Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Skýrslur

Skýrsla Norrænna samkeppnisyfirvalda - Samkeppni og efnahagskreppur

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 4/2009
 • Dagsetning: 10/9/2009
 • Fyrirtæki:

  Engin fyrirtæki finnast

 • Atvinnuvegir:

  Enginn atvinnuvegur finnst

 • Málefni:

  Engin málefni finnast

 • Reifun

  Það er sérstaklega mikilvægt á tímum efnahagsþrenginga að standa vörð um samkeppnina og beita í því skyni virkum og ströngum samkeppnisreglum. Lausnin á efnahagskreppum felst ekki í því að draga úr eða milda eftirlit með samkeppnishömlum.

  Þetta er meginniðurstaða norrænna samkeppniseftirlita í sameiginlegri skýrslu þeirra „Competition Policy and Financial Crises – Lessons Learned and the Way Forward”. Skýrslan var kynnt á fréttamannafundi í Reykjavík með forstjórum eftirlitanna í dag en nú stendur yfir á Íslandi árlegur fundur norrænna samkeppniseftirlita.

  Virk samkeppni og samkeppnisstefna er ein af forsendum norræna velferðarkerfisins

  Samkeppniseftirlit Íslands, Danmerkur, Finnlands, Grænlands, Noregs og Svíþjóðar hafa lagt mat á það hvaða áhrif efnahagsþrengingar, nú og á síðustu öld, hafa haft á samkeppnisstefnu þjóða og hvaða ályktanir megi draga af þeim áhrifum. Þar sem Norðurlöndin búa við tiltölulega lítil og opin efnahagskerfi er alþjóðleg samkeppnishæfni landanna nauðsynleg til að vernda og viðhalda hinu norræna velferðarkerfi. Hagvöxtur og nýsköpun er ein af forsendum þess að varðveita og auka megi þá samkeppnishæfni. Því takmarki verður best náð með því að stuðla að virkri samkeppni.

  Virk samkeppni er mikilvæg til þess að hraða efnahagsbata og mynda grundvöll fyrir atvinnusköpun og hagsæld

  Af fjármálakreppum fyrri tíðar má læra að aðgerðir sem miða að því að viðhalda og efla virka samkeppni stuðla að því að þjóðir vinni sig hraðar en ella upp úr efnahagslægðum. Einnig má sjá að aðgerðir sem fela í sér samkeppnishömlur hindra efnahagslegan bata og draga kreppur á langinn. Fyrri efnahagskreppur geyma dæmi um að gripið hafi verið til verndarstefnu og veikingar á samkeppnisreglum með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum efnahagsáfalla. Rannsóknir sýna hins vegar að slíkar aðgerðir hafa haft þveröfug áhrif, þ.e. dregið niðursveifluna á langinn. Með vísan í þessa reynslu leggja norrænu samkeppniseftirlitin höfuðáherslu á að í aðgerðum sem ætlað er að takast á við efnahagskreppuna verði höfð hliðsjón af áhrifum þeirra á samkeppni. Slíkt verði gert strax frá upphafi þannig að ekki þurfi að vinda ofan af aðgerðum sem skaða samkeppni til langvarandi tjóns fyrir neytendur og þjóðfélagið í heild.

  Tilvitnanir í forstjóra norrænu eftirlitanna í tilefni af skýrslunni:

  „Sagan sýnir að aðgerðir sem draga úr samkeppni ýta í reynd undir hina efnahagslegu erfiðleika og draga kreppuna á langinn umfram það sem vera þyrfti. Þess vegna verðum við að sjá til þess að aðgerðir sem gripið er til í því skyni að takast á við kreppuna séu þannig mótaðar að þær dragi ekki úr samkeppni.” (Knut Eggum Johansen, forstjóri norska samkeppniseftirlitsins)

  „Öflug samkeppni er nauðsynleg fyrir efnahagslífið, einnig í kreppum. Virk samkeppni stuðlar að skjótari efnahagsbata. Samkeppni tryggir að viðskipti og framleiðsla færast frá óhagkvæmum fyrirtækjum til hagkvæmra fyrirtækja og stuðlar þannig að efnahagslegum vexti.“ (Agnete Gersing, forstjóri danska samkeppniseftirlitsins)

  „Við þessar aðstæður getur verið freistandi fyrir stór fyrirtæki að nýta sér, og jafnvel misnota, ráðandi stöðu á markaðnum. Samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndunum munu ekki umbera brot á samkeppnislögunum.” (Dan Sjöblom, forstjóri sænska samkeppnis-eftirlitsins)

  „Hin norræna sýn á samkeppnismál sem nú er kynnt opinberlega, verður að hafa mikið vægi í því uppbyggingarferli sem Íslendingar standa frammi fyrir. Á sama tíma og áherslurnar falla vel að því sem Samkeppniseftirlitið hefur fengist við síðustu mánuði, er eftirlitinu mikill styrkur af þeirri sameiginlegu greiningu sem norræn stjórnvöld á þessu sviði hafa nú haft frumkvæði að.” (Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins)

  Skýrsluna má nálgast hér. Stutt samantekt fylgir á íslensku er hér. Íslenska þýðingu á niðurstöðukafla skýrslunnar má nálgast hér.