Samkeppni í kreppum
Pistill nr. 5/2020
Þessa mánuðina eru allflest lönd í heiminum að ganga í gegnum kreppu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að verg landsframleiðsla dragist saman um 6,6% í Evrópu og 7,2% á Íslandi á árinu 2020 og aukist um 4,5% í Evrópu og 6% á Íslandi á árinu 2021. Til að stuðla að sem mestum bata er mikilvægt að stjórnvöld beiti öllum þeim tækjum sem þau búa yfir á skynsaman hátt, og hafi jafnframt í huga hvaða aðgerðir hafa reynst illa við að styrkja efnahagslífið og velferð almennings í kreppum.
Verndarstefna dýrkeypt
Í kreppum kemur iðulega upp sú umræða að vernda þurfi innlenda atvinnustarfsemi til að halda fyrirtækjum í rekstri og fólki í vinnu. Reynslan hefur hins vegar sýnt að verndarstefna er slæm leið til þess. Að loka markaði af frá utanaðkomandi samkeppni gerir fyrirtækjum kleift að hækka verð, minnka framleiðslu og vanrækja vöruþróun sem leiðir að lokum til enn dýpri og lengri kreppu. Í því samhengi má nefna að það hefur verið metið að framleiðni myndi lækka um 13% ef gripið yrði til þess ráðs að stöðva viðskipti á milli Evrópusambandsríkjanna, s.s. vegna verndarstefnu.
Kreppan mikla
Í kreppunni miklu sannfærðu iðnjöfrar Roosevelt forseta um að nauðsynlegt væri að draga úr samkeppniseftirliti og auka samstarf fyrirtækja. Áhrif þessa hafa m.a. verið metin svo að heildsöluverð hafi verið 24% hærra en ella árið 1935 vegna breytinganna. Breytingarnar, ásamt kröfum um að laun ættu einnig að vera yfir markaðsverði, eru talin hafa leitt til 25% hærra atvinnuleysis og að kreppan hafi staðið yfir allt að sjö árum lengur en ella. Árið 1938 breyttu bandarísk yfirvöld um stefnu og lögðu áherslu á að samkeppni og beiting samkeppnisreglna væri nauðsynleg til þess að tryggja efnahagslegar framfarir og velferð almennings. Bati sem hófst í bandarísku efnahagslífi í framhaldinu hefur verið rakinn til þessa.
Óeðlileg forgjöf
Sem viðbrögð við núverandi kreppu eru stjórnvöld í þeim löndum, sem hafa færi á, að grípa til ýmissa aðgerða til þess að styðja fólk og fyrirtæki. Til að tryggja að sá stuðningur raski ekki samkeppni þurfa ríki á evrópska efnahagssvæðinu að fylgja regluverki um ríkisstuðning. Þrátt fyrir að stuðningurinn uppfylli hið evrópska regluverk verða íslensk stjórnvöld hins vegar að gæta þess að stuðningurinn og útfærsla hans sé með þeim hætti að hann veiti hvorki einstökum fyrirtækjum eða atvinnugreinum óeðlilega forgjöf.
Leiðin áfram
Á undanförnum áratug tókst íslenskum stjórnvöldum að mörgu leyti vel til í viðbrögðum sínum við fjármálakreppunni sem hófst á árinu 2008. Ekki var farin sú leið að vernda innlenda markaði heldur hafa tollar verið afnumdir og lækkaðir auk þess sem samkeppnislögin voru styrkt árið 2011. Þá voru íslensk stjórnvöld einbeitt í því að nema úr gildi gjaldeyrishöft og krefjast þess að endurreist fjármálafyrirtæki virtu kröfur samkeppnislaga. Þessu til viðbótar hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, í samstarfi við Samkeppniseftirlitið, haft umsjón með matsverkefni OECD sem miðar að því greina og meta regluverk með tilliti til þess hvort það hamli samkeppni, og koma auga á leiðir til úrbóta.
Til að styrkja íslenskt efnahagslíf og velferð almennings til framtíðar er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að opna markaði, betrumbæta regluverk og tryggja að umgjörð íslenskra samkeppnisyfirvalda veiti þeim svigrúm til þess að efla virka samkeppni. Jafnframt ber að huga að því við útfærslu ríkisstuðnings að ávallt sé valin sú leið sem raskar samkeppni hvað minnst, fyrirtækjum sé ekki mismunað með ómálefnalegum hætti, fyrirtæki nýti sér ekki ríkisstuðning til samkeppnishamlandi uppkaupa á keppinautum, eignir séu seldar með gagnsæjum hætti við endurskipulagningu fyrirtækja, spornað sé við óæskilegum stjórnunar- og eignartengslum og svigrúm til að efla samkeppni verði nýtt. Framangreindar aðgerðir munu tryggja hvað best velsæld hér á landi til lengri tíma.
Valur Þráinsson
Aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins
Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 22. apríl 2020