Sameiginleg yfirlýsing viðskiptaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál

Í yfirlýsingu þessari er fjallað um hlutverk Samkeppniseftirlitsins og viðskiptaráðuneytis við framkvæmd og mótun samkeppnislaga og samskipti milli stofnunarinnar og ráðuneytis fest í sessi. Yfirlýsingin er grundvöllur árangursstjórnunar við framkvæmd samkeppnislaga.

I. Hlutverk og staða viðskiptaráðuneytis og Samkeppniseftirlitsins

Viðskiptaráðuneytið
Viðskiptaráðuneytið fer með mál er varða samkeppnismál, samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 3/2004, með síðari breytingum. Ráðuneytið undirbýr breytingar á samkeppnislögum og viðskiptaráðherra leggur frumvörp þar um fyrir ríkisstjórn og Alþingi.

Viðskiptaráðherra skipar stjórn Samkeppniseftirlitsins til fjögurra ára í senn og ber ábyrgð gagnvart ríkisstjórn og Alþingi á fjárlagatillögum vegna stofnunarinnar.

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið annast framkvæmd samkeppnislaga. Ákvarðanir þess sæta kæru til sérstakrar nefndar, áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Einstakar ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins koma ekki til umfjöllunar viðskiptaráðuneytis.

Samkeppniseftirlitið er sjálfstæð stofnun. Með yfirstjórn þess fer þriggja manna stjórn, sem sækir umboð sitt til og ber ábyrgð gagnvart viðskiptaráðherra. Hlutverk stjórnar er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Samkeppniseftirlitsins. Stjórnin ræður forstjóra sem annast daglega stjórnun stofnunarinnar. Meiri háttar efnislegar ákvarðanir skal bera undir stjórn til samþykktar eða synjunar.

Aðalviðfangsefni Samkeppniseftirlitsins greinast í eftirfarandi þætti:

 • að framfylgja boðum og bönnum samkeppnislaga og eftir atvikum 53. og 54. gr. EES-samningsins og leyfa undanþágur skv. samkeppnislögum,
 • að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja,
 • að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum,
 • að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja.

II. Markmið og áherslur

Viðskiptaráðuneytið
Viðskiptaráðuneytið stuðlar að því að á hverjum tíma séu samkeppnislög þannig úr garði gerð að markmið þeirra geti náð fram að ganga.

Viðskiptaráðuneytið leitast við að á hverjum tíma búi Samkeppniseftirlitið yfir fjármagni sem gerir því kleift að annast framkvæmd samkeppnislaga.

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið kappkostar í öllu sínu starfi að nýta úrræði sem því eru falin til þess að ná fram markmiðum samkeppnislaga. Jafnframt kappkostar stofnunin að nýta eins vel og kostur er fjármuni þá sem ætlaðir eru til starfseminnar.

Samkeppniseftirlitið byggir starfsemi sína á skýrri stefnumótun sem reglulega er tekin til endurskoðunar og byggir á skýrum markmiðum. Stefnan byggir á eftirfarandi meginþáttum:

 • Mannauðsstefnu þar sem kappkostað er að Samkeppniseftirlitið hafi á hverjum tíma úrvals starfsfólk á sínum snærum, sem býr við fyrsta flokks starfsaðstöðu, símenntun og jafnrétti óháð kynferði og þjóðfélagsstöðu.
 • Innri ferlum sem stuðla að fagmennsku.
 • Skýrri sýn á árangur af verkefnum stofnunarinnar.

Samkeppniseftirlitið framfylgir stefnu sinni með því að setja sér markmið og leitast við að setja markmiðum sínum mælikvarða sem reglulega er fylgst með.

Árlega mótar Samkeppniseftirlitið áherslur næstu misseri sem m.a. fela í sér forgangsröðun verkefna.

Í samhengi við stefnu sína og áherslur gerir Samkeppniseftirlitið árlega rekstraráætlun fyrir komandi ár, sem byggir á þriggja til fimm ára sýn á rekstur og árangur stofnunarinnar. Stofnunin er rekin innan þeirra fjárheimilda sem ákveðnar eru hverju sinni.

Samkeppniseftirlitið kappkostar að kynna starfsemi sína fyrir fyrirtækjum og almenningi. Samkeppniseftirlitið vill vera í fararbroddi þeirra sem nýta upplýsingatækni til að auðvelda fyrirtækjum og almenningi samskipti við stofnunina.

III. Erlent samstarf

Viðskiptaráðuneytið
Viðskiptaráðuneytið fylgist með þróun löggjafar á sviði samkeppnisréttar erlendis, m.a. í Evrópusambandinu, og leiðir þátttöku Íslands innan EFTA um samkeppnismál.

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið tekur þátt í þróun samkeppnisréttar og starfsemi samkeppniseftirlita á alþjóðlegum vettvangi með það að markmiði að nýta og miðla reynslu og þekkingu á samkeppnismálum. Í því skyni tekur eftirlitið m.a. þátt í eftirgreindri alþjóðlegri umfjöllun um samkeppnismál:

 • Samstarfi samkeppniseftirlita á Norðurlöndum.
 • Samstarfi samkeppniseftirlita í Evrópu.
 • Umfjöllun um samkeppnismál innan Evrópusambandsins.
 • Öðru alþjóðlegu samstarfi, þ.á m. samstarfi á vettvangi Alþjóðasamtaka samkeppniseftirlita (International Competition Network).

IV. Samskipti viðskiptaráðuneytis og Samkeppniseftirlitsins

Viðskiptaráðuneytið og Samkeppniseftirlitið kappkosta að framfylgja markmiðum samkeppnislaga. Í þessu skyni hafa viðskiptaráðuneytið og Samkeppniseftirlitið samskipti eins oft og þurfa þykir, en að lágmarki með eftirfarandi hætti:

 1. Á fyrsta ársfjórðungi hvers árs er tekið til umfjöllunar hvort gera þurfi breytingar á samkeppnislögum í því skyni að ná betur markmiðum þeirra.
 2. Á fyrsta árshelmingi hvers árs er viðskiptaráðherra kynnt skýrsla um starfsemi Samkeppniseftirlitsins á liðnu ári, þar sem m.a. er fjallað um hvernig stofnuninni hafi tekist að fylgja markmiðum sem sett hafa verið í starfseminni.
 3. Á fyrsta árshelmingi hvers árs eru viðskiptaráðherra kynntar helstu áherslur í starfsemi Samkeppniseftirlitsins næstu misseri og hvernig þeim áherslum verði fylgt eftir, e.a. með mælanlegum viðmiðum.
 4. Fyrir lok nóvember ár hvert eru drög að rekstraráætlun næsta árs kynnt viðskiptaráðuneytinu og frágengin áætlun kynnt fyrir febrúarbyrjun.
 5. Í febrúarmánuði ár hvert kynnir Samkeppniseftirlitið fjárlagatillögur vegna næsta árs þar sem m.a. er lagt mat á lagabreytingar og önnur atriði sem haft geta áhrif á útgjaldaliði. Tillögunum fylgir jafnframt umfjöllun um rekstrarumfang og rekstrarforsendur næstu þriggja ára.
 6. Með hliðsjón af umfjöllun um samkeppnislög, starfsemi Samkeppniseftirlitsins og rekstur, skv. liðum 1-5, fjalla viðskiptaráðuneytið og Samkeppniseftirlitið árlega um nauðsynlegt rekstrarumfang Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið liðsinnir viðskiptaráðuneytinu um almenna upplýsingagjöf um samkeppnismál til Alþingis og ríkisstjórnar.

V. Endurskoðun

Yfirlýsing þessi skal endurskoðuð þegar nauðsyn ber til og eigi síðar en að fimm árum liðnum.

15. maí 2007
Jón Sigurðsson
Gylfi Magnússon