Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samruni Kviku banka hf. og Gamma Capital Management hf.

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 5/2019
 • Dagsetning: 6/3/2019
 • Fyrirtæki:
  • Kvika banki hf.
  • Gamma Capital Management hf.
 • Atvinnuvegir:
  • Fjármálaþjónusta
 • Málefni:
  • Samrunamál
 • Reifun

  Með ákvörðun þessari hefur Samkeppniseftirlitið lagt mat á samruna Kviku banka hf. („Kvika“) og Gamma Capital Management hf. („Gamma“) í samræmi við ákvæði 17. gr. samkeppnislaga.

  Kvika hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki en megináhersla bankans er á eignastýringu og fjárfestingarbankastarfsemi (þ.e. markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf og lánastarfsemi). Gamma er rekstrarfélag verðbréfasjóða í skilningi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Starfsemi Gamma einskorðast að mestu við eignastýringu en einnig sinnir félagið fyrirtækjaráðgjöf.

  Með hliðsjón af rekstrarstarfsemi samrunaaðila tekur samruni þessi nær eingöngu til eignastýringar þar sem umsvif Gamma á öðrum sviðum fjármálaþjónustu sem Kvika býður einnig upp á, eru afar lítil.

  Að undangenginni rannsókn er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sú að ekki séu fyrir hendi vísbendingar um að samruninn leiði til myndunar eða styrkingar markaðsráðandi stöðu samrunaaðila á neinum markaði. Jafnframt verður ekki séð að samkeppni á mörkuðum raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

  Að því er varðar markað fyrir stýringu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða (sem standa almenningi til boða) hefur m.a. verið litið til þess að um er að ræða samruna tveggja tiltölulega smárra aðila á markaðnum og samþjöppun markaðshlutdeildar eykst tiltölulega lítið. Hvað varðar markað fyrir stýringu sjóða fyrir fagfjárfesta, þá búa samrunaaðilar m.a. við öfluga samkeppni frá stóru viðskiptabönkunum þremur, kaupendaaðhald almennra lífeyrissjóða og annarra fjársterkra aðila, auk þess sem allnokkur fjöldi smærri fyrirtækja býður upp á stýringu fyrir fagfjárfesta. Þá hefur það þýðingu í þessu sambandi að stóru viðskiptabankarnir þrír eru hver um sig miklum mun stærri en sameinað félag samrunaaðila og njóta því mun meiri fjárhagslegs styrkleika heldur en hið sameinaða félag.

  Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að öllu samanlögðu er sú að samruni þessi gefi ekki tilefni til íhlutunar.