Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samruni Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf.

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 10/2023
 • Dagsetning: 20/3/2023
 • Fyrirtæki:
  • Ísfélag Vestmannaeyja hf.
  • Rammi hf.
 • Atvinnuvegir:
  • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Sjávarútvegur og fiskvinnsla
 • Málefni:
  • Samrunamál
 • Reifun

  Samkeppniseftirlitið tók afstöðu til samruna Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf.

  Samruninn var tilkynntur með fullnægjandi hætti 10. febrúar 2023 og hófust lögbundnir frestir þá að líða. Rannsókninni lauk á fyrsta fasa þann 17. mars 2023.

  Það var niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki væru forsendur til íhlutunar. Þannig væru ekki vísbendingar fyrir hendi til þess að ætla að markaðsráðandi staða væri að myndast eða styrkjast á tilgreindum mörkuðum málsins eða samkeppni að raskast að öðru leyti.

  Samkvæmt upplýsingum í málinu myndu samrunaaðilar fara með rúm 8% af aflahlutdeild í þorskígildiskílóum, sem er undir 12,0% hámarki samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Aðrar upplýsingar í málinu um markaði fyrir botnfiskveiðar og uppsjávarveiðar, vinnslu á botnfiskafla, sölu á botnfiskafla á fiskmarkaði, beinan útflutning á botnfiskafla og úthlutað aflamark í skel og krabba gáfu ekki tilefni til frekari skoðunar.

  Í ákvörðuninni ar fjallað um samspil samkeppnislaga og ákvæða um hámark aflahlutdeildar í lögum um fiskveiðistjórnun. Það er verkefni Fiskistofu að fylgja eftir að farið sé að ákvæðum fiskveiðistjórnunarlaga um hámarks aflahlutdeild. Fyrir lá í málinu að aflahlutdeild samrunaaðila færi yfir hámarkshlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða varðandi loðnu en því var lýst yfir í málinu af hálfu samrunaaðila að gerðar yrðu ráðstafanir til að koma aflahlutdeild niður fyrir þau mörk í samræmi við lög um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Að því sögðu fer Samkeppniseftirlitið ekki með eftirlit vegna laga um stjórn fiskveiða. Gaf Fiskistofa umsögn í málinu og gerði ekki athugasemdir við samrunann.