25.5.2012

Bann við því að birgjar forverðmerki kjötvörur í smásölu hefur aukið samkeppni

Pistill nr. 4/2012

Steingrímur Ægisson sviðsstjóri hjá SamkeppniseftirlitinuÝmsir hafa orðið til þess að lýsa yfir efasemdum við að Samkeppniseftirlitið lagði bann við því á síðasta ári að kjötvinnslufyrirtæki forverðmerktu kjötvörur fyrir verslanir. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku undraðist Óðinn þetta „stórfurðulega bann“ og setti fram efasemdir um hagsmunamat og forgangsröðun Samkeppniseftirlitsins. Taldi Óðinn vísbendingar um að bann við forverðmerkingum birgja hafi leitt til meiri verðhækkunar á kjötvörum til neytenda en á öðrum neysluvörum.

Forverðmerkingar sköðuðu samkeppni og neytendur

Hér skal rifjað upp að forverðmerkingar á kjötvörum voru bannaðar eftir að rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós alvarlegt ólögmætt samráð helstu kjötvinnslufyrirtækja við stærstu matvörukeðju landsins. Í þeirri samvinnu var oft og tíðum samið í einu lagi um hvaða verð ætti að setja á vöruna, hvaða afslætti ætti að bjóða frá því verði og jafnvel hver framlegðin ætti að vera fyrir verslunina.
 
Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá því í febrúar á þessu ári er mat Samkeppniseftirlitsins á alvarleika brotanna staðfest. Jafnframt er fallist á að fyrirmæli eftirlitsins um bann við forverðmerkingum hafi verið nauðsynleg og að ekki hafi verið unnt að komast af með vægari úrræði.

Bann við forverðmerkingum hefur aukið verðsamkeppni

Afleiðingar samráðsins voru m.a. þær að samkeppni um smásöluverð á kjötvörum sem verðmerktar voru af kjötvinnslufyrirtækjum var mjög takmörkuð í mörgum vöruflokkum. Þessi staða hefur gjörbreyst eftir að bann við forverðmerkingum á umræddum vörum tók gildi. Í frétt á heimasíðu ASÍ frá 3. maí sl. er greint frá því að verðmunur á milli verslana hafi aukist mikið á kjötvörum frá því breytingarnar tóku gildi. Er þar vísað til nýrrar könnunar ASÍ þar sem í ljós kom 10-30% verðmunur milli verslana á kjötvörum sem áður voru forverðmerktar. Skömmu eftir breytingarnar, eða í maí 2011, var þessi munur 6-20% samkvæmt könnun sem þá var gerð. Að mati ASÍ staðfestir þessi samanburður að samkeppni í sölu á þessum matvörum hafi aukist við tilkomu breytinganna.

Bann gegn forverðmerkingum hefur líklega dregið úr verðhækkun á kjötvörum

Meiri samkeppni á að jafnaði að leiða til lægra verðs en ella hefði orðið. Samkeppniseftirlitið hefur reynt að meta áhrif þess á verð að forverðmerkingum kjötvara var hætt. Þannig skoðaði eftirlitið verðupplýsingar í desember 2011. Í ljós kom að verðhækkun á kjöti og kjötvörum var um 13% í smásölu samkvæmt vísitölumælingu Hagstofunnar árið 2011. Af þessu er verðhækkun á fersku og frosnu kjöti sínu meiri eða um 15-25%. Athyglisvert var að verðhækkun á meira unnum kjötvörum úr þessum tegundum (s.s. áleggi, reyktu og pökkuðu kjöti o.fl.) var aðeins um 6% að meðaltali. Þessi síðarnefndi vöruflokkur samanstendur nær eingöngu af vörum sem áður voru forverðmerktar af birgjum þó bæði ferskt og frosið kjöt hafi áður verið verðmerkt af framleiðendum í nokkrum mæli.

Þær upplýsingar sem aflað var um hækkun á afurðaverði til bænda og hækkun á verði frá kjötvinnslufyrirtækjum til smásala bentu til að sú hækkun hafi verið um 15-25% á árinu 2011. Virtist það því heldur meiri verðhækkun en að meðaltali í smásölu eins og rakið er hér að ofan. Af þessu má sjá að sterkar vísbendingar eru um að bann við forverðmerkingum í smásölu hafi aukið þar samkeppni í sölu á kjötvörum og verðhækkun ekki orðið eins mikil og ef föst smásöluálagning hefði bæst ofan á heildsöluverð kjötvinnslna eins og áður var raunin.

Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins bendir Óðinn á það, með réttu, að „búvörur án grænmetis“ (sem að stórum hluta eru kjötvörur) hafi hækkað mikið á fyrri hluta árs 2011 eða um svipað leyti og flestir kjötbirgjar hættu að forverðmerkja kjötvörur. Frá miðju ári 2011 hefur verðþróun á þessum vörum hins vegar verið svipuð og á öðrum neysluvörum eins og mynd Óðins sýnir.

Að mati Samkeppniseftirlitsins verður sú ályktun ekki dregin af tölum Óðins að bann gegn forverðmerkingum kjötvinnslustöðva hafi leitt til hærra verðs, heldur hafi aðrir áhrifaþættir, s.s. verðhækkun á matvörum almennt og hækkun á afurðaverði til bænda, spilað þar inn í. Þvert á móti má draga þá ályktun að hækkunin hefði orðið meiri ef ekki hefði komið til bann við því að kjötbirgjar verðmerktu fyrirfram kjötvörur fyrir smásöluverslanir þar sem verðhækkunum frá framleiðendum og kjötvinnslufyrirtækjum hefði þá jafnóðum verið velt beint út í verðlagið.

Fylgja þarf breytingunum vel eftir

Samkeppniseftirlitið hefur kallað eftir því við hagsmunasamtök og stjórnvöld sem að málinu koma að þau gæti vel að því að breytingarnar komi neytendum til góða. Ljóst er að ýmsar verslanir hafa ekki staðið eins vel að verðmerkingum og æskilegt hefði verið. Neytendastofa hefur hins vegar stuðlað að bættum verðmerkingum með breytingum á reglum um þær. Eins og kunnugt er sinnir Neytendastofa lögbundnu eftirliti með verðmerkingum í verslunum.

Þótt efasemdir hafi komið fram um hvernig til hafi tekist, getur enginn sem hefur kynnt sér málið haldið því fram að það væri betra fyrir neytendur að hverfa til fyrra horfs. Bendir Samkeppniseftirlitið áhugasömum á að kynna sér upplýsingar um málið á heimasíðu eftirlitsins.

Þá ættu allir að geta verið sammála um mikilvægi þess að ryðja úr vegi ólögmætu samráði sem setur neytendur í vonlausa stöðu svipaðri þeirri sem í ljós kom í þessu máli. Að minnsta kosti mun Samkeppniseftirlitið áfram leggja á það áherslu í forgangsröðun sinni að ryðja slíkum hindrunum úr vegi.

 

Steingrímur Ægisson
Sviðsstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu

 

[Pistill þessi er birtur sem grein í Viðskiptablaðinu þann 24. maí 2012.]