24.6.2020 Valur Þráinsson

Samkeppnishæfara Ísland

Pistill nr. 6/2020

Mikil óvissa ríkir nú um framvindu efnahagsmála um heim allan. Líkt og í kjölfar hrunsins 2008 er óvissa um hvaða atvinnuvegir muni styrkja stoðir íslensks efnahagslífs til framtíðar. Jafnframt standa mörg fyrirtæki frammi fyrir sambærilegum áskorunum og þá. Í hvaða átt á að horfa í nýjum heimi? Mikilvægast er að tryggja það að ný fyrirtæki og nýjar atvinnugreinar nái að dafna. Einkageirinn og hið opinbera þurfa að róa í sömu átt til þess að bæta samkeppnishæfni Íslands.

Hvar skórinn kreppir

Í nýrri úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni 63 þjóða, sem kynnt var hér á landi í síðustu viku, má greina ýmis tækifæri til að bæta samkeppnishæfni Íslands. Niðurstöðurnar sýna að möguleikar erlendra aðila til að fjárfesta hér á landi eru lakari en í flestum samanburðarlöndum. Hið sama á við um þann tíma sem tekur að setja fyrirtæki á laggirnar. Athugun OECD frá árinu 2018 (Product Market Regulation) bendir í sömu átt. Þar kom m.a. fram að aðgangshindranir sem erlendir aðilar búa við væri hærri hér á landi en í mörgum öðrum OECD ríkjum. Stjórnsýslubyrði (e. administrative burden) þeirra sem reka ný fyrirtæki er hér á landi væri auk þess með því hæsta sem gerist innan OECD.

Könnun IMD, sem byggir m.a. á svörum stjórnenda íslenskra fyrirtækja, gefur jafnframt til kynna að skilvirkni stórra íslenskra fyrirtækja sé minni en í flestum samanburðarlöndunum sem og alþjóðleg reynsla stjórnenda þeirra. Viðskiptaumhverfið hér á landi nái auk þess ekki að draga til sín mjög hæft (e. highly skilled) erlent starfsfólk. Þá mælist útflutningur fábreyttur sem gæti verið ein afleiðing af fyrrgreindum veikleikum í samkeppnisumhverfinu.

Til þess að nýir aðilar, innlendir sem erlendir, geti hafið hér starfsemi er jafnframt mikilvægt að þeir geti gengið að því vísu að hér sé heilbrigt samkeppnisumhverfi. Í könnun IMD er Ísland í 39. sæti af 63 ríkjum þegar kemur að mati stjórnenda íslenskra fyrirtækja á því hvort samkeppnislöggjöfin sé áhrifarík (e. efficient) til að koma í veg fyrir ósanngjarna (e. unfair) samkeppni.

Sóknarfærin

Með hliðsjón af framangreindum veikleikum er mikilvægt á óvissutímum sem þessum að tryggja það að nýsköpunarfyrirtæki nái að vaxa og dafna og með því byggja undir nýjar og fjölbreyttari atvinnugreinar til framtíðar. Skapa þarf umhverfi þar sem skamman tíma tekur að setja á stofn ný fyrirtæki með litlum tilkostnaði og umstangi, auðveldara verður að draga að hæft starfsfólk, innlent og erlent, og aðgangur að innlendu og erlendu fjármagni verður greiðari.

Þá eru ónýtt tækifæri til að gera samkeppnislöggjöfina á Íslandi áhrifaríkari. Íslenska Samkeppniseftirlitið hefur t.a.m. minnstar heimildir eftirlitanna á Norðurlöndunum til þess að framkvæma húsleitir við rannsókn mála. Ekki er heldur að finna ákvæði í samkeppnislögum sem bannar atvinnurekendum sem hafa gerst ítrekað brotlegir við samkeppnislög að koma að rekstri fyrirtækja í tiltekinn afmarkaðan tíma. Þá liggur fyrir að á Íslandi er hvað erfiðast fyrir tjónþola að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota, í evrópskum samanburði. Úrbætur af þessu tagi myndu styðja við fyrirtæki sem eru að ryðja sér til rúms.

Til að efla samkeppnishæfni og bæta lífskjör hér á landi er mikilvægt að virkt samkeppnislegt aðhald sé hvað mest. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á samkeppnislögum en í því er ekki að finna fyrrgreindar úrbætur sem myndu stuðla að því að samkeppnislöggjöf hér á landi styddi betur við samkeppnishæfni landsins. Löggjafinn hefur því tækifæri til þess að rýna þau úrbótatækifæri sem eru til staðar og styrkja samkeppnislöggjöfina. Jafnframt er mikilvægt að stjórnvöld leiti leiða til þess að auðvelda nýjum fyrirtækjum, innlendum sem erlendum, og atvinnugreinum að vaxa og dafna. Eigendur fyrirtækja geta auk þess stuðlað að aukinni samkeppnishæfni, meðal annars með því að draga að erlenda fjárfesta og stjórnendur.

Valur Þráinsson 

Aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins

Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 24. júní 2020 

Smella má á greinina hér