Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Samkaupa hf. á rekstri dagvöruverslunar Kaupfélags Steingrímsfjarðar svf. á Hólmavík

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 8/2020
 • Dagsetning: 4/3/2020
 • Fyrirtæki:
  • Samkaup hf.
  • Kaupfélag Steingrímsfjarðar svf.
 • Atvinnuvegir:
  • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
 • Málefni:
  • Samrunamál
 • Reifun

  Kaup Samkaupa hf. á rekstri dagvöruverslunar Kaupfélags Steingrímsfjarðar svf. á Hólmavík

   

                                                                                   I.

                                                            Málavextir og málsmeðferð

  Með samrunaskrá, dags. 18. febrúar 2020, var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um kaup Samkaupa hf. (hér eftir Samkaup) á rekstri, innréttingum, tækjum og vörubirgðum dagvöruverslunar Kaupfélags Steingrímsfjarðar svf. á Hólmavík (hér eftir KSH). Samkaup starfar á dagvörumarkaði og rekur verslanir um land allt undir vörumerkjunum Nettó, Krambúð, Kjörbúðin, Samkaup Strax, Seljakjör og Iceland. KSH rekur hina seldu dagvöruverslun auk þess sem félagið rekur byggingarvörudeild undir nafninu Pakkhúsið á Hólmavík. Nánar er fjallað um samrunaaðila í kafla II.

  Að mati eftirlitsins felur framangreindur gerningur í sér samruna sem er tilkynningarskyldur í skilningi 17. gr. a. samkeppnislaga nr. 44/2005. Meðfylgjandi tilkynningunni var samrunaskrá í samræmi við 17. gr. a. samkeppnislaga og viðauka I við reglur nr. 684/2008 um tilkynningu samruna og málsmeðferð í samrunamálum, með síðari breytingum. Eftirlitið mat þá skrá fullnægjandi í samræmi við ákvæði samkeppnislaga og reglur eftirlitsins um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum.

  Samrunaaðilar settu fram rökstudda ósk um undanþágu, skv. 4. mgr. 17. gr. a. samkeppnislaga, frá banni við framkvæmd samrunans. Samkeppniseftirlitið tók þá beiðni til skoðunar og taldi skilyrði til slíkrar undanþágu uppfyllt. Var samrunaaðilum tilkynnt um það með bréfi, dags. 20. febrúar 2020.

  Rannsókn málsins hefur falist í því að yfirfara þær upplýsingar og sjónarmið sem fylgdu samrunaskrá. Auk þess var litið til upplýsinga sem Samkeppniseftirlitið býr yfir vegna eldri mála á sama sviði.

                                                                                 II.

                                                                          Samruninn

  Samkvæmt 17. gr. samkeppnislaga telst samruni hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar. Samruni getur þannig m.a. falist í því að fyrirtæki taki annað fyrirtæki yfir eða það nái yfirráðum í heild eða að hluta yfir öðru fyrirtæki, t.d. með því að

  kaupa hluta af eignum þess eða þær allar, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna. Samkeppniseftirlitið telur að í kaupum Samkaupa hf. á rekstri dagvöruverslunar KSH á Hólmavík felist samruni í skilningi 17. gr. samkeppnislaga.

  1. Samrunaaðilar

  Í samrunaskrá lýsir Samkaup starfsemi sinni svo að fyrirtækið starfi á sviði dagvöruverslunar. Fyrirtækið reki um 60 smávöruverslanir víðsvegar um landið undir nöfnunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúð, Iceland, Háskólabúðin og Samkaup Strax. Verslanirnar eru í Reykjanesbæ, Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Akureyri, Borgarnesi, Selfossi, Grindavík, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Húsavík, Ísafirði, Akranesi, Flúðum, Laugarvatni, Mývatnssveit, Grundarfirði, Búðardal, Blönduósi, Bolungarvík, Dalvík, Djúpavogi, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Garði, Neskaupstað, Ólafsfirði, Sandgerði, Seyðisfirði, Siglufirði, Skagaströnd og Þórshöfn.

  Stærstu hluthafar Samkaupa séu Kaupfélag Suðurnesja með 57,24% hlut, Birta lífeyrissjóður með 15,16% hlut og Kaupfélag Borgfirðinga með 14,10% hlut.

  Þá segir að KSH starfi aðallega á sviði dagvöruverslunar og reki eina dagvöruverslun á Hólmavík. Nýlega hafi félagið lokað verslun sinni á Drangsnesi. Kaupfélagið sé afgreiðsluaðili Vörumiðlunar ehf. á Hólmavík og haldi utan um allan flutning félagsins á svæðinu með skráningu og afgreiðslu. Þá hafi KSH einnig sinnt þjónustustöðvum á svæðinu fyrir N1 ehf. Kaupfélagið sé í eigu félagsmanna.

  Markmið samrunans séu að fjölga verslunum Samkaupa og þar með styrkja stöðu félagsins á dagvörumarkaði. Samkaup geti nýtt samlegðaráhrif sem verði til við samrunann en félagið reki nú fjölda verslana á landsbyggðinni. Samruninn gefi möguleika á samlegðaráhrifum sem felist í hlutfallslega lægri stjórnunarkostnaði og hagkvæmari innkaupum.

  2. Markaðsskilgreiningar

  Við mat á samruna samkvæmt samkeppnislögum verður að byrja á því að skilgreina þann markað eða þá markaði sem við eiga. Samkvæmt 4. gr. laganna er markaður sölusvæði vöru og staðgengdarvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgengdarþjónustu. Hagfræðileg rök leiða til þess að líta verður á viðkomandi markaði frá tveimur sjónarhornum, annars vegar vöru- eða þjónustumarkaði og hins vegar landfræðilegum markaði.[1]

  Samkeppniseftirlitið hefur rannsakað dagvörumarkaðinn í tengslum við rannsóknir fyrri mála, til dæmis vegna samruna N1 hf. og Festi hf., sbr. ákvörðun nr. 8/2019, samruna Haga hf. og Olíuverzlunar Íslands hf., sbr. ákvörðun nr. 9/2019, og kaup Samkaupa á verslunum Basko verslana ehf., sbr. ákvarðanir nr. 28/2018 og 14/2019.[2] Þar var dagvörumarkaðurinn skilgreindur með þeim hætti að hann fæli í sér stórmarkaði, lágvöruverðsverslanir, þægindaverslanir og aðrar minni dagvöruverslanir („kaupmaðurinn á horninu“). Í ljósi þess hve mikið samkeppnislegt aðhald hefðbundnar dagvöruverslanir veita eldsneytisstöðvum taldi Samkeppniseftirlitið hins vegar rétt að horfa á dagvörusölu eldsneytisstöðva samhliða veltu hefðbundinna dagvöruverslana við mat á samkeppnislegum áhrifum samrunanna þó hefðbundnar dagvöruverslanir yrðu eftir sem áður skilgreindar sem sérstakur markaður. Af hálfu samrunaaðila er vísað til þessara sjónarmiða í samrunaskrá.

  Í ljósi niðurstöðu þessa máls telur Samkeppniseftirlitið ekki nauðsynlegt að fjalla nánar um skilgreiningar á vörumörkuðum málsins.

  Landfræðilegir markaðir fyrir sölu á dagvöru hafa verið skilgreindir staðbundnir þar sem t.d. höfuðborgarsvæðið hefur verið skilgreint sem sérstakur markaður og eftir atvikum aðrir þéttbýliskjarnar og svæði á landinu, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 28/2017, Samruni Haga hf. og Lyfju hf.[3] og þær ákvarðanir sem vísað er til hér að framan. Við mat á afmörkun landfræðilegs markaðar dagvöruverslana hefur verið litið til svæðis sem nemur 20-30 mínútna akstursfjarlægð frá viðkomandi verslun.

  Í því tilviki sem hér er til skoðunar er um að ræða kaup á verslun á Hólmavík sem er í nokkurri fjarlægð frá öðrum byggðakjörnum. Í fyrri málum hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort landsvæði í og við Hólmavík myndi sérstakan markað en velta dagvöruverslana á Hólmavík hefur verið meðtalin á landfræðilega markaðnum Norðurland vestra.[4] Þar sem meira en 30 mínútna akstur eru að næstu hefðbundnu dagvöruverslun eru hins vegar vísbendingar um að Hólmavík og nágrenni myndi sérstakan markað. Í þessu máli er þó ekki talin þörf á því að taka endanlega afstöðu til þessa enda hefur það engin áhrif á niðurstöðu málsins.

  Við mat á samrunanum er litið til næstu verslana sem standa íbúum Hólmavíkur til boða, sbr. umfjöllun hér á eftir.    

                                                                                  III.

                                                                            Niðurstaða 

   Í máli þessu eru kaup Samkaupa á dagvöruverslun KSH til skoðunar í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Taka þarf til skoðunar hvort samruni þessi hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða slík staða styrkist á hinum skilgreindu mörkuðum málsins eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 1. mgr. 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005.

  Í samrunaskrá kemur fram að það sé mat Samkaupa að samruninn sé líklegur til að hafa jákvæð áhrif á neytendur og samkeppni. Með samrunanum sé ætlunin að styrkja stöðu Samkaupa á dagvörumarkaði og samruninn sé til þess fallinn að tryggja að verslunarrekstur haldi áfram á Hólmavík. [5]

  Líkt og kom fram hér að framan eru vísbendingar til staðar um að Hólmavík og næsta nágrenni myndi sérstakan landfræðilegan markað. Á þessu svæði er aðeins starfrækt ein hefðbundin dagvöruverslun, hin selda verslun KSH. Af þeim sökum er ljóst að vegna samrunans myndi ekki verða nein samþjöppun á hinum landfræðilega markaði málsins. Væri horft til landfræðilega markaðarins Norðurland vestra hækkaði HHI um meira en 150 stig en samþjöppun á þeim markaði er meiri en 2.000 stig.

  Í því ljósi telur Samkeppniseftirlitið gagnlegt að líta til staðbundinna áhrifa samrunans. Næstu verslanir sem íbúar Hólmavíkur hafa að öðrum kosti færi á að leita til er að finna í töflu 1 en þar er tekinn saman aksturstími og vegalengd til næstu verslana frá dagvöruverslun KSH á Hólmavík.

  Tafla 1:  Aksturstími frá Hólmavík og vegalengd til næstu verslana.[6]

    Aksturstími frá Hólmavík Fjarlægð í km Verslanir á viðkomandi stað
  Drangsnes 31 mín. 32 Verslunarfélagið Drangsnesi
  Reykhólar 48 mín. 57 Hólabúðin
  Búðardalur 59 mín. 79 Kjörbúðin (Samkaup)
  Borgarnes 1 klst. og 56 mín. 156 Bónus, Nettó (Samkaup)
  Stykkishólmur 2 klst. og 22 mín. 165 Bónus, Skúrinn
  Blönduós 2 klst. og 27 mín. 190 Kjörbúðin (Samkaup)
  Grundarfjörður 2 klst. og 36 mín. 184 Kjörbúðin (Samkaup)
  Ísafjörður 2 klst. og 46 mín. 223 Bónus, Nettó (Samkaup)
  Patreksfjörður 2 klst. og 51 mín. 221 Fjölval Mini Market
  Skagaströnd 2 klst. og 47 mín. 213 Kjörbúðin (Samkaup)

  Líkt og sjá má af töflunni er byggðarlagið nokkuð afskekkt og tiltölulega langt í næstu hefðbundnu dagvöruverslun sem er Kjörbúðin Búðardal, eða um klukkutíma akstur. Ennþá lengra er í næstu lágvöruverðsverslanir sem er að finna í Borgarnesi í um tveggja klukkutíma fjarlægð. Að mati Samkeppniseftirlitsins bendir framangreint því til þess að sú aukning sem verður á samþjöppun á landfræðilega markaðnum Norðurland vestra í kjölfar samrunans gefi ekki rétta mynd af samkeppnislegum áhrifum samrunans.

  Með hliðsjón af öllu framangreindu telur Samkeppniseftirlitið að með samrunanum muni ekki verða breyting á stöðu verslunar KSH á Hólmavík en verslunin hefur hingað til verið eina hefðbundna dagvöruverslunin á svæðinu. Þá eru ekki vísbendingar um að kaup Samkaupa á versluninni leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Ekki eru því forsendur til þess að aðhafast vegna samrunans.

                                                                                         IV.

                                                                              Ákvörðunarorð:

   

  „Kaup Samkaupa hf. á rekstri dagvöruverslunar Kaupfélags Steingrímsfjarðar svf. á Hólmavík fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna samrunans.“

                                                                     Samkeppniseftirlitið

                                                                    Páll Gunnar Pálsson

   


  [1] Í sumum tilvikum er nauðsynlegt að skilgreina markaðinn út frá fleiri víddum en vörunni eða þjónustunni sjálfri og hvar hún er seld, s.s. opnunartíma verslana eða á hvaða tíma þjónusta er veitt.

  [2] Sjá einnig ákvörðun nr. 42/2019, Kaup Skeljungs hf. á Basko ehf.

  [3] Byggt hefur verið á sömu skilgreiningu og nálgun í fyrri málum, sbr. úrskurð nr. 2/2009 og skýrslur Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2012 og 1/2015 þar sem fjallað var um samkeppni á dagvörumarkaðnum.

  [4] Blönduós, Hofsós, Hvammstangi, Sauðárkrókur og Skagaströnd.

  [5] Fellt út vegna trúnaðar.

  [6] Heimild samrunaskrá og Google maps.

Staða máls

Áfrýunarnefnd samkeppnismála

Úrskurðir