Hægt er að beina formlegum kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið tekur hins vegar ákvörðun um hvaða mál eru tekin til meðferðar. Þeir sem beina erindum til eftirlitsins eiga því ekki sjálfkrafa rétt á því að mál þeirra verði tekin til meðferðar eða að þeir eigi aðild að slíku máli. Í öllum tilvikum er erindið hins vegar móttekið sem ábending.

Réttur viðtakandi
Þeir sem beina erindum til Samkeppniseftirlitsins verða að ganga fyrst úr skugga um að málefnið sé á valdsviði stofnunarinnar en ekki einhverrar annarrar stjórnsýslustofnunar.

Dæmi um erindi sem heyra undir Samkeppniseftirlitið:

  • Tilkynning um kaup á fyrirtæki sem felur í sér yfirráð kaupandans og þar með samruna í skilningi samkeppnislaga.
  • Kvörtun um brot á banni við ólögmætu samráði.
  • Beiðni um undanþágu frá banni við ólögmætu samráði.
  • Kvörtun vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu fyrirtækis.

Dæmi um erindi sem ekki heyra undir Samkeppniseftirlitið:

  • Kvörtunum vegna óréttmætra viðskiptahátta, þar á meðal auglýsinga, á að beina til Neytendastofu
  • Erindum er varða lög um fjarskipti eða lög um póstþjónustu á að jafnaði að beina til Fjarskiptastofu
  • Erindum er varða framkvæmd raforkulaga á að jafnaði að beina til Orkustofnunar

Lögvarðir hagsmunir
Ekki er sjálfsagt að þeir sem senda erindi til Samkeppniseftirlitsins geti orðið aðilar að máli því sem erindið fjallar um. Einungis þeir sem sýnt geta fram á að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta eiga aðild að málum sem Samkeppniseftirlitið tekur til rannsóknar. Með lögvörðum hagsmunum er átt við að viðkomandi eigi beina, einstaka og lögvarða hagsmuni til að fá leyst úr tilteknu ágreiningsmáli.

Kröfur til þeirra sem senda erindi

Mikilvægt er að undirbúa vel erindi til Samkeppniseftirlitsins, til að greiða fyrir ákvörðun um rannsókn eða frekari málsmeðferð.

Af þessum sökum eru sérstakar kröfur gerðar til erinda sem beint er til Samkeppniseftirlitsins, ætli málshefjandi að eiga aðild að rannsókn viðkomandi máls. Í 6. grein (gr.) reglna um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, nr. 880/2005 , og í viðauka með reglunum er kveðið sérstaklega á um þetta.

Uppfylli erindi ekki þessar kröfur er erindið móttekið sem ábending, sem síðar kann að leiða til rannsóknar. Hægt er að leggja inn ábendingar um mál sem ekki uppfylla þessi skilyrði hér á vefnum og falla þau þá undir skilmála um ábendingar.

Helstu kröfur til erinda eru þessar:

  1. Erindi skulu vera skrifleg og skulu tvö ljósrit af erindinu og fylgiskjölum fylgja erindinu. Einnig skal fylgja með eintak af erindinu á rafrænu formi.
  2. Trúnaðarupplýsingar:
    Ef trúnaðarupplýsingar koma fram í erindi skal einnig láta Samkeppniseftirlitinu í té eintak af erindi þar sem trúnaðarupplýsingar hafa verið felldar brott.
  3. Upplýsingar um þann sem sendir erindið:
    Nafn, heimilisfang, kennitala og netfang. Ef kvartandi er lögaðili skal greina frá starfsemi hans og starfsemi og uppbyggingu fyrirtækjasamstæðu sem hann eftir atvikum kann að vera aðili að.
  4. Upplýsingar um aðila sem erindi beinist að:
    Ef við á skal lýsa eins ítarlega og unnt er þeirri fyrirtækjasamstæðu sem viðkomandi fyrirtæki tilheyrir ásamt lýsingu á atvinnustarfsemi sem þessir aðilar stunda. Taka skal fram hvort sá sem ber fram erindi sé keppinautur eða viðskiptavinur þess sem kvartað er yfir eða hafi einhver önnur tengsl við hann.
  5. Lýsing á efni erindis:
    Ef kvartað er yfir meintu broti á samkeppnislögum eða opinberum samkeppnishömlum skal lýsa nákvæmlega þeim atvikum sem að mati kvartanda styðja það að brot hafi átt sér stað eða að samkeppni sé raskað. Jafnframt skal rökstutt hvers vegna þessi atvik eru talin fara gegn samkeppnislögum eða raska samkeppni. Lýsa skal með ítarlegum hætti þeirri vöru, þjónustu eða starfsemi sem tengist meintu broti eða samkeppnishömlum. Ef við á skal einnig lýsa þeim markaði sem erindið tekur til og þeim aðstæðum sem á honum ríkja, þ.m.t. viðskiptaháttum og eðli viðskipta með viðkomandi vörur eða þjónustu. Veita skal allar tiltækar upplýsingar um samninga, atvik, aðstæður eða aðgerðir þeirra aðila sem kvörtunin lýtur að. Ef við á skal tilgreina eftir föngum markaðshlutdeild allra viðkomandi fyrirtækja og gera grein fyrir helstu keppinautum og viðskiptavinum. Ef erindi lýtur að ósk um undanþágu frá 10. gr. og 12. gr. samkeppnislaga ber að setja fram ítarlegan rökstuðning sem styður það mat hlutaðeigandi að slík undanþága sé réttlætanleg.
  6. Sönnunargögn:
    Með erindinu skal fylgja afrit af öllum gögnum sem viðkomandi býr yfir og tengjast þeim atvikum sem erindið fjallar um. Slík gögn geta t.d. verið bréf, tölvupóstur, samningar, dreifibréf, fundargerðir, minnispunktar vegna funda eða símtala, yfirlit yfir verðþróun og önnur gögn eða hagtölur sem sýnt geta þróun á viðkomandi markaði o.s.frv. Tilgreina skal nafn og heimilisfang aðila sem staðfest geta þau atvik sem lýst er í erindi.
  7. Lögvarðir hagsmunir:
    Í erindi skal rökstutt hvaða lögvörðu hagsmuna hlutaðeigandi hafi að gæta. Einnig skal lýst þeim aðgerðum sem óskað er eftir að Samkeppniseftirlitið grípi til. Taka skal fram ef leitað hefur verið til annarra stjórnvalda eða dómstóla vegna málsins.
  8. Yfirlýsing:
    Ljúka ber erindi til Samkeppniseftirlitsins með eftirfarandi yfirlýsingu, undirritaðri af eða fyrir hönd allra sem að því standa:
    Undirritaðir lýsa því yfir að upplýsingar, sem veittar eru í erindi þessu, eru sannar, réttar og fullnægjandi samkvæmt bestu vitund, að óstytt afrit af skjölum fylgja með, að allt mat er tilgreint sem slíkt og sett fram samkvæmt bestu vitund og vitneskju um staðreyndir málsins og þar sem álit er látið í ljós er það gert í góðri trú. Undirritaðir hafa kynnt sér ákvæði 2. málsgrein. 42. gr. samkeppnislaga.

Ef erindi til Samkeppniseftirlitsins uppfyllir kröfur sem gerðar eru samkvæmt málsmeðferðarreglum tekur Samkeppniseftirlitið ákvörðun um hvort það gefi nægt tilefni til þess að hefja rannsókn og málsmeðferð.
Við mat á því hvort erindi gefi tilefni til rannsóknar hefur Samkeppniseftirlitið hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum sem þykja skipta máli í hverju tilviki fyrir sig. Eftirfarandi atriði geta m.a. skipt máli við mat Samkeppniseftirlitsins á því hvort hefja beri rannsókn:

  • Að meint brot eða samkeppnishömlur virðist vera alvarlegar. Umrætt tilvik getur verið alvarlegt frá sjónarhóli þess sem kvartar, en Samkeppniseftirlitið leggur heildstætt mat á alvarleikann frá sjónarhóli almannahagsmuna.
  • Að meint brot eða samkeppnishömlur varði ekki aðeins viðskiptahagsmuni kvartanda heldur geti haft víðtækari skaðleg áhrif á samkeppni. Hér er m.a. metið hvort almannahagsmunir séu í húfi.
  • Að fyrirtæki sem kvartað er yfir hafi ekki látið af þeirri hegðun sinni sem var tilefni kvörtunar. Þannig er þýðing hugsanlegrar rannsóknar metin.
  • Að kvartandi geti ekki gætt viðkomandi hagsmuna sinna fyrir dómstólum. Ekki þarf að bera öll mál sem varða samkeppnislög undir Samkeppniseftirlitið. Kvartandi kann að hafa nægar upplýsingar og gögn undir höndum til að höfða mál fyrir héraðsdómi.

Við mat á því hvort erindi gefi tilefni til rannsóknar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að leita umsagnar. Þannig getur Samkeppniseftirlitið leitað upplýsinga og sjónarmiða í því skyni að meta hvort taka þurfi málið upp.

Nafnleynd
Sá sem beinir erindi til Samkeppniseftirlitsins og óskar eftir að eiga aðild að máli getur óskað eftir því að nafni hans verði haldið leyndu. Ef líklegt má telja að hagsmunir viðkomandi skaðist ef greint er frá nafni hans er fallist á ósk um nafnleynd. Ef ekki eru forsendur til þess að fallast á nafnleynd er kvartanda gefinn kostur á því að draga erindi sitt til baka. Rétt er að taka fram að alltaf er sá möguleiki fyrir hendi að beina nafnlausri ábendingu til Samkeppniseftirlitsins, m.a. í gegnum heimasíðuna.

Málsmeðferð
Ítarlega er kveðið á um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins í reglum nr. 880/2005. Jafnframt er fjallað um ýmsa þætti málsmeðferðar annars staðar á heimasíðunni, þ. á m. um málshraða, upphaf máls o.fl.

Samkeppniseftirlitinu er heimilt að raða verkefnum sínum í forgangsröð eftir alvarleika og mikilvægi mála. Lagt er mat á þau erindi sem berast og hvort þau gefi næga ástæðu til frekari rannsókna og þeim raðað niður í forgangsröð. Í ljósi fjölda þeirra erinda sem berast Samkeppniseftirlitinu er brýnt og eðlilegt að stofnunin geti forgangsraðað verkefnum svo störf hennar verði markvissari og hnitmiðuð. Þeir sem beina erindum til eftirlitsins eiga því ekki sjálfkrafa rétt á því að mál þeirra verði tekin til meðferðar eða að þeir eigi aðild að slíku máli. Í forgangsröðun verkefna getur falist að mál sé tekið umsvifalaust til skoðunar eða jafnvel sett í bið.

Áherslur Samkeppniseftirlitsins eru leiðbeinandi við ákvarðanatöku um forgangsröðun verkefna og aðgerða í starfi stofnunarinnar. Samkeppniseftirlitið setur sér á hverju ári áherslur til næstu þriggja ára, þar sem fjallað eru um efnahagsaðstæður, áskoranir framundan og til hvaða verkefna eftirlitið muni sérstaklega líta. Þær eru birtar í ársskýrslu.

Við forgangsröðun og mat á því hvort taka eigi mál til rannsóknar er horft til 9. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. Eftirfarandi atriði geta m.a. skipt máli:

  • Að meint brot eða samkeppnishömlur virðist vera alvarlegar
  • Að meint brot eða samkeppnishömlur varði ekki aðeins viðskiptahagsmuni kvartanda heldur geti haft víðtækari skaðleg áhrif á samkeppni
  • Að fyrirtæki sem kvartað er yfir hafi ekki látið af þeirri hegðun sinni sem var tilefni kvörtunar
  • Að kvartandi geti ekki gætt viðkomandi hagsmuna sinna fyrir dómstólum