Ólögmætt samráð

Allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskiptaleg atriði er bannað.

Algengar spurningar

Geta einstaklingar borið ábyrgð vegna brota á samkeppnislögum?

Árið 2007 var refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum afmörkuð nánar en áður gilti. Með breytingunum var refsiábyrgð einstaklinga gerð skýrari og nánar fjallað um verkaskiptinu og samvinnu samkeppnisyfirvalda og lögreglu við rannsókn brota gegn samkeppnislögum.

Refsiábyrgð einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum er afmörkuð við brot sem fela í sér ólögmætt samráð en þau eru talin alvarlegustu samkeppnislagabrotin. Ástæða þess er sú að í málum þar sem grunur leikur á samráði eru miklir hagsmunir í húfi fyrir neytendur og atvinnulífið enda getur ólögmætt samráð fyrirtækja haft í för með sér verulegan efnahagslega skaða. Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum getur einstaklingur, þ.e. starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sætt sektum eða fangelsi allt að sex árum. Nánar tiltekið tekur refsiábyrgðin til samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör, samráðs um skiptingu á mörkuðum og takmörkun á framleiðslu, samráðs um gerð tilboða, samráðs um að eiga ekki viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða neytendur og svo til upplýsingagjafar um þessi tilteknu atriði. Þá heyrir hér einnig undir samráð fyrirtækja sem hefur það að markmiði að fyrirtækin keppi ekki sín á milli.

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu getur ekki varðað einstaklingum refsingu með sama hætti. Um þetta sagði í greinargerð með frumvarpi:

Það er staðreynd að misnotkun á markaðsráðandi stöðu, sbr. 11. gr. samkeppnislaga, getur haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir samfélagið og að því standa rök til þess að misnotkun á markaðsráðandi stöðu geti varðað refsingu með sama hætti og ólögmætt samráð. Hins vegar er það talið geta valdið vandkvæðum við beitingu slíks refsiákvæðis að framkvæma getur þurft flókna hagfræðilega greiningu til að komast að raun um hvort viðkomandi fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu. Þá kann í undantekningatilvikum að vera vandasamt fyrir fyrirtæki að gera sér grein fyrir því hvort það hafi markaðráðandi stöðu í skilningi 11. gr. samkeppnislaga. Jafnframt ber að hafa í huga að í 11. gr. laganna er lagt bann við hegðun sem getur verið eðlileg og jafnvel samkeppnishvetjandi ef um er að tefla fyrirtæki sem ekki er í markaðsráðandi stöðu. Á grundvelli þessa þykir ekki ástæða til þess að leggja refsingu við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Er niðurstaðan í samræmi við samkeppnisrétt flestra vestrænna ríkja sem mæla fyrir um refsingar við samkeppnisbrotum, t.d. Bretland, Noreg og Bandaríkin.

Samkeppnislagabrot einstaklinga sæta einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Samkeppniseftirlitið metur í hvert sinn með tilliti til grófleika brots hvort kæra skuli mál til lögreglu. Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið gæti samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Þá er rétt að taka það fram að Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann eða fyrirtækið sem hann starfar hjá haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna samráðsbrota sem geta leitt til sönnunar á brotunum eða teljast mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar í höndunum.

Samkeppniseftirlitinu  er heimilt að afhenda lögregluyfirvöldum gögn og upplýsingar sem aflað hefur verið og tengjast umræddum brotum sem til rannsóknar eru. Á sama hátt getur lögreglan afhent Samkeppniseftirlitinu gögn og upplýsingar sem máli skipta. Þá er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsóknina og lögreglu er jafnframt heimilt að taka þátt í aðgerðum samkeppnisyfirvalda.


Er mögulegt að vera aðili að ólögmætu samráði án nokkurrar framkvæmdar?

Já. Það er mögulegt að teljast aðili að ólögmætu samráði þrátt fyrir að aðrir sjái um framkvæmdahlið þess og einnig er mögulegt að vera aðili að samráði þar sem enginn framkvæmir nokkuð, þ.e. samráð um athafnaleysi. Bann samkeppnislaga við ólögmætu samráði felur ekki eingöngu í sér bann við beinum aðgerðum, heldur líka samningum um aðgerðir eða athafnaleysi.

Í þessu svari er best að koma með dæmi:

Fulltrúar þriggja fyrirtækja sitja á fundi. Fulltrúar tveggja fyrirtækja hafa sig í frammi og ræða að koma á fót ólögmætu samráði meðal allra þriggja fyrirtækjanna. Samráðið er útfært og því komið af stað, án beinnar þátttöku þriðja fulltrúans. Samt sem áður yrði hann talinn aðili að samráðinu því hann var viðstaddur þann fund sem samráðinu var komið á og það útfært og var þannig fullkunnugt um það.

Til þess að teljast ekki aðili að samráðinu hefði þriðji fulltrúinn þurft að koma því mjög skýrlega á framfæri að hann myndi ekki taka þátt í samráðinu. Jafnvel með því að taka vatnsglasið sitt og skvetta úr því til þess að vekja athygli á máli sínu.


Er ekki hætta á því að hagsmunasamtök fyrirtækja séu vettvangur samráðs milli aðildarfyrirtækja?

Í 12. gr. samkeppnislaga segir að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Í lögskýringargögnum kemur fram að í ákvæðinu sé hnykkt á því að jafnt samtökum fyrirtækja sem fyrirtækjunum sjálfum sé óheimilt að standa að eða hvetja til hindrana sem brjóta í bága við bannákvæði laganna. Ljóst er samkvæmt þessu að brot á 12. gr. felur í sér sjálfstætt brot á samkeppnislögum enda þótt efnisinntak ákvæðisins komi að nokkru leyti fram í öðrum ákvæðum samkeppnislaga, s.s. 10. gr.

Með ákvörðun samtaka fyrirtækja í skilningi samkeppnisréttarins er átt við hvers konar bindandi eða leiðbeinandi ákvarðanir eða tilmæli sem samtökin beina til aðildarfyrirtækja þannig að þau geti haft áhrif á viðskiptahætti félagsmanna. Engar formkröfur gilda um þessar ákvarðanir samtaka fyrirtækja. Notkun hugtaksins hvatning í 12. gr. samkeppnislaga gefur til kynna að löggjafinn hafi viljað leggja sérstaka áherslu á að ákvæðið taki til hvers konar ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ekki eru bindandi sem hafa það að markmiði að raska samkeppni. Hugtakið hvatning í 12. gr. samkeppnislaga nær þannig til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti. Það leiðir af orðlagi ákvæðisins að slík hvatning getur verið í hvaða formi sem er. Af þessu leiðir að margvíslegar aðgerðir samtaka fyrirtækja, s.s. tilmæli, ráðleggingar eða upplýsingagjöf, geta fallið undir 12. gr. samkeppnislaga ef þessar aðgerðir hafa það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða henni raskað.

Þá þarf jafnframt að hafa í huga að á vettvangi samtaka fyrirtækja skapast hætta á upplýsingaskiptum sem kunna að brjóta í bága við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga jafnvel þótt sú sé ekki ætlunin. Ákævði 10. gr. samkeppnislaga leggur blátt bann við öllu samráði keppinauta sem og samstilltum aðgerðum þeirra á milli. Í því felst að allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskipaleg atriði er bannað. Undir samráð getur fallið hvers konar samskipti milli starfsmanna keppinauta, hvort heldur sem samskiptin eru einhliða eða af beggja hálfu.


Er hægt að sekta fyrirtæki fyrir samráð þótt fyrirtækin séu ekki rekin með hagnaði?

Fjárhæð sekta fer eftir  eðli og umfangi brots, hversu lengi brotið hefur staðið yfir og hvort um ítrekuð brot er að ræða. Fleiri þættir geta komið til skoðunar, t.d. stærð brotlegs fyrirtækis, huglæg afstaða stjórnenda og hagnaðarsjónarmið. Sektir geta numið allt að 10% af ársveltu brotlegs fyrirtækis. Hafa ber í huga að samtök fyrirtækja eru einnig sektuð fyrir samkeppnislagabrot. Í tilvikum samtaka fer um sektarákvörðun eftir veltu samtakanna sjálfra eða veltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til.

Hvergi er að finna skilyrði þess efnis að fyrirtæki verði að vera rekið með hagnaði til þess að sektir verði lagðar á vegna samkeppnislagabrots. Það er þó ljóst að ákvörðun sekta tekur mið af hverju tilviki fyrir sig sem og því markmiði stjórnvaldssekta sem er almennt að hafa varnaðaráhrif. Í tilviki samkeppnisréttar skulu sektir þannig stuðla að framkvæmd samkeppnislaga og þar með aukinni samkeppni. Eins og greinir í samkeppnislögum má falla frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða ef, af öðrum ástæðum, ekki er talin þörf á sektum til að stuðla að og efla virka samkeppni.

Það hvort fyrirtæki eru rekin með hagnaði eða ekki hefur eitt og sér ekki úrslitaáhrif þegar kemur að því að meta hvort og hversu mikið sekta eigi brotlegt fyrirtæki.  Hér er hægt að lesa nánar um hvernig sektir eru ákvarðaðar. 

Geta fyrirtæki lækkað sektir sínar ef þau upplýsa um ólögmætt samráð sem þau taka þátt í?

Reglur um niðurfellingu eða lækkun sekta gilda eingöngu um brot er varða ólögmætt samráð. Fyrirtæki sem er þátttakandi í ólögmætu samráði eða ólögmætum samstilltum aðgerðum getur fengið sektir, sem ella hefðu verið á það lagðar, felldar niður eða lækkaðar. Til þess að eiga möguleika á niðurfellingu sekta í heild þarf fyrirtæki annað hvort að vera fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á  ólögmætu samráði og leggja fram gögn sem leiða til þess að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á umræddu samkeppnislagabroti hefjist eða vera fyrst til þess að leggja Samkeppniseftirlitinu að eigin frumkvæði í té gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slík brot. Fyrirtæki á þess ekki kost að fá sektir niðurfelldar að öllu leyti nema það sýni fullan samstarfsvilja og afhendi öll gögn og upplýsingar sem það býr yfir og varða viðkomandi samkeppnislagabrot. Jafnframt þarf viðkomandi fyrirtæki að hætta þátttöku í brotastarfseminni og má auk þess ekki hafa þvingað önnur fyrirtæki til þátttöku í hinu ólögmæta samráði.

Í þessu samhengi skiptir öllu máli að viðkomandi fyrirtæki sé fyrst að borðinu, það er að segja fyrst til þess að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því að ólögmætt samráð eigi sér stað eða fyrst til þess að afhenda gögn sem gera eftirlitinu kleift að sanna slíkt samráð. Sektir verða ekki felldar niður í heild nema Samkeppniseftirlitið hafi ekki áður haft fullnægjandi sönnunargögn til að hefja rannsókn eða til að sanna brot.

Að öðru leyti en að ofan er rakið getur fyrirtæki fengið sektir lækkaðar leggi það fram sönnunargögn sem teljast mikilvæg viðbót við þau gögn sem Samkeppniseftirlitið hefur þegar undir höndum. Það er kappsmál fyrir fyrirtæki að vera fyrst til að leggja fram gögn sem eru mikilvæg viðbót því það fyrirtæki sem er fyrst til þess fær hlutfallslega mestu lækkunina. Komi fleiri fyrirtæki síðar og afhenda Samkeppniseftirlitinu gögn sem falla undir það að vera mikilvæg viðbót er hlutfallsleg lækkun sem þau geta fengið á sekt lægri en þess fyrirtækis sem á undan kom. Það fyrirtæki sem kemur næst fær minni lækkun en það sem kom fyrst og svo koll af kolli.

Við mat á því hvaða gögn teljast mikilvæg viðbót er litið til þess að hver miklu leyti gögnin hjálpa við að upplýsa staðreyndir málsins að teknu tilliti til eðlis gagnanna og nákvæmni þeirra. Almennt hafa skrifleg gögn sem stafa frá þeim tíma sem brotastarfsemin fer fram ríkari gildi en gögn sem koma síðar til. Einnig hafa bein sönnunargögn meiri þýðingu en óbein gögn.

Reglur Samkeppniseftirlitsins um niðurfellingu og lækkun sekta eru númer 890/2005 og hægt að nálgast hér.



Af hverju telst það ekki ólöglegt samráð þegar keppinautar auglýsa allir sama verðið á tiltekinni vöru eða þjónustu eða það munar bara nokkrum krónum eða aurum?

Eitt af grundvallaratriðum samkeppnislaganna er bann við verðsamráði fyrirtækja. Ólögmætt verðsamráð er fyrir hendi þegar fyrirtæki gera með sér samning eða þau með samstilltum aðgerðum fylgja sameiginlegri áætlun sem takmarkar eða er líkleg til að takmarka sjálfstæða hegðun þeirra á markaðnum. Í þessu felst því að fyrirtæki eiga að ákveða sjálfstætt, hvert fyrir sig, hvernig þau ætla að hegða sér á markaði. Þessi krafa um sjálfstæði bannar þó ekki að fyrirtæki grípi til aðgerða vegna hegðunar keppinauta sinna á markaðnum. Hún bannar hins vegar hvers konar samskipti milli keppinauta, bein eða óbein, sem hafa eða geta haft þau áhrif á hegðun keppinauta á markaðnum að draga úr samkeppni á  milli þeirra eða raska henni. Fyrirtæki gerast t.d. sek um ólögmætt samráð ef þau á fundi, í símtali, í bréfi, í tölvupósti eða með öðrum hætti eiga viðræður eða skiptast á eða taka við upplýsingum um atriði sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun um verð. Það eitt að keppinautar á markaði verðleggi vörur sínar með svipuðum eða sama hætti og elti hver annan í verðbreytingum er því ekki eitt og sér nægilegt til að sýna fram á að um ólögmætt verðsamráð sé að ræða. 

Það er samkvæmt framansögðu skilyrði fyrir því, að um ólögmætt verðsamráð sé að ræða, að fyrirtækin sem um ræðir hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti. Það kann vissulega að vera erfitt í einstökum tilvikum að greina annars vegar á milli samstilltra aðgerða fyrirtækja, sem þau taka meðvitað þátt í til þess að takmarka samkeppni, og hins vegar þess, þegar fyrirtæki haga sér eins eða líkt á markaði vegna samkeppninnar. Sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna fákeppnismarkað en fyrirtæki á t.d. gagnsæjum fákeppnismarkaði hafa sífellt í huga hver viðbrögð keppinautanna á markaðnum verða við tiltekinni aðgerð á markaði t.d. verðlækkun. Yfirleitt á þó athugun á markaðnum og markaðsaðstæðum að geta leitt í ljós hvort um samstilltar aðgerðir sé að ræða. Undir vissum kringumstæðum getur samskonar hegðun keppinauta á markaði falið í sér vísbendingar um ólögmætt samráð.

Hægt er að lesa meira um ólögmætt samráð hér.

Er allt samráð fyrirtækja bannað sem kemur í veg fyrir eða dregur úr samkeppni?

Í stuttu máli er svarið já, allt samráð fyrirtækja sem truflar samkeppni er bannað. Það er meginregla í samkeppnisrétti að fyrirtæki á samkeppnismörkuðum skuli haga sér sjálfstætt um öll þau atriði sem samkeppni er um. Þar má t.d. nefna ákvarðanir um vöruúrval, þjónustuleiðir og verð.

Það skiptir ekki máli hvernig samráðið á sér stað, þ.e. hvort fulltrúar fyrirtækja hittist á fundum, skrifist á, undirriti formlega samninga eða sammælist um markaðshegðun á einhvern annan hátt. Engu máli skiptir heldur hvort þessir samningar eða samskipti séu bindandi eða aðeins leiðbeinandi. Það sem skiptir máli við mat á því hvort um ólögmætt samráð sé að ræða er hvort markmið eða afleiðingar háttseminnar eru takmörkun eða röskun á samkeppni.

Samtökum fyrirtækja, stjórnarmönnum slíkra samtaka, starfsmönnum þeirra og mönnum sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna er einnig bannað að taka þátt í samráði.

Það er þó viðurkennt í samkeppnisrétti að samráð milli fyrirtækja sem hafa litla hlutdeild á markaði hafi minni háttar áhrif á samkeppnismarkað og efli jafnvel samkeppnisstöðu lítilla fyrirtækja gagnvart stærri keppinautum. Þess vegna er í samkeppnislögum sk. „minniháttarregla“ sem felur í sér að láréttir samningar (þ.e. samningar milli fyrirtækja sem starfa á sama framleiðslu- eða sölustigi, t.d. samningar milli smásala einungis) falla ekki undir bann við samráði fari markaðshlutdeild allra samstarfsfyrirtækja ekki yfir 5% á neinum markaði sem máli skiptir. Þegar um lóðrétta samninga er að ræða (þ.e. samningar milli fyrirtækja sem starfa á mismunandi framleiðslu- eða sölustigi, t.d. samningar milli heildsala og smásala) er miðað við að fyrirtæki með allt að 10% markaðshlutdeild geti haft samráð án þess að brjóta samkeppnislög.

Einnig er það viðurkennt í samkeppnisrétti að stundum geti samráð fyrirtækja haft jákvæðar afleiðingar, til að mynda ef það stuðlar að aukinni hagræðingu, skilvirkni eða eflir tæknilegar framfarir og/eða bætta framleiðslu á vöru. Til þess að slíkt samstarf sé heimilt þurfa jákvæð áhrif þess að vega þyngra en þau neikvæðu. Viðkomandi samstarfsfyrirtækjum ber í slíkum tilvikum að leggja mat á hvort samstarfið uppfylli skilyrði 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga til að vera undanskilið banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði. Samkeppniseftirlitið hefur gefið út leiðbeiningar sem er ætlað að aðstoða fyrirtæki við þetta mat. Einnig geta svokallaðar hópundanþágur  átt við.

Frekari upplýsingar um bann við ólögmætu samráði má finna hér.

Í hverju getur samráð fyrirtækja verið fólgið?


Í samkeppnislögum er lagt bann við hverskonar samkeppnishamlandi samstarfi á milli tveggja eða fleiri fyrirtækja. Samráð á milli keppinauta telst vera eitt alvarlegasta brotið í samkeppnisrétti enda er ætlast til þess að keppinautar hegði sér að öllu leyti sjálfsætt á markaði.

Ólögmætt samráð á milli fyrirtækja getur bæði verið lóðrétt þ.e. samráð á milli fyrirtækja á sitthvoru sölustiginu t.d. á milli heildsölu og smásala, eða lárétt sem felst í ólögmætu samstarfi fyrirtækja á sama sölustigi t.d. milli tveggja smásala. Sem dæmi um helstu tegundir ólögmæts samráðs má nefna:

  • Verðsamráð sem getur m.a. falist í samkomulagi um að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þetta á ekki einungis við um endanlegt kaup- eða söluverð heldur getur einnig átt við um samkomulag um t.d. lágmarksverð og viðmiðunarverð.
  • Markaðsskipting sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að skipta með sér mörkuðum eftir t.d. viðskiptavinum, vörutegundum eða landssvæðum.
  • Takmörkun á framleiðslu/framboði sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að framleiða/selja einungis ákveðið magn af vöru með það að markmiði að hækka verð vörunnar.
  • Samráð um gerð tilboða sem getur m.a. falist í að keppinautar komi sér saman um að taka ekki þátt í tilteknu útboði, þeir ákveði að skila tilboði með sömu verðum eða þeir ákveði sín á milli hver eigi að fá viðskiptin samkvæmt útboðinu.
  • Upplýsingaskipti milli keppinauta sem geta t.d. falist í að keppinautar sendi sín á milli upplýsingar sem eru til þess fallnar að hafa eða geta haft áhrif á hegðun þeirra á markaðnum og dregið þannig úr óvissu um hvernig keppinauturinn ætlar að hegða sér á markaðnum. 
  • Aðgerðir sem hindra aðgengi nýrra keppinauta inn á markaðinn.

Þær tegundir samráðs sem taldar hafa verið upp hér að framan eiga það sameiginlegt að hafa það að meginmarkmiði að hækka verð á vöru og þjónustu neytendum til tjóns. Samráð fyrirtækja geta því haft mjög skaðleg áhrif á samkeppni og rýrt kjör almennings.

Samkeppniseftirlitið hefur tekið fjölmargar ákvarðanir þar sem fyrirtæki hafa verið sektuð fyrir að taka þátt í ólögmætu samráði en Samkeppniseftirlitið getur lagt háár sektir á fyrirtæki sem taka þátt í slíkum brotum og geta sektirnar numið allt að 10% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu. Auk þess geta stjórnendur fyrirtækja sem taka þátt í ólögmætu samráði átt á hættu allt að sex ára fangelsisvist.


Hver eru helstu samráðsmál sem samkeppnisyfirvöld á Íslandi hafa upprætt?


Eins og mörgum er kunnugt er hvers konar samkeppnishamlandi samstarf milli fyrirtækja bannað samkvæmt samkeppnislögum. Oft er í þessu sambandi talað um ólögmætt samráð keppinauta. Getur verið um að ræða ólögmætt samráð um t.d. verð á vöru eða þjónustu, gerð tilboða þegar innkaup eða verkefni eru boðin út og að fyrirtæki skipti með sér mörkuðum. Samkeppnishamlandi ólögmætt samráð er alvarlegasta brot á samkeppnislögum og eru öll samráðsmál því í eðli sínu mikilvæg að mati Samkeppniseftirlitsins.

Þrátt fyrir það eru vitaskuld sum mál mikilvægari en önnur. Sennilega má telja sk. olíumál eða olíusamráð einna mikilvægast og umfangsmest  allra þeirra samráðsmála sem samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa upplýst, sjá ákvörðun. nr. 21/2004 Ólögmætt samráð Kers hf. (áður Olíufélagið hf.), Olíuverslunar Íslands hf., Skeljungs hf. og Bensínorkunnar ehf. Í því fólst m.a. samráð um verð, álagningu, gerð tilboða og markaðsskiptingu. Annað mikilvægt samráðsmál er uppræting á ólögmætu samráði fyrirtækja á grænmetismarkaði, sjá ákvörðun nr. 13/2001, sem m.a. fólst í verðsamráði og markaðsskiptingu dreifingarfyrirtækja. Þá má nefna mjög alvarlegt samráð fyrirtækja á greiðslukortamarkaðnum, sjá ákvörðun nr. 4/2008. Loks skal bent á nýlegt mál þar sem fyrirtækin Tæknivörur og Hátækni höfðu með sér ólögmætt samráð á heildsölumarkaði fyrir farsíma, ákvörðun nr. 7/2013.



Tengdar ákvarðanir

Tengdar ákvarðanir

Byggingaþjónusta

Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun


Fjármálaþjónusta

Neysluvörur, rekstrarvörur og fleira

Orkumál

Samgöngu- og ferðamál

  •  

Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta

  •  

Umhverfismál

  •  

Mennta og menningarmál

  •