30.12.2021 Valur Þráinsson

Standa þarf vörð um virka samkeppni

Pistill nr. 10/2021

  • Untitled-design-37-

Pistillinn birtist fyrst á Innherja þriðjudaginn 28. desember 2021. 

Sporna þarf við samkeppnishindrunum á sem flestum sviðum, draga úr reglubyrði og opna markaði. Í því sambandi er mikilvægt að stjórnvöld verndi ekki íslensk fyrirtæki fyrir erlendri samkeppni eða hygli þeim með ólögmætum hætt. Það mun hvorki gagnast þeim né íslenskum neytendum til lengri tíma.

Tilkoma Omicron afbrigðisins hefur enn og aftur minnt okkur á hversu ófyrirsjáanleg okkar nánasta framtíð er en frá því COVID farsóttin skall á heimsbyggðina hefur hugtakið fyrirsjáanleiki fengið nýja merkingu í hugum flestra. Reynsla síðustu alda og áratuga sýnir okkur að þegar þrengir að í efnahagslífi þjóða hneigist stjórnvöld oft til verndarstefnu, þ.e. aðgerða sem miða að því að vernda innlenda starfsemi eða einstakar atvinnugreinar, oft á kostnað frjálsrar samkeppni.

Samkeppniseftirlit hefur verið styrkt í viðskiptalöndum

Athyglisvert er í þessu ljósi að sjá að þrátt fyrir yfirstandandi þrengingar halda stjórnvöld flestra landa í kringum okkur áfram að standa vörð um frjálsa samkeppni. Þótt stjórnvöld hafi þurft að styðja við atvinnurekstur með ríkisaðstoð af ýmsu tagi, leggja þau áfram áherslu á að tryggja virka samkeppni, því reynslan sýnir okkur að virk samkeppni flýtir efnahagsbata og verndar um leið hagsmuni almennings.

Í Bandaríkjunum hefur það verið metið að meðalfjölskyldan í landinu verði af fimm þúsundum dollurum á ári vegna hærra vöruverðs og lægri launa sem hægt er að rekja til skorts á samkeppni. Forseti landsins, Joe Biden, hefur m.a. vegna þessa beitt sér fyrir margvíslegum umbótum sem miða að því að stuðla að virkari samkeppni og þar með lækka verð til hagsbóta fyrir fjölskyldur, hækka laun vinnandi fólks og auka nýsköpun og hagvöxt. Í júlí sl. kynnti forsetinn 72 aðgerðir til að spyrna við fótum og efla samkeppni. Í aðgerðunum felst m.a. skipun um að alríkisstofnanir beiti sér markvisst fyrir því að auka samkeppni, s.s. með útboðum, landbúnaðarráðuneytið fái heimildir til þess að stuðla að auknum samningsstyrk bænda í samningum við sláturhús- og kjötvinnslur, viðskiptavinum banka verði gert auðveldara um að skipta um banka, vinnandi fólki verði gert auðveldara að skipta um störf o.s.frv.

Reynsla síðustu alda og áratuga sýnir okkur að þegar þrengir að í efnahagslífi þjóða hneigist stjórnvöld oft til verndarstefnu.

Bretar eru að fóta sig í nýju umhverfi eftir úrsögn úr Evrópusambandinu. Það kynnu ýmsir að halda að bresk stjórnvöld myndu nýta tækifærið og reisa atvinnulífi þar í landi varnir gagnvart alþjóðlegri samkeppni. Svo er hins vegar ekki. Nú í sumar birtu bresk stjórnvöld til umsagnar ítarlega stefnumótun á vettvangi samkeppnis- og neytendamála. Þar er lögð áhersla á að bæta hag neytenda með eflingu samkeppnisreglna og samkeppniseftirlits. Þá hafa Bretar í kjölfar stefnumótunarinnar nú þegar fest í lög heimildir til handa breskum samkeppnisyfirvöldum til að grípa inn í á mörkuðum þar sem stór stafræn fyrirtæki starfa. Til skoðunar er hvernig eftirliti verður háttað með ríkisstuðningi breskra stjórnvalda til handa breskum fyrirtækjum en því eftirliti hefur framkvæmdastjórn ESB sinnt fram að útgöngu Breta úr ESB. Þá eru dönsk stjórnvöld með það til skoðunar hvort og hvernig sé hægt að styrkja eftirlit með stórum stafrænum fyrirtækjum.

Á meginlandi Evrópu hafa um langa hríð staðið yfir aðgerðir til þess að tryggja virka samkeppni neytendum og efnahag þjóða til hagsbóta. Árið 2014 setti Evrópusambandið sérstaka tilskipun sem miðaði að því að auðvelda fyrirtækjum og neytendum að sækja bætur til fyrirtækja sem brjóta samkeppnisreglur. Meðal annars auðveldar tilskipunin gagnaöflun og sönnun brota.

Árið 2019 tók gildi tilskipun sem hefur það að meginmarkmiði að styrkja samkeppniseftirlit Evrópusambandsríkja, oft nefnd ECN+. Á síðasta ári hóf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins svo vinnu við að efla úrræði til að taka á nýjum áskorunum, ekki síst á vettvangi stafrænna markaða. Í framhaldinu samþykkti Evrópuþingið nýlega lög sem veita framkvæmdastjórn ESB auknar heimildir til þess að hlutast til í starfsemi stafrænna fyrirtækja sem stunda óheilbrigða viðskiptahætti en að mati þingsins eru heimildir samkeppnisdeildar ESB ekki fullnægjandi til að taka á þeim vandamálum sem þeim geta fylgt.

Þá hafa Bretar í kjölfar stefnumótunarinnar nú þegar fest í lög heimildir til handa breskum samkeppnisyfirvöldum til að grípa inn í á mörkuðum þar sem stór stafræn fyrirtæki starfa.

Af þessu má sjá að viðskiptalönd okkar hafa markað þá skýru stefnu að efla samkeppni og skjóta þannig sterkari stoðum undir neytendavernd og velsæld almennings.

Viðfangsefni Samkeppniseftirlitsins 2021

Viðfangsefni við samkeppniseftirlit hér á landi eru af sama toga og hjá eftirlitum í kringum okkur. Tryggja þarf að samkeppnislögin veiti almenningi vernd á óvissutímum þar sem vöruskortur á alþjóðavísu og hnökrar í aðfangakeðjunni geta leitt til hærra verðs og verri þjónustu. Á slíkum tímum skipta flutningamarkaðir miklu máli fyrir eyríki eins og okkar. Því hefur Samkeppniseftirlitið lagt ríka áherslu á að tryggja að farið sé að samkeppnislögum á því sviði. Nú í sumar lauk rannsókn Samkeppniseftirlitsins á háttsemi Eimskips með sátt þar sem fyrirtækið viðurkenndi að hafa framið alvarleg brot á 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins og greiddi félagið 1,5 milljarða króna í sekt vegna brotanna.

Mál sem tengjast uppbyggingu og viðhaldi innviða sem liggja til grundvallar samkeppnishæfni þjóða eru að verða áberandi. Á því sviði er mikilvægt að nýta krafta samkeppninnar. Nefna má sem dæmi að samkeppni í innviðum fjarskiptamarkaða hefur stuðlað að betra aðgengi að háhraðaneti hér á landi en þekkist víðast annars staðar. Halda þarf áfram á þeirri braut, en einnig nýta tæki samkeppninnar til að styðja við innviði þar sem samkeppni verður síður við komið. Það er hægt að gera með því að nýta útboð til að kalla fram hagstæðara verð og bætta þjónustu. Taka þarf þau mál fastari tökum hér á landi, m.a. með því að styrkja eftirlit sem vinnur gegn samráði í tilboðsgerð.

Málefni stafrænna markaða eru og verða meira áberandi í störfum Samkeppniseftirlitsins. Alþjóðleg stórfyrirtæki skapa vettvang fyrir viðskipti þvert á landamæri (e. digital platforms) og opna á ýmis tækifæri fyrir íslenska neytendur og íslensk fyrirtæki. Þessum breytingum fylgja hins vegar ýmsar áskoranir. Þannig getur staða stóru tæknifyrirtækjanna orðið svo sterk að tilvist þeirra eða háttsemi raski samkeppni. Getur það birst í takmarkandi viðskiptaskilmálum, verðlagningu eða með öðrum hætti.

Þá eru verkefni sem tengjast sjálfbærni og aðgerðum sem draga úr hlýnun jarðar einnig að verða meira og meira áberandi. Þannig hefur fjölgað málum hjá Samkeppniseftirlitinu sem tengjast raforkumarkaði og þeim orkuskiptum sem nú standa yfir.

Samkeppni í innviðum fjarskiptamarkaða hefur stuðlað að betra aðgengi að háhraðaneti hér á landi en þekkist víðast annars staðar. Halda þarf áfram á þeirri braut.

Vaxandi umræða er um þetta á vettvangi samkeppniseftirlita í heiminum og hafa samkeppnisyfirvöld beggja vegna Atlantshafsins gripið til ýmissa aðgerða eða boðað aðgerðir sem miða að því að tryggja virka samkeppni. Sömuleiðis eru stjórnvöld víða að efla heimildir samkeppnisyfirvalda til þess að fást við þessar nýju áskoranir. Er þar m.a. litið til heimilda samkeppniseftirlita í Bretlandi og á Íslandi til svokallaðra markaðsrannsókna.

Þá eru og verða málefni matvælaframleiðslu mikilvægt viðfangsefni samkeppnisyfirvalda á Íslandi. Mikilvægi öflugrar matvælaframleiðslu hér á landi er öllum ljóst. Nýlegur samruni kjötafurðastöðvanna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða varð tilefni til ítarlegrar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins sem laukmeð sátt við samrunaaðila, þar sem þeir skuldbundu sig til aðgerða sem miða að því að tryggja hagsmuni neytenda og bænda. Við rannsóknina lét Samkeppniseftirlitið m.a. framkvæma ítarlegar kannanir meðal bænda, í því skyni að kalla fram sjónarmið þeirra. Leiddi rannsóknin enn á ný í ljós mikilvægi virkrar samkeppni til þess að vernda hagsmuni bænda. Fara hagsmunir bænda að því leyti saman við hagsmuni neytenda.

Hvað varðar samrunaeftirlit almennt þá bárust 49 tilkynningar á árinu 2021. Í þremur samrunum reyndist þörf á að grípa til íhlutana vegna skaðlegra áhrifa sem ella hefðu leitt af samrununum og í einu tilviki drógu samrunaaðilar tilkynningu um samrunann til baka í kjölfar andmælaskjals þar sem mögulegum skaðlegum áhrifum var lýst. Enginn samruni var ógiltur á árinu 2021. Að lokum má nefna að í litlu hagkerfi eins og okkar eru viðfangsefni sem tengjast samþjöppun og eigna- og stjórnunartengslum ávallt áberandi í starfi Samkeppniseftirlitsins. Á árinu gaf eftirlitið út skýrslu, nr. 2/2021, þar sem reifaðar eru rannsóknir og aðgerðir er varða stjórnunar- og eignatengsl.

Litið til framtíðar

Þegar það fer að hilla undir að heimshagkerfið, sem og það íslenska, fari að vinna sig út úr áhrifum COVID farsóttarinnar er mikilvægt að standa vörð um virka samkeppni en hún er mikilvæg til að tryggja hér hagsæld til lengri tíma litið. Virk samkeppni hefur jákvæð áhrif á verð, gæði, nýsköpun og framleiðni sem þýðir að lífskjör batna sé staðið vörð um hana. Samkeppnishindranir hafa hins vegar þveröfug áhrif. Þær leiða til lægri kaupmáttar með tilheyrandi áhrifum á íslensk heimili, sérstaklega þau sem hvað höllustum fæti standa. Vegna þessa er mikilvægt að hið opinbera ásamt samtökum fyrirtækja og samtökum launþega styðji með aðgerðum sínum við virka samkeppni.

Í litlu hagkerfi eins og okkar eru viðfangsefni sem tengjast samþjöppun og eigna- og stjórnunartengslum ávallt áberandi í starfi Samkeppniseftirlitsins.

Í þessu sambandi er einnig tilefni til þess að hafa hliðsjón af umræðuskjali Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2021, Samkeppnisvísar – alþjóðlegur samanburður. Þar kemur m.a. fram að tæpur þriðjungur stjórnenda íslenskra fyrirtækja skynjar að samráð sé til staðar á þeim mörkuðum sem viðkomandi starfar, rúmlega þriðjungur verður var við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og 85% neytenda skynja samkeppnislegan vanda. Þá benda samkeppnisvísarnir til þess að aðgangshindranir hér á landi séu töluverðar í alþjóðlegum samanburði. Þannig er Ísland í 7.-10. sæti (af 10 samanburðarlöndum) þegar horft er til viðskiptahindrana í milliríkjaviðskiptum, reglubyrði þvert á hagkerfið, reglubyrði í smásöluverslun og þann tíma sem það tekur að stofna fyrirtæki.

Eru stjórnvöld hvött til þess að taka hlutverki sínu við að styðja við virka samkeppni alvarlega en Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent rökstutt álit til Íslands vegna þátttöku yfirvalda í herferð þar sem fólk á Íslandi er hvatt til að hygla innlendum vörum og þjónustu („Íslenskt, láttu það gang“). Að mati ESA brýtur ráðstöfunin í bága við EES-reglur, einkum ákvæði EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga og frelsi til að veita þjónustu. Að mati ESA réttlæta aðstæður á Íslandi í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn ekki ráðstöfunina.

Tæpur þriðjungur stjórnenda íslenskra fyrirtækja skynjar að samráð sé til staðar á þeim mörkuðum sem viðkomandi starfar og rúmlega þriðjungur verður var við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Verkefnin fram undan eru ærin. Sporna þarf við samkeppnishindrunum á sem flestum sviðum, draga úr reglubyrði og opna markaði. Í því sambandi er mikilvægt að stjórnvöld verndi ekki íslensk fyrirtæki fyrir erlendri samkeppni eða hygli þeim með ólögmætum hætt. Það mun hvorki gagnast þeim né íslenskum neytendum til lengri tíma. Þá er efling samkeppnisreglna og samkeppniseftirlits liður í því verkefni.

Valur Þráinsson

Höfundur er aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins