Samkeppni Logo

Undanþága fyrir marghliða samningi um millibankaþjónustu

Reifun

Með bréfi frá Samtökum fjármálafyrirtækja, dags. 1. júní 2012, f.h. aðila að samningi um millibankaþjónustu, var óskað eftir undanþágu skv. 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 fyrir því samstarfi sem samningurinn fjallar um. Forsögu þessa erindis má rekja til eldri ákvarðana Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 og nr. 2/2011. Eldra fyrirkomulagið var með þeim hætti að allir bankar og sparisjóðir voru bundnir af því að afgreiða viðskiptavini keppinautanna með sama hætti og sína eigin og hafa þeir innheimt samræmd afgreiðslugjöld fyrir þjónustuna. Fólst í fyrirkomulaginu sameiginleg ákvörðun keppinauta um samræmda verðskrá fyrir þjónustu við viðskiptavini aðila samkomulagsins.

Með nýja fyrirkomulaginu verður breyting á þessu. Í þessu samstarfi banka og sparisjóða felst að allir aðilar samkomulagsins skuldbinda sig til að veita viðskiptavinum hvers annars almenna afgreiðsluþjónustu. Um leið eru settar skorður við ákvörðun á afgreiðslugjaldi og millibankagjaldi tengt þjónustunni. Verður um að ræða einhliða ákvörðun hvers einstaks fjármálafyrirtækis um það hvort og þá hvaða afgreiðslugjald það innheimtir vegna millibankaþjónustu við viðskiptavini annarra banka og sparisjóða og skal það vera það sama gagnvart viðskiptavinum allra aðilanna nema málefnalegar ástæður standi til annars. Slíkt gjald skal birt í verðskrá. Með sama hætti verður um að ræða einhliða ákvörðun hvers banka og sparisjóðs hvort og þá hvaða millibankagjald hann greiðir öðrum aðilum samkomulagsins vegna afgreiðslu þeirra fyrir hans viðskiptavini.

Með þessari breytingu er það mat Samkeppniseftirlitsins að komið sé í veg fyrir mögulegt samkeppnishamlandi samstarf keppinauta á sama markaði og með því skapaðar forsendur fyrir virkari samkeppni um viðskiptavini í almennri viðskiptabankaþjónustu. Er það mat Samkeppniseftirlitsins að breytt fyrirkomulag sé til þess fallið að viðhalda góðri þjónustu við neytendur sem meðal annars felst í auknu öryggi og skilvirkni auk meiri þæginda í samskiptum við þessar fjármálastofnanir. Með sama hætti á samstarfið ekki með neinum hætti að leggja höft á aðila samstarfsins né leiðir það til eða gefur þeim tækifæri og möguleika til að hindra samkeppni á sviði almennrar viðskiptabankaþjónustu.

Ákvarðanir
Málsnúmer

4 / 2013

Dagsetning
4. mars 2013
Fyrirtæki

Arion banki hf.

Íslandsbanki hf.

Landsbankinn hf.

MP banki hf.

Sparisjóðirnir

Atvinnuvegir

Fjármálaþjónusta

Viðskiptabankaþjónusta

Málefni

Undanþágur

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.