Samkeppni Logo

Kaup OMX AB á Eignarhaldsfélagi Verðbréfaþings hf.

Reifun

Með bréfi, dags. 26. október 2006, var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um kaup OMX AB á öllu hlutafé í Eignarhaldsfélagi Verðbréfaþings hf. Eignarhaldsfélag Verðbréfaþings hf. er félag um eignarhald á Verðbréfaskráningu Íslands hf. og Kauphöll Íslands hf. Á grundvelli upplýsinga sem fram koma í samrunaskránni er það mat Samkeppniseftirlitsins að kaup OMX á öllu hlutafé í Eignarhaldsfélaginu feli í sér samruna í skilningi 4. og 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og fellur samruninn undir samrunaeftirlit 17. gr. laganna, þar sem veltuskilyrði eru metin uppfyllt.


Í samrunaskránni kemur fram að markmið samrunans sé að auka skilvirkni og að auka ávinning hluthafa, útgefenda verðbréfa og markaðsaðila auk þess sem samruninn muni stuðla að enn frekari samþættingu norræns verðbréfamarkaðar. Gert sé ráð fyrir að sameiningin leiði til þess, þegar til lengri tíma sé litið, að auðveldara verði að selja íslensk verðbréf. Samruni OMX og Eignarhaldsfélagsins er sagður rökrétt skref í áttina að stofnun eins af stærri verðbréfamörkuðum í Evrópu sem geti sótt styrk í einn af leiðandi aðilum í heiminum í upplýsingatækniþjónustu. Samruni OMX og Eignarhaldsfélagsins muni, vegna auðseljanlegri verðbréfa, auka möguleika hins sameinaða verðbréfafyrirtækis á að vera áfram vettvangur fyrir markaðsaðila.


Fram kemur að Eignarhaldsfélagið muni áfram verða skráð íslenskt félag með heimilisfesti á Íslandi og að félagið muni lúta íslenskum lögum og eftirliti íslenskra yfirvalda. Það er sagt samræmast viðskiptastefnu OMX. OMX muni í kjölfar samrunans sækja um skráningu í Kauphöll Íslands hf. Gert sé ráð fyrir því að íslensk fyrirtæki verði hluti af norrænu kauphöllinni í byrjun árs 2007 og í kjölfar þess verði íslensk fyrirtæki sýnilegri á þeim vettvangi. Á sama tíma verði upplýsingum um íslenska markaðinn dreift með öðrum upplýsingum frá OMX og íslensk verðbréf verði hluti af vísitölum OMX. Vísitölur fyrir íslensk verðbréf muni áfram endurspegla þróunina á íslenska markaðnum.


Athugun Samkeppniseftirlitsins hefur ekki leitt í ljós nein atriði sem benda til þess að umræddur samruninn sé líklegur til að valda röskun á samkeppni hér á landi. Því er ekki ástæða til að aðhafast vegna samruna OMX AB og Eignarhaldsfélags Verðbréfaþings hf. á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga.

Ákvarðanir
Málsnúmer

42 / 2006

Dagsetning
14. nóvember 2006
Fyrirtæki

Eignarhaldsfélag Verðbréfaþings hf.

Kauphöll Íslands hf.

OMX AB.

Verðbréfaskráning Íslands hf.

Atvinnuvegir

Fjármálaþjónusta

Verðbréfastarfsemi

Málefni

Samrunamál

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.