Heimild Samkeppniseftirlitsins til ógildingar samruna eða setningar skilyrða

Allir tilkynntir samrunar eru rannsakaðir af Samkeppniseftirlitinu með tilliti til þess hvort þeir muni raska samkeppni á markaði með umtalsverðum hætti eða hvort markaðsráðandi staða verður til eða að slík staða styrkist. Ef slíkt á ekki við eru samrunar samþykktir án íhlutunar eftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið getur ógilt samruna eða sett honum skilyrði ef stofnunin telur að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða að slík staða styrkist, eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið telji að tilkynntur samruni gæti haft skaðleg áhrif á samkeppni getur slíkur samruni verið samþykktur með skilyrðum sem koma í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans. Er slíkt gert með sátt við samrunaaðila á grundvelli 17. gr. f. Samkeppniseftirlitið hefur síðan eftirlit með því hvort þessum skilyrðum sé fylgt og getur gripið til aðgerða ef svo er ekki.

Samkeppniseftirlitið skal innan 25 virkra daga tilkynna þeim aðila sem sent hefur stofnuninni samrunatilkynningu ef hún telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans.Ákvörðun um ógildingu samruna skal taka eigi síðar en 90 virkum dögum eftir að slík tilkynning hefur verið send, nema framangreind atriði sem geta haft áhrif á tímafresti eigi við.

Brot á tilkynningarskyldu og banni við framkvæmd samruna

Vakin er athygli á því að lagaskylda er til tilkynninga á samrunum sem uppfylla skilyrði samkeppnislaga. Þá kemur einnig fram í samkeppnislögum bann við því að framkvæma samruna áður en Samkeppniseftirlitið hefur lokið umfjöllun um hann. Í þeim tilvikum sem brotið er gegn tilkynningarskyldu og banni við því að samruni komi til framkvæmda ber Samkeppniseftirlitinu skylda til þess að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem standa að slíkum brotum. Þegar sett hafa verið skilyrði fyrir samruna á grundvelli sáttar varðar það einnig stjórnvaldssektum þegar brotið er gegn slíkum skilyrðum. Nánar er fjallað um þetta í IX. kafla samkeppnislaga um viðurlög.

Sektir geta numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að broti. Ef brot samtaka fyrirtækja tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til. Við ákvörðun á fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.