Samrunamál

Samruni í skilningi samkeppnislaga telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum fyrirtækis til frambúðar, svo sem vegna sameiningar tveggja fyrirtækja eða yfirtöku eins fyrirtækis á öðru

Samrunamál

Samrunareglur eru einn af hornsteinum samkeppnisréttarins og gegna mikilvægu hlutverki við að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna eða yfirtöku, á þann hátt að samkeppni hverfi eða skerðist.

Í íslenskum samkeppnislögum (tengill í lög á vef Alþingis - opnast í nýjum glugga) nr. 44/2005 er kveðið á um samruna í 17. gr. og 17. gr. a til 17. gr. e laganna. Samkeppniseftirlitið hefur eftirlit með samrunum fyrirtækja sem falla undir ákvæði þessi, sbr. og reglur Samkeppniseftirlitsins  nr. 1390/2020

Í hnotskurn

 Þegar fyrirtæki sameinast eða eitt fyrirtæki nær yfirráðum, beint eða óbeint, yfir öðru fyrirtæki þarf að skoða hvort samrunafyrirtækin muni ná markaðsráðandi stöðu, markaðsráðandi staða þeirra muni styrkjast eða hvort samkeppni á viðkomandi markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Tilkynna þarf samruna til Samkeppniseftirlitsins að nánari skilyrðum uppfylltum. Samkeppniseftirlitið getur ógilt samruna eða sett skilyrði fyrir framgangi samruna.

Tilkynningaskylda fyrirtækja í samrunamálum

Samrunareglur samkeppnislaga mæla fyrir um að fyrirtæki sem öðlast yfirráð yfir öðru fyrirtæki séu tilkynningarskyld þegar ákveðin skilyrði þar eru uppfyllt. Þannig er skylt að tilkynna samruna til Samkeppniseftirlitsins þegar sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja eru 3 milljarðar kr. eða meira á Íslandi og að minnsta kosti tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 300 millj. kr. ársveltu á Íslandi hvert um sig. Samkeppniseftirlitið hefur þó heimild til að krefja samrunaaðila um samrunatilkynningu þrátt fyrir að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt ef sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er meiri en 1,5 milljarður kr. á ári.

Tilkynna skal Samkeppniseftirlitinu um samruna áður en hann kemur til framkvæmda en þó eftir að samningur um hann er gerður, tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða yfirráða í fyrirtæki er aflað. Samruni sem fellur undir ákvæði samkeppnislaga skal því ekki koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.

Í samrunatilkynningu skal veita upplýsingar um samrunann, þau fyrirtæki sem honum tengjast, um viðkomandi markaði og um önnur nauðsynleg atriði við athugun á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Í reglum Samkeppniseftirlitsins nr. 1390/2020  um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum eru nánar tilgreindar þær upplýsingar sem fram verða að koma í tilkynningu. Heimild er til styttri tilkynningar ef uppfyllt eru eitt af skilyrðum a til e liðar 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, svo sem ef þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir.

Greiða þarf sérstakt samrunagjald við afhendingu samrunatilkynningar að upphæð kr. 500.000 fyrir lengri tilkynningu og 200.000 fyrir styttri tilkynningu. Bankareikningur 0001-26-25874, kt. 540269-6459. Senda þarf kvittun á netfangið samkeppni@samkeppni.is

Heimild Samkeppniseftirlitsins til ógildingar samruna eða setningar skilyrða

Samkeppniseftirlitið getur ógilt samruna eða sett honum skilyrði ef stofnunin telur að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða að slík staða styrkist, eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Samkeppniseftirlitið skal innan 25 virkra daga tilkynna þeim aðila sem sent hefur stofnuninni samrunatilkynningu ef hún telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Ákvörðun um ógildingu samruna skal taka eigi síðar en 90 virkum dögum eftir að slík tilkynning hefur verið send. Setji samrunaaðilar, sem óska eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið, fram möguleg skilyrði vegna samrunans á 55. virka degi annars fasa rannsóknar eða síðar, framlengist frestur til rannsóknar samrunans sjálfkrafa um 15 virka daga. Óski samrunaaðilar þess er Samkeppniseftirlitinu heimilt að framlengja framangreinda fresti til rannsóknar samruna um allt að 20 virka daga.

Þegar um er að ræða styttri tilkynningu getur Samkeppniseftirlitið krafist lengri tilkynningar ef skilyrði 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga eru ekki uppfyllt eða slíkt þykji nauðsynlegt til að meta samkeppnisleg áhrif samrunans.

Frekari upplýsingar

Lög og reglur

Kvartanir og erindi