6.7.2019 Valur Þráinsson

Samkeppni styður heimsmarkmiðin

Pistill nr.11/2019

Í september árið 2015 voru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ( un.is/heimsmarkmidin ) samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna en þau taka til 17 markmiða sem miða öll að sjálfbærri þróun. Íslensk stjórnvöld vinna nú að innleiðingu markmiðanna en eitt af fimm meginþemum þeirra er hagsæld. Við fyrstu sýn mætti ætla að samkeppni og heimsmarkmiðin ættu lítið sameiginlegt. Samkeppni hefur hins vegar bein áhrif á að minnsta kosti sex af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Engin fátækt og aukinn jöfnuður


Fyrsta markmiðið snýr að því að útrýma fátækt eigi síðar en árið 2030 og tíunda markmiðið snýr að því að draga úr ójöfnuði í heiminum. Virk samkeppni stuðlar að þessum tveim markmiðum þar sem skert samkeppni hækkar verð sem rýrir hvað mest ráðstöfunartekjur þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem lægstar hafa tekjurnar. Skert samkeppni leiðir einnig til meðal annars aukins hagnaðar fyrirtækja. Þar sem tekjulægri hópar eiga hvað minnstar eignir rennur því sú renta sem skapast vegna minni samkeppni í minni mæli til þeirra. Rannsókn samkeppnisdeildar OECD frá árinu 2015, sem tók til 28 OECD-ríkja, leiddi þetta í ljós. Þannig reyndist sá tíundi hluti heimila sem mestar hafði eignir eiga að meðaltali 52% af eignum allra heimila, en sex tíundu hlutar (60%) heimilanna sem eignaminnst voru eiga aðeins rúmlega 12% eignanna.

Sjálfbær hagvöxtur og arðbær störf


Áttunda markmiðið snýr að því að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Áhrif samkeppni á hagvöxt eru þekkt og endurspeglast meðal annars í því að um og yfir 130 ríki hafa sett sér samkeppnislög og leggja flest áherslu á frjáls og opin viðskipti. Í því samhengi má meðal annars nefna nýlegar reynslurannsóknir Gutman og Voigt og Petersen sem komast að þeirri niðurstöðu að hagvöxtur sé hærri í þeim löndum sem hafa sett sér samkeppnislög. Viðskipti á milli landa eru hér einnig mikilvæg en samkvæmt OECD má rekja um 36% af störfum á Íslandi til framleiðslu vara og þjónustu sem eru fluttar út á erlendra markaði.

Nýsköpun og uppbygging


Níunda markmiðið snýr að því að byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun. Virk samkeppni stuðlar að öllum þessum þáttum með því meðal annars að ýta óskilvirkum fyrirtækjum út af mörkuðum og tryggja að þau fyrirtæki sem standa sig sem best í samkeppni fái að vaxa og dafna. Opnir markaðir tryggja jafnframt aukna hvata fyrir fyrirtæki til nýsköpunar á meðan einokun og mikil samþjöppun hafa þveröfug áhrif.

Loftslagsmál, sjálfbærar borgir og samfélög


Ellefta markmiðið snýr að því að gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg. Þrettánda markmiðið snýr svo að bráðaaðgerðum gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Af þessum markmiðum mun líklega leiða að ríki heims muni í auknum mæli setja frekari lög og reglur um nýtingu auðlinda, aukna mengunarskatta og e.a. niðurgreiða starfsemi sem stuðlar að þessum markmiðum. Í því samhengi eru samkeppnisreglur mikilvægar, annars vegar með því að vinna gegn því að aðgerðir stjórnvalda raski ekki samkeppni og hins vegar að stuðla að því að fyrirtæki keppi sín á milli. Hvort tveggja stuðlar að því að auðlindir verði nýttar á sem hagkvæmastan hátt sem er forsenda fyrir sjálfbærum samfélögum.

Íslensk stjórnvöld vinna nú að því að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Eins og umfjöllunin ber með sér er mikilvægt að samkeppni sé virk á sem flestum mörkuðum til þess að markmiðin náist. Leið stjórnvalda að heimsmarkmiðunum felst meðal annars í því að opna markaði enn frekar, greiða fyrir samkeppni með því að draga úr samkeppnishömlum, þar á meðal með virkum og heildstæðum samkeppnislögum og með því að bæta regluverk svo það raski ekki samkeppni umfram það sem nauðsynlegt er.

Höfundur er Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins.

Pistill þessi birtist sem grein í Fréttablaðinu 13. nóvember 2019