Spurningar og svör varðandi forverðmerkingar á kjötvörum

questionMarkIcon_smallLeiða breytingarnar til þess að vörur verði ekki verðmerktar?

Ekkert í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kallar á að matvörur séu ekki forsvaranlega verðmerktar. Um verðmerkingar gilda lög nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og reglur nr. 725/2008, um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar. Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd þessara reglna. Matvöruverslunum ber að sjálfsögðu að verðmerkja vörur sínar í samræmi við gildandi lög og reglur. Þetta er áréttað sérstaklega í fyrrgreindri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Dæmi eru um að starfsmenn og forsvarsmenn Bónuss hafi réttlætt ófullnægjandi verðmerkingar í verslunum sínum með því að vísa til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt framangreindu á sú skýring ekki við rök að styðjast.


questionMarkIcon_smallHvernig verða kjötvörur verðmerktar hér eftir?

Það er matvöruverslana að sjá til þess að verðmerkingar séu forsvaranlegar og í samræmi við reglur Neytendastofu. Sem dæmi má nefna að matvöruverslanir geta verðmerkt pakkningar sem eru að staðlaðri þyngd (allar jafn þungar) með hillumerkingu eða merkingu við pinna (t.d. fyrir áleggspakkingar) eins og tíðkast um fjöldamargar dagvörur. Einnig geta matvöruverslanir verðmerkt hverja og eina pakkningu sjálfar. Verslanir hafa frest til 1. júní nk. til þess að útfæra verðmerkingar á óstöðluðum vörum (t.d. lambalærum, kjúlingabringum í bakka o.fl.). Neytendastofa er nú að huga að breytingum á reglum um verðmerkingar þar sem kveðið verður á um það hvernig nýta megi strikamerki við verðmerkingar á óstöðluðum vörum. Er þá átt við að svokallaðir verðskannar (eða strikalesarar) séu aðgengilegir fyrir viðskiptavini verslana þannig að þeir geti borið strikamerki upp strikalesurunum og á þann hátt fengið upplýsingar um verð hverrar vörueiningar jafnvel þó hver pakkning sé mismunandi að þyngd.


questionMarkIcon_smallVerður erfiðara fyrir neytendur að átta sig á verði á þessum vörum hér eftir?

Nei, ekki ef matvöruverslanir fara að lögum og reglum við verðmerkingar. Matvöruverslunum ber að tryggja að verðmerking sé skýr, aðgengileg og greinileg svo augljóst sé til hvaða vöru eða þjónustu verðmerkingin vísar.

Að einu leyti a.m.k. verður það þvert á móti auðveldara fyrir neytendur að átta sig á smásöluverðinu. Þannig mun stórlega draga úr því að neytendur þurfi að beita prósentureikningi í huganum vegna mismunandi afsláttar sem tíðkast hefur að veita, en prósentuafsláttur hefur oft verið veittur frá verði sem jafnvel aldrei hefur verið í gildi.


questionMarkIcon_smallHafa breytingarnar áhrif á merkingar á þyngd eða sölu-/neysludegi?

Ekkert í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gefur tilefni til þess. Kjötvinnslufyrirtæki merkja vörur sínar áfram með þyngd, framleiðsludegi og síðasta sölu- eða neysludegi.


questionMarkIcon_smallLeiða breytingarnar til lægra verðs á viðkomandi vörum?

Breytingarnar skapa grundvöll fyrir virkari verðsamkeppni milli verslana með þessar vörur. Verðkannanir hafa ítrekað sýnt að verð á forverðmerktum kjötvörum hefur undantekningarlítið verið hið sama milli keppinauta í matvöruverslun. Hér eftir mun hver verslun eða verslunarkeðja ákveða verð á sínum vörum sjálfstætt. Til lengri tíma á sú samkeppni að leiða til lægra verðs en ella hefði verið.


questionMarkIcon_smallLeiða breytingarnar til hærra verðs á viðkomandi vörum?

Því hefur verið haldið fram að breytingarnar leiði til umfangsmikils kostnaðarauka fyrir verslanir, sem nú þurfi að ráðast í dýrar breytingar í verslunum sínum og annast verðmerkingar með óhagkvæmari hætti en áður. Samkeppniseftirlitið telur ekki að svo þurfi að vera. Þannig benda athuganir Samkeppniseftirlitsins t.d. ekki til þess að svokallaðir verðskannar séu fjárfesting af því tagi að hún þurfi að hafa áhrif á verð verslana á viðkomandi vörum. Þá er rétt að benda á að nú þegar kjötvinnslufyrirtæki hætta að verðmerkja vörur með tilheyrandi kostnaði, ætti jafnvel að skapast svigrúm til lækkunar á heildsöluverði viðkomandi vara, enda leggjast af ítarleg samskipti kjötvinnslufyrirtækja og matvöruverslana um smásöluverð.

Hér skiptir hins vegar máli hvaða leiðir verslanir velja við verðmerkingar. Ætla verður að þær leiti hagkvæmra leiða í því sambandi.


questionMarkIcon_smallEr Högum yfirhöfuð bannað að gefa afslætti?

Ákvörðunin takmarkar á engan hátt svigrúm Haga eða annarra verslana til að bjóða afslætti frá verði sem í gildi hefur verið og neytendum hefur staðið til boða. Hin ógagnsæja verðlagning, sem felst í því að afslættir eru boðnir frá verði sem aldrei hefur verið í gildi, á hins vegar að heyra sögunni til.

Mikilvægt er fyrir neytendur að hafa í huga að margar verslanir (sérstaklega lágvöruverðsverslanir) hafa lengi boðið fastan 5-10% afslátt af forverðmerktum kjötvörum. Munu þessir afslættir sem fyrr segir heyra sögunni til. Vara sem áður var t.d. forverðmerkt á 1.000 kr. ætti því eftir breytingarnar að vera verðmerkt af verslun á 900 kr. ef til þessa hefur verið veittur 10% fastur afsláttur af vörunni í umræddri verslun.


questionMarkIcon_smallMun vöruúrval minnka?

Sumir aðilar á matvörumarkaði halda þessu fram. Samkeppniseftirlitið fær ekki séð að breytingar á verðmerkingum leiði til þess óhagræðis í verslunum að þær þurfi að minnka vöruúrval.


questionMarkIcon_smallEr hægt að treysta því að vörur sem kallaðar eru staðlaðar og eru merktar á hillu séu í raun allar í sömu þyngd?

Mörg kjötvinnslufyrirtæki búa yfir tækjabúnaði sem gerir þeim kleift að staðla þyngd vöru með nákvæmum hætti, eða innan skekkjumarka sem þau hafa samkvæmt reglum. Breytingarnar munu að líkindum leiða til þess að kjötvinnslufyrirtæki muni hér eftir staðla þyngd á fleiri vörum en hingað til hefur tíðkast. Það er til hagsbóta fyrir neytendur.


questionMarkIcon_smallÞurfa kjötvinnslufyrirtæki taka til baka vörur sem eru forverðmerktar en hafa ekki verið seldar fyrir 1. mars?

Nei, ekkert í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kallar á það.


questionMarkIcon_smallMega framleiðendur eða birgjar, aðrir en kjötvinnslufyrirtæki, merkja smásöluverð samkvæmt fyrirmælum matvöruverslana, t.d. vörur sem seldar eru undir merkjum viðkomandi verslana? (einn birgir – einn endursöluaðili)

Rannsókn á forverðmerkingum kjötvara leiddi í ljós að til grundvallar forverðmerkingunum lágu samskipti milli Haga og viðkomandi kjötvinnslufyrirtækja sem fólu í sér brot á samkeppnislögum. Til þess að vinna gegn þessum brotum og skapa skilyrði fyrir virkri samkeppni féllust viðkomandi fyrirtæki á að hlíta banni við forverðmerkingum á þessu sviði.

Samkeppnislög leggja ekki afdráttarlaust bann við því að framleiðendur eða birgjar merki vörur með smásöluverði sérstaklega fyrir tilteknar matvöruverslanir eða aðra endursöluaðila, ef hið merkta smásöluverð er alfarið ákveðið af hinum síðarnefnda. Reynslan sýnir hins vegar að slíkt verklag getur leitt til ólögmætra samskipta milli framleiðanda eða birgis annars vegar og smásöluverslunar og endursöluaðila hins vegar. Það er ávallt á ábyrgð viðkomandi aðila að tryggja að slíkt hendi ekki.


questionMarkIcon_smallMega birgjar merkja vörur sínar með leiðbeinandi smásöluverði? (einn birgir – margir endursöluaðilar)

Með vísan til niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í ákvörðun nr. 33/2010 er mikilvægt að gæta að því að engin samskipti  eða samvinna eigi sér stað á milli sölustiga, t.d. á milli heildsala og smásala, um smásöluverð eða afslátt frá smásöluverði (lóðrétt verðsamráð). Það er meginregla í samkeppnisrétti að smásali ákveði sjálfur smásöluverð á þeim vörum sem hann tekur í sölu.

Samkeppnislög banna hins vegar ekki afdráttarlaust að birgjar gefi út leiðbeinandi smásöluverð eða merki vörur sínar með leiðbeinandi smásöluverði. Slík háttsemi getur átt rétt á sér í vissum tilvikum, en skoða þarf hvert tilvik í því sambandi. Eitt af því sem gæta verður að er að slíkar verðmerkingar hafa oft leitt til þess að nær allir endursöluaðilar bjóði slíkar vörur við hinu leiðbeinandi verði. Verðmerkingar af því tagi kunna að takmarka verðsamkeppni milli og fara gegn 10. gr. samkeppnislaga.


questionMarkIcon_smallHvert get ég tilkynnt ef ég tel að verðmerkingar matvöruverslana uppfylli ekki lög og reglur?

Samkeppniseftirlitið veitir nánari upplýsingar um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 33/2010 og skilyrði hennar. Neytendastofa tekur hins vegar við ábendingum um ófullnægjandi verðmerkingar í verslunum.