22.1.2020 Valur Þráinsson

Samkeppnislög: lærum af Bretum

Pistill nr.1 /2020

Árið 2011 voru samkeppnislögin styrkt verulega og íslenskum samkeppnisyfirvöldum veitt heimild til þess að bæta virkni markaða með því að bregðast við aðstæðum eða háttsemi fyrirtækja á mörkuðum sem röskuðu samkeppni, án þess þó að um brot á samkeppnislögum væri að ræða. Í Bretlandi er hvað mest reynsla af slíkum heimildum en hægt er að rekja þær aftur til ársins 1948. Í drögum að nýjum samkeppnislögum er hins vegar lagt til að fella niður heimildina. Í umfjöllun um frumvarpið er mikilvægt að líta til reynslu Breta.

Markaðsrannsóknir

Í Bretlandi er beitt svokölluðum markaðsrannsóknum þegar markaðir eru rannsakaðir án þess að grunur sé um að fyrirtæki hafi brotið samkeppnislög. Í þeim er ekki einblínt á að finna brot heldur á aðstæður eða háttsemi sem geta skaðað samkeppni og þá með hvaða bindandi hætti væri hægt að bregðast við. Í Bretlandi eru einnig í gildi samrunareglur og reglur sem banna samráð keppinauta og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Markaðsrannsóknarheimildin er hins vegar talin mikilvæg viðbót við þær reglur til að tryggja eins og unnt er að breskt samfélag njóti ábata virkrar samkeppni.
Lög um markaðsrannsóknir voru sett í Bretlandi árið 2001. Markmið þeirra var meðal annars að taka upp samkeppnisreglur í hæsta gæðaflokki („world-class independent competition regime“). Voru lögin talin mikilvæg forsenda fyrir aukinni framleiðni og hagvexti þar í landi. Á árinu 2011 voru gerðar breytingar á breskum samkeppnislögum þar sem heimildir til markaðsrannsókna voru festar enn frekar í sessi.

Framkvæmd

Frá árinu 2001 hafa bresk samkeppnisyfirvöld framkvæmt yfir 20 markaðsrannsóknir. Markaðir sem hafa verið rannsakaðir eru meðal annars dagvörumarkaður, bankamarkaður, gas- og raforkumarkaður, markaður fyrir rekstur flugvalla og markaður fyrir smáauglýsingar. Íhlutanir sem beitt hefur verið snúa til dæmis að því að auka möguleika neytenda til þess að láta reyna á samkeppni, svo sem með því að auðvelda neytendum að skipta um þjónustuaðila eða veita þeim gleggri upplýsingar um vörur og þjónustu. Þó hefur í nokkrum tilvikum verið talið nauðsynlegt að skipta upp fyrirtækjum eða stýra verði.

Sterkar vísbendingar eru um að markaðsrannsóknir breskra samkeppnisyfirvalda hafi aukið samkeppni og skilað umtalsverðum ábata til neytenda.Árið 2009 var eiganda flugvalla í og við London, Glasgow og Edinborg gert að selja tvo þeirra frá sér. Á árinu 2016 var eigendum sementsverksmiðja gert að selja nokkrar þeirra frá sér. Þá var í rannsókn á gas- og raforkumarkaði, einnig á árinu 2016, komist að því að nauðsynlegt væri að stýra gas- og raforkuverði hjá vissum hópi notenda.

Ábati

Ábati af starfi breskra samkeppnisyfirvalda er reglulega metinn. Markaðsathuganir og markaðsrannsóknir eru taldar skila mestum ábata en hægt hefur verið að rekja til þeirra um og yfir ¾ af metnum ábata, 665 til 1.045 milljónir punda á hverju ári á árunum 2014 til 2018. Jafnframt hefur verið horft til annarra mælikvarða við mat á reynslu af markaðsrannsóknum Breta. Þannig batnaði til að mynda þjónusta við farþega og framleiðni jókst á Gatwick-flugvelli í kjölfar markaðsrannsóknar breskra samkeppnisyfirvalda. Markaðsrannsóknir snerta oft mikilvæga markaði og því geta litlar jákvæðar breytingar haft mikil þjóðhagsleg áhrif.

Lærdómur

Sterkar vísbendingar eru um að markaðsrannsóknir breskra samkeppnisyfirvalda hafi aukið samkeppni og skilað umtalsverðum ábata til neytenda. Jafnframt hefur löggjafinn þar í landi reglulega endurskoðað lagarammann með það að leiðarljósi að auka skilvirkni markaðsrannsókna. Á Íslandi hefur sú heimild sem var lögfest árið 2011 jafnframt reynst vel. Við endurskoðun á samkeppnislögum er mikilvægt að horfa til reynslu Breta af markaðsrannsóknum og þá með hvaða hætti væri hægt að betrumbæta heimildir íslenskra samkeppnisyfirvalda í stað þess að fella þær niður og veikja samkeppnislögin. Þar með væri gætt hagsmuna neytenda og almennings af því að tryggja virka samkeppni.

Höfundur er Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins.

Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 22. janúar 2020.