Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup IS Haf fjárfestinga slhf., á að lágmarki 40% hlut í KAPP ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 46/2023
  • Dagsetning: 19/12/2023
  • Fyrirtæki:
    • Íslandsbanki hf.
    • KAPP ehf.
    • IS Haf fjárfestingar slhf.
    • Íslandssjóðir hf.
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
    • Vélar og tæki
    • Fjárfestingabankastarfsemi
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Þann 26. september 2023 var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um kaup IS Haf fjárfestingar slhf. (hér eftir „IS Haf fjárfestingar“) á að lágmarki 40% hlut í KAPP ehf. (hér eftir „KAPP“). Með tilkynningunni fylgdi styttri samrunaskrá í samræmi við 5. og 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga og reglur Samkeppniseftirlitsins nr. 1390/202, og upplýsti eftirlitið að samrunatilkynning teldist fullnægjandi. 

    Samkeppniseftirlitið telur ljóst að um sé að ræða svokallaðan samsteypusamruna þar sem samrunaaðilar starfa ekki á sama markaði. Samkeppnisleg áhrif skapast því ekki vegna aukinnar samþjöppunar eða lóðréttra áhrifa. Hins vegar liggur fyrir að mögulegir samkeppnisbrestir kunni að skapast vegna tengsla viðskiptabanka, þ.e. Íslandsbanka, við fyrirtæki í samkeppnisrekstri.

    Samkeppniseftirlitið hefur frá hruni beitt sér gagnvart samkeppnisbrestum sem stafað geta af eignarhaldi banka og lífeyrissjóða á atvinnufyrirtækjum, en eignarhald þessara aðila getur við tilteknar aðstæður skapað hættu á samkeppnishindrunum. Samruni þessi er þó ólíkur því þegar viðskiptabanki á beinan eignarhlut í fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Hér er um að ræða að dótturfélag Íslandsbanka, Íslandssjóðir, rekur fjárfestingarsjóð sem fjárfestir í fyrirtæki.

    Þrátt fyrir það lítur Samkeppniseftirlitið svo á að í eignarhaldi Íslandsbanka á Íslandssjóðum felist sterk tengsl sem geti undir vissum kringumstæðum verið grundvöllur samkeppnisbresta. Í því sambandi má nefna að hvati getur verið fyrir viðkomandi samstæðu að halda viðskiptum innan hennar og beina fyrirtækjum í viðskipti við fyrirtæki innan samstæðunnar. Meðal annars af þessum ástæðum hefur Samkeppniseftirlitið talið nauðsynlegt að setja skilyrði sem mæla fyrir um sjálfstæði þessara félaga gagnvart hverju öðru, þ.e. Íslandsbanka og Íslandssjóða. Með tölvupósti dags. 6. nóvember 2023, lýstu Íslandssjóðir yfir vilja sínum til að gangast undir sátt í málinu á grundvelli 17. gr. f samkeppnislaga með það að markmiði að sporna gegn skaðlegum hagsmunatengslum eða öðrum samkeppnishindrunum sem stafað gætu af eignarhaldi IS Haf fjárfestinga á KAPP og beinu og óbeinu eignarhaldi eigenda IS Haf fjárfestinga á öðrum atvinnufyrirtækjum.

    Íslandsbanki og Íslandssjóðir hafa áður gengist undir skilyrði sem ætlar er að tryggja óhæði á milli fyrirtækjanna, sbr. ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins nr. 21/2014, nr. 44/2017 og nr. 3/2019. Eru umræddar sáttir atviksbundnar að því leyti að þær varða viðkomandi fjárfestingasjóð, Íslandssjóði og þau atvinnufyrirtæki sem eiga hlut hverju sinni.

    Með ákvörðun þessari og þeirri sátt sem greinir í ákvörðunarorði hafa Íslandssjóðir og Samkeppniseftirlitið sammælst um skilyrði sem ætlað er að koma í veg fyrir neikvæð samkeppnisleg áhrif sem geta hlotist af yfirráðum Íslandssjóða og sjóða þess á fyrirtækjum á samkeppnismarkaði, með heildstæðri sátt sem ekki er atviksbundin og tekur á áðurnefndum atriðum og sömu hagsmunaárekstrum sem fyrri sáttir aðilanna hafa varðað, án tillits til þess hvaða fyrirtæki eða fjárfestingar eiga í hlut hverju sinni.

    Í máli þessu hafa Íslandssjóðir og IS Haf fjárfestingar því gengist undir skilyrði sem tryggja eiga meðal annars sjálfstæði KAPP og dótturfélaga, gagnvart Íslandsbanka Samkeppniseftirlitið lítur svo á að þar með sé komið í veg fyrir mögulegar samkeppnisraskanir sem annars kynnu að leiða af aðkomu samstæðu Íslandsbanka að samrunanum. Einnig lítur Samkeppniseftirlitið svo á að sáttin komi í veg fyrir mögulega röskun á samkeppni sem kynni að leiða af almennri aðkomu Íslandssjóða og Íslandsbanka að fyrirtækjum á samkeppnismarkaði og jafnvel keppinautum. Í síðari málum kunna þó tiltekin tengsl eða samþjöppun á mörkuðum að koma til sjálfstæðrar skoðunar, t.a.m. ef sjóðir í rekstri Íslandssjóða fjárfesta í keppinautum. Aðilarnir undirrituðu sáttina 12. desember 2023 og eru skilyrði hennar með þeim hætti sem greinir í ákvörðunarorði, sbr. 17. gr. f samkeppnislaga. Þarfnast þau ekki frekari skýringa.