Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Skýrslur

Skýrsla norrænna samkeppnisyfirvalda um raforkumarkaðinn

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 2/2007
 • Dagsetning: 13/9/2007
 • Fyrirtæki:
  • Samkeppniseftirlitið
 • Atvinnuvegir:

  Enginn atvinnuvegur finnst

 • Málefni:

  Engin málefni finnast

 • Reifun

  Norræn skýrsla um raforkumarkaðinn
  Áherslur Samkeppniseftirlitsins á raforkumarkaði

  Tilurð norrænnar skýrslu um raforkumarkaði - bakgrunnsupplýsingar

  Miklar breytingar hafa orðið á raforkumörkuðum á Norðurlöndum á undanförnum árum með markaðsvæðingu raforkukerfisins. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessum sviptingum en íslenskir raforkukaupendur geta nú valið á milli raforkusala. Norrænar samkeppnisstofnanir tóku einnig saman skýrslu um raforkumarkaðinn fyrir árið 2003 en það ár tók Ísland ekki þátt. Var markaðsvæðing íslenska raforkukerfsins þá skammt á veg kominn. Með opnun markaðarins hér á landi og þeim breytingum sem orðið hafa í lagaumhverfi og orkuframleiðslu í Evrópu töldu norrænu samkeppniseftirlitin ástæðu til að taka upp þráðinn frá 2003 og ráðast í aðra úttekt á raforkumarkaðnum.

  Íslenskur raforkumarkaður – áherslur Samkeppniseftirlitsins

  Að mati Samkeppniseftirlitsins þarf að huga að aðgerðum sem miða að því að gera samkeppni á íslenskum raforkumarkaði virkari. Með vísan til hinnar norrænu skýrslu bendir Samkeppniseftirlitið á eftirfarandi leiðir til þess:

  * Taka þarf til umfjöllunar á vettvangi orkufyrirtækja og stjórnvalda að skilja með skýrari hætti milli einkaleyfis- og samkeppnisþátta raforkumarkaðarins, þ.e. flutnings og dreifingar annars vegar og framleiðslu og sölu hins vegar. Að mati Samkeppniseftirlitsins væri í bestu samræmi við markmið samkeppnislaga að skilja að eignarhald samkeppnis- og einkaleyfisþátta, en að lágmarki að skilja þessa starfsemi að í sjálfstæðum félögum.

  * Huga þarf að því að auka nákvæmni orkumælinga, m.a. með orkumælum sem senda frá sér upplýsingar um orkunotkun reglulega. Slíkar orkumælingar ættu að leiða til meiri fjölbreytni í verði á raforku eftir aðstæðum hverju sinni, auka verðvitund neytenda og samkeppni smásala, ásamt því að bæta nýtingu raforku.

  Hinn íslenski raforkumarkaður er að ýmsu leyti frábrugðinn öðrum norrænum raforkumörkuðum. Mun meira hefur verið fjárfest í orkuverum á Íslandi á umliðnum árum en á öðrum Norðurlöndum. Helgast það meðal annars af því að á Íslandi er mögulegt að virkja töluvert vatnsafl og jarðvarma með tiltölulega lágum tilkostnaði. Þá eru umtalsvert færri raforkusmásalar á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum auk þess sem hlutdeild stærsta framleiðandans í framleiðslu á rafmagni er mjög há.

  Hér á landi er einkaleyfis- og samkeppnisstarfsemi, þ.e. flutningur og dreifing annars vegar og framleiðsla og sala hins vegar, jafnan innan sama fyrirtækis. Þá reka dreifiveitur oftar en ekki einnig hita- og vatnsveitur á dreifisvæði sínu. Með þessu er stór hluti starfsemi fyrirtækjanna einkaleyfisstarfsemi sem getur bitnað á samkeppni þeirra á milli. Sömuleiðis eru smásalar raforku ekki margir á Íslandi og lítill hluti neytenda hefur skipt um smásala enn sem komið er.

  Helstu niðurstöðu norrænu skýrslunnar

  Töluverð samþjöppun er á Norðurlöndunum á ýmsum sviðum raforkumarkaðarins. Fjöldi smásala er misjafn en að meginstefnu til er orkuframleiðsla í höndum fárra stórra fyrirtækja. Samþjöppun hefur þó ekki aukist verulega á undanförnum árum. Alla jafna er töluvert um sameiginlegt eignarhald og krosseignarhald í raforkugeiranum á Norðurlöndum en því geta fylgt ýmis samkeppnisleg vandamál.

  Framleiðsla hefur ekki aukist í takt við eftirspurn á öðrum Norðurlöndum en Íslandi. Helgast það af ýmsum ástæðum. Almennt má segja að erfitt sé að byggja ný orkuver vegna ýmissa lagalegra kvaða. Mikilvægt er að umgjörð raforkumarkaðarins sé með þeim hætti að hagkvæmar ákvarðanir séu teknar um framtíðaruppbyggingu raforkukerfisins.

  Orkuverð hefur verið mjög breytilegt á Norðurlöndum. Helgast það af ýmsum ástæðum. Vatnabúskapur og breytingar í regluverki, m.a. mengunarkvótar, hafa spilað þar nokkra rullu.

  Fjárfestingar í flutningskerfum hafa víða verið ófullnægjandi á Norðurlöndum. Telja Norrænu samkeppniseftirlitin að nauðsynlegt sé að regluverkið styðji við hæfilegt magn fjárfestingar þar sem gott flutningskerfi er ein af forsendum samkeppni á raforkumarkaði. Jafnframt þurfa að felast hvatar í regluverki flutningskerfisins til þess að halda niðri kostnaði.

  Til þess að tryggja að flutningsfyrirtæki og dreifiveitur mismuni ekki viðskiptavinum sínum er æskilegt að skilja að einkaleyfis- og samkeppnisrekstur. Telja samkeppniseftirlit á Norðurlöndum að heppilegast sé að skilja að eignarhald samkeppnis- og einkaleyfisþátta á raforkumarkaði. Sé það ómögulegt er félagslegur aðskilnaður æskilegur.

  Mesta vandamál smásölu á raforkumarkaði er verðvitund neytenda. Fáir hafa skipt um raforkusmásala á sumum Norðurlandanna, sér í lagi á Íslandi. Til þess að auka verðvitund neytanda myndu raforkumælar sem senda reglulega frá sér upplýsingar um notkun vera æskilegir að því gefnu hægt sé að koma þeim upp án óhóflegs kostnaðar. Neytendur gætu þá lagað sig betur að raforkuverðum sem myndi stuðla að hagstæðari kjörum þeirra og betri nýtingu raforku.

  „Virkja þarf krafta samkeppninnar á raforkumarkaði”

  Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segist vænta þess að skýrsla norrænu samkeppniseftirlitanna sé gagnlegt innlegg í umræðu um samkeppni á raforkumarkaði hér á landi. „Á litlum og einangruðum raforkumarkaði eins og okkar þurfa stjórnvöld og orkufyrirtæki stöðugt að leita leiða til að efla samkeppni almenningi til hagsbóta. Skýrari aðskilnaður milli einkaleyfis- og samkeppnisstarfsemi raforkufyrirtækja og nákvæmari og tíðari raforkumælingar geta skipt máli í þessu sambandi”.