Markaðs­skilgreiningar


Markaðsskilgreiningar

Samkvæmt 4. gr. samkeppnislaga er markaður sölusvæði vöru og staðgönguvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgönguþjónustu. Staðgönguvörur eru vörur eða þjónusta sem að öllu eða miklu leyti uppfylla sömu þarfir og veita þær því hver  annarri samkeppnislegt aðhald. Við skilgreiningu vöru- og/eða þjónustumarkaða þarf því að rannsaka og meta hvaða vörur eru staðgönguvörur.

Við skilgreiningu markaða þarf einnig að greina það sölusvæði sem viðkomandi fyrirtæki keppa á. Með því er átt við svokallaðan landfræðilegan markað sem er það svæði þar sem viðkomandi fyrirtæki bjóða vörur sínar og þjónustu. Á landfræðilegum markaði þurfa eftirspurn og samkeppnisskilyrði einnig að vera nægilega lík til að hægt sé að greina markaðinn frá öðrum nærliggjandi svæðum. Landfræðilegur markaður getur ýmist verið staðbundinn (t.d. höfuðborgarsvæðið), landsbundinn (Ísland) eða alþjóðlegur (nær út fyrir Ísland).

Við vissar aðstæður getur verið nauðsynlegt að skilgreina markað út frá tíma en það er frekar sjaldgæft. Segja má almennt að tilgangur markaðsskilgreiningar sé að finna það svið viðskipta sem viðkomandi vara eða þjónustan hefur áhrif á. Nauðsynlegt getur verið að skilgreina markað í hverju nýju máli og geta skilgreiningin tekið breytingum ef aðstæður, s.s. samkeppnisskilyrði breytast.


Tengt efni