Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Fóðurblöndunnar hf. á KHB-Miðbæ ehf.

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 58/2007
 • Dagsetning: 30/10/2007
 • Fyrirtæki:
  • Fóðurblandan hf.
  • Sindri-KHB byggingavörur ehf.
 • Atvinnuvegir:
  • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Landbúnaður
 • Málefni:
  • Samrunamál
 • Reifun

  Þann 29. júní 2007 barst Samkeppniseftirlitinu samrunaskrá þar sem tilkynnt var um að Fóðurblandan hf. hefði keypt viðskiptavild, vörulager og lausafé af KHB-Miðbæ ehf. Að mati Samkeppniseftirlitsins fólu kaupin í sér samruna í skilningi 4. og 17. gr. samkeppnislaga og fellur samruninn undir samrunaeftirlit 17. gr. laganna, þar sem veltuskilyrði eru uppfyllt.

  Samkeppniseftirlitið telur að með samrunanum skapist möguleiki á samþættingu á sölu á vörum og þjónustu samrunaaðila sem komi til með að styrkja stöðu hins sameinaða fyrirtækis á fóður- og áburðarmörkuðum.

  Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn geti, ef ekkert verður að gert, takmarkað núverandi samkeppni og einnig möguleika nýrra aðila til þess að koma inn á fóður- og áburðarmarkaði. Einnig er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn geti leitt til samtvinnunar vara og/eða þjónustu á mismunandi vöru- og þjónustumörkuðum með tilheyrandi hömlum á samkeppni. Af þessum ástæðum er samrunanum sett eftirfarandi skilyrði sem samrunaaðilar hafa sæst á að hlíta:

  1. Samrunaaðilum er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á fóðurvörum að kaupendur fóðurs kaupi jafnframt áburð og skilyrði fyrir kaupum á áburði að kaupendur áburðar kaupi jafnframt fóðurvörur. Ennfremur er samrunaaðilum óheimilt að verðleggja fóður sem boðinn er með áburði eða áburður sem boðinn er með fóðri þannig að verðlagning eða verðtilboð jafngildi skilyrði um að ein tegund vöru sé keypt með annarri.

  2. Samrunaaðilum er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á áburði eða fóðri að einhver önnur vara eða þjónusta sem þeir eða tengd fyrirtæki selja eða veita fylgi með í kaupunum. Ennfremur er samrunaaðilum óheimilt að verðleggja áburð og fóðurvörur með öðrum vörum eða þjónustu tengdra fyrirtækja þannig að verðlagning tilboða jafngildi skilyrði um að ein tegund vöru eða þjónustu sé keypt með annarri.

  3. Selji kaupfélög samrunaaðila áburð eða fóður í endursölu skal viðkomandi fyrirtæki gæta jafnræðis við ákvörðun um slíka endursölu á þann hátt að keppinautum á áburðar- og fóðurmarkaði standi jafnframt til boða að selja áburð og/eða fóður í viðkomandi kaupfélagi til jafns við Áburðarverksmiðjuna hf. og Fóðurblönduna hf. og/eða Bústólpa ehf.

  4. Séu fóðurvörur seldar ásamt áburði skal verð þeirra aðgreint. Sama gildir ef tengd fyrirtæki bjóða sínar vörur eða þjónustu ásamt áburði eða fóðurvörum.

  5. Skilyrði ákvörðunar þessarar taka til samrunaaðila og allra annarra fyrirtækja sem eru og verða til innan samstæðunnar.

  6. Brot á þessum skilyrðum varðar viðurlögum samkvæmt IX. kafla samkeppnislaga.“

  Um forsendur og röksemdir ákvörðunarinnar vísast að öðry leyti til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 58/2007.