4.3.2020 Valur Þráinsson

Samkeppniseftirlit í breyttum heimi

Pistill nr.2/2020

Á sl. misserum hafa komið fram auknar kröfur frá stjórnmála- og atvinnulífi, hérlendis og erlendis, um að samkeppnisyfirvöld þurfi að skilja betur virkni stafrænna markaða og bregðast tímanlega við finnist þar samkeppnisvandamál. Hér á landi birtist umræðan m.a. í kröfum um breytta nálgun við framkvæmd samkeppnislaga til að gera íslenskum fyrirtækjum kleift að bregðast við aukinni erlendri samkeppni.

Það er skiljanlegt að þessi mál séu í deiglunni enda hafa umsvif stórra tæknifyrirtækja aukist umtalsvert. Sem dæmi má nefna að samanlögð velta Google, Amazon, Facebook og Apple hefur sexfaldast á milli áranna 2010 og 2019 en þessi fyrirtæki hafa verið umsvifamikil í uppkaupum á öðrum fyrirtækjum. Þannig hefur Google t.d. keypt að meðaltali rúmlega eitt fyrirtæki á mánuði frá aldamótum.

Við úrlausn á þessum álitaefnum býr Ísland að því að vera hluti af Evrópska efnahagssvæðinu en samkeppnisreglur og beiting þeirra er í öllum meginatriðum hin sama auk þess sem Samkeppniseftirlitið tekur þátt í samstarfi á þeim vettvangi. Þannig nýtur íslenskur almenningur og atvinnufyrirtæki á ýmsan hátt aðgerða stærri eftirlitsstofnana í Evrópu.

Vinna samkeppnisyfirvalda

Samkeppnisyfirvöld í Evrópu hafa á sl. árum aðhafst töluvert á mörkuðum þar sem tæknifyrirtæki starfa. Þannig hefur t.d. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sektað Google þrisvar um samtals 140 milljarða íslenskra króna á sl. þrem árum fyrir samkeppnislagabrot.

Einnig hafa fjölmörg samkeppnisyfirvöld ráðist í rannsóknir og greiningar á stafrænum mörkuðum sem Samkeppniseftirlitið getur byggt á í sínu starfi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þýsk, bresk, frönsk og ítölsk samkeppniseftirlit hafa t.d. staðið að greiningum á þessu sviði. Hinu sama gegnir um bandarísk, kanadísk og áströlsk samkeppnisyfirvöld. Um þessar mundir tekur Samkeppniseftirlitið þátt í samstarfi norrænna samkeppnisyfirvalda sem miðar að sameiginlegum áherslum á þessu sviði.

Helstu niðurstöður

Í þeim skýrslum sem birtar hafa verið er að finna ákveðinn samhljóm. Þannig er áhersla á að tæknifyrirtækin og þeir markaðir sem þau starfa á hafi almennt haft jákvæð áhrif á neytendur og framleiðni og stjórnvöld þurfi að gæta að því í stefnumörkun sinni. Einnig er bent á að markaðir sem netfyrirtæki starfa á séu oft á tíðum óhefðbundnir þar sem þeir einkennast af miklu netáhrifum, skala- og breiddarhagkvæmni, mikilli nýsköpun, auk þess sem verð fyrir þjónustu sem notendur nýta sér er oft á tíðum ekki til staðar. Skapar fyrrgreint umtalsverðar áskoranir fyrir samkeppnisyfirvöld.

Styrking samkeppnisreglna

Í mörgum framangreindra skýrslna eru settar fram tillögur um styrkingu samkeppnisreglna. Í fyrsta lagi kemur til álita að snúa sönnunarbyrði við í málum sem varða fyrirtæki í mjög sterkri stöðu. Þau þurfi því að réttlæta háttsemi sína í stað þess að samkeppnisyfirvaldið þurfi að sanna skaðlegu áhrifin. Í öðru lagi að í samrunarannsóknum verði lögð aukin áhersla á að skoða hvort viðkomandi tæknifyrirtæki séu að kaupa upp mögulegan keppinaut. Og í þriðja lagi að tryggja að samrunar sem falla undir veltumörk séu tilkynntir til samkeppnisyfirvalda.

Á meðal aðildarríkja Evrópusambandsins er einnig til umræðu og skoðunar að styrkja heimildir samkeppnisyfirvalda til þess að efla virkni markaða án þess að fyrirtæki hafi brotið samkeppnislög. Er það í takt við niðurstöðu sérfræðingahóps Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar í Davos frá því í desember sl. en þar var bent á að þesskonar heimildir gætu verið ómetanlegar og nauðsynlegar til þess að bregðast við vandamálum á mörkuðum sem snerta þá í heild sinni og stafa ekki af brotum á samkeppnislögum. Á Íslandi hefur slík heimild verið til staðar frá árinu 2011 og í Bretlandi frá árinu 2001. Í frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum sem kynnt var síðastliðið haust var lagt til að sú heimild yrði lögð niður. Gengur það þvert á þá umræðu sem nú fer fram í löndunum í kringum okkur.

Valur Þráinsson

Aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins

Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 4.mars 2020