Kvartanir og erindi

Hægt er að beina formlegum kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið tekur hins vegar ákvörðun um hvaða mál eru tekin til meðferðar. Þeir sem beina erindum til eftirlitsins eiga því ekki sjálfkrafa rétt á því að mál þeirra verði tekin til meðferðar eða að þeir eigi aðild að slíku máli. Í öllum tilvikum er erindið hins vegar móttekið sem ábending.

Réttur viðtakandi

Þeir sem beina erindum til Samkeppniseftirlitsins verða að ganga fyrst úr skugga um að málefnið sé á valdsviði stofnunarinnar en ekki einhverrar annarrar stjórnsýslustofnunar.

Dæmi um erindi sem heyra undir Samkeppniseftirlitið:

  • Tilkynning um kaup á fyrirtæki sem felur í sér yfirráð kaupandans og þar með samruna í skilningi samkeppnislaga.
  • Kvörtun um brot á banni við ólögmætu samráði.
  • Beiðni um undanþágu frá banni við ólögmætu samráði.
  • Kvörtun vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu fyrirtækis.

Dæmi um erindi sem ekki heyra undir Samkeppniseftirlitið:

  • Kvörtunum vegna óréttmætra viðskiptahátta, þar á meðal auglýsinga, á að beina til Neytendastofu
  • Erindum er varða lög um fjarskipti eða lög um póstþjónustu á að jafnaði að beina til Fjarskiptastofu
  • Erindum er varða framkvæmd raforkulaga á að jafnaði að beina til Orkustofnunar

Lögvarðir hagsmunir

Ekki er sjálfsagt að þeir sem senda erindi til Samkeppniseftirlitsins geti orðið aðilar að máli því sem erindið fjallar um. Einungis þeir sem sýnt geta fram á að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta eiga aðild að málum sem Samkeppniseftirlitið tekur til rannsóknar. Með lögvörðum hagsmunum er átt við að viðkomandi eigi beina, einstaka og lögvarða hagsmuni til að fá leyst úr tilteknu ágreiningsmáli.