Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Landsbankans hf. á eignarhlut í Verdis hf. (áður Arion verðbréfavarsla).

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 34/2011
  • Dagsetning: 17/10/2011
  • Fyrirtæki:
    • Landsbanki Íslands hf.
    • Verdis hf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjármálaþjónusta
    • Verðbréfastarfsemi
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Verdis er fyrirtæki sem er alfarið í eigu eigu Arion banka og starfar fyrirtækið á markaðnum fyrir verðbréfaumsýslu. Verdis annast þannig vörslu og uppgjör verðbréfa auk annarrar bakvinnslu fyrir Arion banka og fleiri fjármálafyrirtæki. Með kaupum á eignarhlut í Verdis munu Landsbankinn og Arion banki hafa sameiginleg yfirráð yfir Verdis og fulltrúar bankanna munu sitja saman í stjórn fyrirtækisins. Samruninn mun einnig leiða til þess að Landsbankinn hættir eigin verðbréfaumsýslu og mun þess í stað þiggja þá þjónustu frá Verdis. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er rökstutt að þetta þýði að Verdis muni njóta yfirburða á markaðnum og verða markaðsráðandi í verðbréfaumsýslu. Samruninn raski að þessu leyti samkeppni með alvarlegum hætti.

    Landsbankinn og Arion banki eru umsvifamiklir keppinautar á markaðnum fyrir almenna verðbréfaþjónustu en sá markaður er nátengdur þeim markaði sem Verdis starfar á. Þá eru þessir bankar, ásamt Íslandsbanka, stærstu keppinautarnir á almennum viðskiptabankamarkaði. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem gefin var út fyrr á þessu ári, er bent á að mikil fákeppni og samþjöppun sé á íslenskum fjármálamarkaði. Skortur á samkeppni og samkeppnishömlur á þeim markaði geti haft mjög neikvæðar afleiðingar á íslenskt atvinnulíf og neytendur. Það sé því forgangsverkefni að vinna gegn samkeppnishamlandi samvinnu banka sem geti t.d. falist í sameiginlegu eignarhaldi þeirra á þjónustufyrirtækjum. Bent er á að á slíkum fákeppnismörkuðum sé samkeppnislegt sjálfstæði keppinauta sérstaklega mikilvægt.

    Með samrunanum myndast í Verdis nýr vettvangur fyrir upplýsingaskipti og samvinnu milli Landsbankans og Arion banka sem skaðað getur samkeppni á þeim fjármálamörkuðum sem bankarnir starfa á. Samruninn fer því einnig að þessu leyti gegn samkeppnislögum.

    Strax í upphafi þessa máls óskuðu samrunaðilar eftir því að fá að leggja fram tillögur að skilyrðum sem gætu komið í veg fyrir að samruninn raskaði samkeppni. Þær tillögur eru hins vegar ekki fullnægjandi þar sem þær leysa ekki þau samkeppnislegu vandkvæði sem tengjast sameiginlegum yfirráðum Landsbankans og Arion banka yfir Verdis. Fyrirtækin sem standa að samrunanum hafa byggt á því að hann feli í sér umtalsverða hagræðingu. Samkvæmt samkeppnislögum er unnt að horfa til hagræðingar ef fyrirtæki m.a. sanna að hagræðingin skili sér til neytenda. Samrunaðilum tókst ekki að sanna þetta og er samruninn sökum þessa alls því ógiltur.

Staða máls

Áfrýunarnefnd samkeppnismála

Úrskurðir